152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

listamannalaun.

408. mál
[19:33]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir) (F):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir hönd hv. allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009. Með frumvarpinu er lagt til að fjölgað verði tímabundið samanlögðum starfslaunum listamanna fyrir árið 2022 úr 1.600, líkt og mælt er fyrir um í 5. gr. laganna, í 1.800 sem skiptist á milli sviðslistafólks og tónlistarflytjenda.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og greint er frá því í nefndaráliti og nefndarálitið liggur frammi. Helstu efnisatriði frumvarpsins lúta að tímabundinni fjölgun á samanlögðum starfslaunum listamanna fyrir árið 2022 eins og fyrr sagði. Þá er úthlutun á hluta þess fjármagns bundin því skilyrði að ungt listafólk undir 35 ára njóti góðs af. Um er að ræða stuðningsaðgerðir í þágu atvinnulífsins vegna neikvæðra áhrifa heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd leggur til minni háttar lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar.

Að framansögðu virtu leggur hv. allsherjar- og menntamálanefnd til þess að frumvarpið verði samþykkt með þeim minni háttar breytingum sem lagðar eru til í nefndaráliti.