152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

482. mál
[12:48]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Málið er mjög gott og ég styð það eins og kom fram í andsvari mínu áðan. Ég verð því miður að beina athyglinni aðeins að öðru frumvarpi í ræðu minni um þetta frumvarp vegna þess að nú hef ég gert breytingartillögu við frumvarpið sem við erum að ræða hér í dag þess efnis að úr lögum um atvinnuréttindi útlendinga verði felld brott ákvæði um að fólk sem hefur verið veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þurfi atvinnuleyfi til að stunda hér vinnu. Samkvæmt þeim lögum geta þau sem sagt ekki byrjað að vinna um leið og þau fá dvalarleyfi. Ég legg fram þessa breytingartillögu við þetta frumvarp vegna þess að sú breyting er afar brýn. Það er afar brýnt vegna þeirra einstaklinga sem ríkisstjórnin hefur ranglega að mínu mati ákveðið að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða en ekki veitt þeim stöðu flóttamanna eins og þau eiga rétt á. Hér er ég að tala um fólk sem er að flýja stríð í Úkraínu. Á meðan lögin eru eins og þau eru þá er þetta fólk í þeirri stöðu að það þarf að sækja um atvinnuleyfi til að mega vinna hér á landi. Það lýsir sér þannig að það þarf að byrja á að finna sér vinnu áður en það fær atvinnuleyfi. Það þarf að finna einhvern sem er reiðubúinn að ráða það án atvinnuleyfis og treysta því að það muni fá atvinnuleyfið og vera reiðubúinn að bíða eftir því að atvinnuleyfið verði afgreitt. Þetta er því brýn breyting sem ég er að leggja til.

Þessi breyting er einnig í frumvarpi dómsmálaráðherra til breytinga á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, en þau síðarnefndu heyra ekki undir hans málefnasvið. Ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin ákveður að setja þessa mjög mikilvægu og jákvæðu breytingu inn í frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra en ekki inn í þetta góða frumvarp hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra er sú að frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra inniheldur svo mikið af réttindaskerðingu fyrir fólk á flótta á Íslandi að því hefur verið hafnað ítrekað á þessu þingi. Til að reyna að koma því vonda máli í gegn hefur ríkisstjórnin ákveðið að setja þetta góða ákvæði þar inn í stað þess að hafa það með í þessu máli sem væri bæði meira viðeigandi út frá lögfræðilegu sjónarhorni og auðvitað betra vegna þess að þá gætum við einfaldlega samþykkt þetta, gert góðar breytingar og rætt slæmu breytingarnar síðar eða einfaldlega sleppt þeim.

Ég hef alls ekki í hyggju að tefja það mál sem við erum að ræða hér og þess vegna gæti það skotið skökku við að ég ætli að fara að tala um annað frumvarp en ég tel mikilvægt að fólk íhugi, að allir hv. þingmenn íhugi það af mikilli alvöru að samþykkja breytingartillögu mína við þetta frumvarp þó að hún komi frá þingmanni úr minni hlutanum og þó að hún sé líka í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra vegna þess að það frumvarp mun ekki fara hér í gegn, ekki á meðan ég sit á þessu þingi.

Þessi breyting verður að fara í gegn. Þetta er góð breyting. Við erum öll sammála henni og það ætti ekki að vera nokkur vafi í huga neins þingmanns hér á þessu þingi að samþykkja þessa breytingartillögu. Hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra kvaðst sammála breytingartillögu minni efnislega en mér heyrðist nú á honum að hann ætlaði ekki að samþykkja hana vegna þess að breytingin sé í frumvarpi dómsmálaráðherra. Það er ekkert annað en stuðningur hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra við frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra.

Af því tilefni tel ég mikilvægt að fara örlítið yfir ástæður þess að ég tel ekki rétt að hleypa því frumvarpi í gegn. Þar eru ýmsar breytingar lagðar til sem hafa verið lagðar til ítrekað. Ég hef unnið með fólki á flótta á Íslandi núna í um 13 ár og í minni vinnu eru oft mikil vandræði tengd ákvæði laga um útlendinga er lúta að því að vísa héðan í burtu fólki sem hefur annaðhvort stigið niður fæti í öðru Evrópuríki, hefur einhver tengsl þar eða hefur einhvern tímann verið með dvalarleyfi þar eða fengið vegabréfsáritun þangað, jafnvel þó að það hafi ekki komið þangað, og fólki sem hefur fengið dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki. Á Íslandi eru heimildir til þess að vísa fólki úr landi án þess að skoða umsókn þeirra um alþjóðlega vernd. Það þýðir að í rauninni er málinu einfaldlega vísað frá. Fólkið fær ekki áheyrn um ástæður flótta síns og það er sent eitthvert annað. Þessi ákvæði hafa valdið gríðarlega miklum vandkvæðum vegna þess að þótt kerfið gangi út frá því að það skipti ekki máli hvar í Evrópu því er veitt vernd þá skiptir það í reynd öllu máli. Það skiptir öllu máli vegna þess að aðstæður í Evrópuríkjum, bæði almennt og til þess að taka á móti flóttafólki, eru gríðarlega ólíkar. Þegar ég hóf mína vinnu með fólki á flótta hér á landi þá voru lög um útlendinga að ákveðnu leyti eins og hæstv. dómsmálaráðherra er að leggja til að þau verði að nýju. Samkvæmt áður gildandi lögum, sem voru fyrirrennari laga frá 2016 sem gilda í dag, höfðu stjórnvöld enga heimild til að taka þessi mál til meðferðar hér á landi. Það var engin undantekning. Það þýddi það að ef fólk hafði fengið vernd í öðru Evrópuríki var því snúið við á þröskuldinum. Það fékk ekki neina áheyrn.

Það sem mér finnst svo áhugavert er að það sem varð tilefni til þess að þessu var breytt — þessu var nefnilega breytt með lögum árið 2016. Árið 2016 kemur loksins inn í lögin heimild, og ekki bara heimild heldur skylda íslenskra stjórnvalda til að taka til efnismeðferðar hér á landi umsóknir fólks þó að það hafi fengið stöðu flóttamanns í öðru Evrópuríki ef sérstakar ástæður mæla með því. Nú hef ég orðrétt eftir lögunum. Það er ekki þrengra en það, orðalagið eins og það er í dag. Þetta eru lögin sem við erum með núna. Þrátt fyrir þetta ákvæði þá er reyndar flestum snúið við, enda þykja ástæður sjaldnast mjög sérstakar. En ég vil fara yfir tilefnið sem varð til þess að þessu var breytt og þessi heimild sett þarna inn, heimildin til að taka þessi mál til skoðunar. Tilefnið var fólk. Það voru einstaklingar sem leituðu hingað til lands og þau voru svo lánsöm að fá hér stuðning, kynnast fólki sem studdi það og mál þeirra vakti athygli fjölmiðla. Það vakti reyndar svo mikla athygli fjölmiðla að þau komu upp á svið í Borgarleikhúsinu og sögðu sína sögu fyrir alla íslensku þjóðinni. Þarna var um að ræða ung hjón frá Sýrlandi með tvö lítil börn, tvær litlar stúlkur á leikskólaaldri. Þau hefðu endað í Grikklandi, ætluðu sér sannarlega ekki að sækja um vernd þar eða veru þar enda er ekkert öryggi þar, hvað þá eitthvað annað sem getur gert fólki kleift að byggja sér upp líf. Þar er fyrst og fremst öryggisleysi þegar um ung börn er að ræða. Án húsaskjóls er erfitt að vernda börnin sín fyrir ofbeldi ofan á það að geta ekki útvegað þeim mat, menntun eða annað sem þau eiga rétt á. Íslenska þjóðin sá aumur á þessari fjölskyldu, eðlilega, og mótmælti því harðlega að hún yrði send aftur til Grikklands þótt lögin á þeim tíma hafi verið þannig að stjórnvöldum bar í rauninni að senda þau beint út án þess að skoða mál þeirra. Málið varð til þess að kærunefnd útlendingamála sá einnig aumur á þeim og fór í mjög áhugaverða lögfræðilega loftfimleika til að reyna að gera þeim kleift að dvelja hér á landi. Það var svona það sem kallast á góðri íslensku skítamix, sem varð til þess að þau eru hér enn eftir því sem ég best veit. Í kjölfarið voru lög um útlendinga endurskoðuð og upp úr þeirri endurskoðun kom fram frumvarp til laga sem varð að núgildandi útlendingalögum nr. 80/2016. Þar er heimild, skylda, til að taka mál til efnismeðferðar, mál á borð við mál þessarar fjölskyldu. Það var þess vegna alveg ljóst að ástæðan fyrir því að við breyttum þessu var sú að okkur fundust lögin eins og þau voru ekki vera mannúðleg vegna þess að auðvitað á að skoða hvert tilvik fyrir sig og það þarf að vera einhver möguleiki til þess að veita fólki aðstoð þegar það er virkilega í neyð.

Þetta er eitt af því sem hæstv. dómsmálaráðherra vill núna snúa við. Hann vill afnema heimild stjórnvalda til þess að skoða mál fólks sem hefur fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki. Ég ætla ekki að eyða öllum mínum ræðutíma í að tala um aðstæður á Grikklandi, í Ungverjalandi, aðstæður flóttafólks þar. Það snýst ekkert um að þú fáir ekki nógu flotta íbúð, það snýst um það að þú fáir ekki neina íbúð yfir höfuð. Þú hefur ekki aðgang að vinnumarkaði, ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu, ekki að menntakerfi, ekki aðgang að neinu. Í Ungverjalandi er staðan jafnvel svo slæm að fólk verður fyrir lögregluofbeldi fyrir það eitt að vera á flótta. Ég hef haft fleiri en einn skjólstæðing sem er með varanlegt líkamstjón í kjölfar lögregluofbeldis í Ungverjalandi. Þessu fólki væri vísað samstundis til baka með því frumvarpi sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur lagt til að við samþykkjum.

Þetta er bara eitt ákvæði af mörgum. Þetta er eitthvað sem ég trúi ekki að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sé reiðubúinn að samþykkja. Og þá er ég ekki einu sinni farin að tala um önnur ákvæði sem varða það að aftengja tímamörk sem stjórnvöld hafa til þess að afgreiða mál. Það voru líka sett inn árið 2016 mjög mikilvæg tímamörk sem gera það að verkum að ef mál þitt hefur verið að veltast milli kerfa í meira en 12 mánuði, þá skuli málið tekið til efnismeðferðar hér á landi. Þessi ákvæði á að eyðileggja með nýju frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra vegna þess að af einhverjum ástæðum virðist íslensk stjórnvöld líta svo á að ef einhver sleppur í gegnum þennan 12 mánaða „frest“, eins og það er kallað, þá hafi þau einhvern veginn tapað. Það þurfi að koma í veg fyrir þetta að þetta gerist. Ég er sammála því að það þurfi að koma í veg fyrir að þetta gerist. En þá á ég við það að mér finnst að mál eigi að afgreiða á styttri tíma, ekki að það eigi endilega að nappa fólk sem fer fram yfir þennan frest svo það sé örugglega hægt að reyna í nokkur ár í viðbót að flytja þau úr landi. Þetta er það sem hæstv. dómsmálaráðherra er líka að reyna að gera og ég trúi því ekki að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sé í hjarta sínu sammála þessari breytingu.

Alvarlegasta breytingin, og þó eru þær allar eða margar ansi alvarlegar, ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja eða enda, varðar skyldu stjórnvalda samkvæmt lögunum til að vísa fólki út á götuna, svipta það allri þjónustu 30 dögum eftir að niðurstaða er komin í mál þeirra. Ég skil hugsunina að baki þessari breytingu en hún byggir bæði á misskilningi á því hvers vegna fólk fer ekki sjálfviljugt úr landi eftir að búið er að synja þeim um vernd hér á landi og byggir á miklum fordómum gagnvart því hvers vegna fólk leitar hingað til lands. Ég get alveg lofað öllum sem eru að hlusta að það er enginn einstaklingur sem kemur hér og sækir um vernd vegna þeirra 8.000 kr. sem hann fær frá Útlendingastofnun á viku og herbergis með þremur öðrum sem hann fær að njóta uppi á Ásbrú. Það er ekki þannig að þetta sé eitthvað eins og það er kallað á ensku, með leyfi forseta, „pull factor“. Þetta er ekki ástæðan fyrir því að fólk dvelst áfram hér á landi eftir að það hefur fengið synjun. Það dvelst hér áfram vegna þess að það þorir ekki að fara til baka, það er komið hingað vegna þess að það telur sig vera í hættu.

Þá er eitt atriði sem er rétt að benda á, sem er það að fólk ræður því ekkert hvert það fer. Þegar því er vísað úr landi þá fær það ekki bara að fara út á flugvöll og fara þangað sem því sýnist. Nei, það þarf að gjöra svo vel og fara til þess lands sem Útlendingastofnun er búin að ákveða. Í öllum tilvikum er fólk hrætt við að fara til baka. Þess vegna fer það ekki til baka. Það að vísa því á götuna mun engu breyta hvað það varðar nema því að fólk mun vera á götunni og hverjum er það í hag? Hverjum er það í hag að hafa hóp einstaklinga sem hefur ekki krónu til að sjá sér farborða, hefur ekki húsaskjól, hefur ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu? Hverjum er það í hag? Þetta eru ákvæði sem eru byggð á fordómum og fáfræði á aðstæðum einstaklinga. Ég endurtek: Ég trúi því ekki að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sé sammála þessum ákvæðum.

Þá á í ofanálag að kippa úr sambandi þegar um er að ræða útlendinga ákvæðum stjórnsýslulaga sem í okkar samfélagi eru álitin lágmarksréttindi, ákvæði samkvæmt stjórnsýslulögum t.d. um að fá mál endurupptekið ef aðstæður hafa breyst frá því að ákvörðun var tekin. Þetta á að skerða líka. Fólk á flótta á ekki einu sinni að fá að njóta lágmarksréttinda sem við teljum algjört lágmark í okkar samfélagi.

Nú er ég bara búin að tæpa á örfáum hlutum og ég veit ekki hversu mikilli orku ég á að verja í þetta mál en ég vil leggja áherslu á það að allir þingmenn, allir hv. þingmenn minni hluta og meiri hluta, (Forseti hringir.) íhugi að samþykkja breytingartillögu mína til að við getum komið þeirri mikilvægu breytingu í gegn (Forseti hringir.) án þess að af henni þurfi að leiða þær hörmungar sem hæstv. dómsmálaráðherra vill kalla yfir fólk á flótta á Íslandi.