152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

sorgarleyfi.

593. mál
[14:14]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið og ég get sýnt því sjónarmiði skilning að þetta þurfi að taka í skrefum. Ég útiloka þó ekki að hér kunni að fæðast breytingartillaga. Ég bind vonir við það og mér þætti það gott að í meðförum nefndarinnar gefi Alþingi a.m.k. skýr skilaboð um það sem ráðherrann er sjálfur að nefna, að hér séum við að stíga fyrsta skrefið en áfram verði haldið. Ég sé þetta mál sem óskaplega gott mál og mikilvægt að tryggja sorgarleyfi og sorgarorlof við þessar aðstæður, þegar litið er til hagsmuna þeirra foreldra sem verða fyrir því lífsins stærsta óláni, vildi ég segja, að missa barn og að þá fái þau, eins og hæstv. ráðherrann nefnir, svigrúm og stuðning við sorgarúrvinnslu. Það er ekki síður mikilvægt fyrir þær fjölskyldur þar sem ung börn eru á heimilinu, segjum börn undir 18 ára aldri, þegar foreldri fellur frá og skyndilega stendur foreldrið eitt, að geta notið sama stuðnings og sama svigrúms. Ég fagna því að ráðherra taki jákvætt í þessa athugasemd mína og ítreka hve hrifin ég er af þessu máli. Ég er einnig ánægð með að það sé viðurkennt að það að missa barn á lokastigum meðgöngu eða í fæðingu sé barnsmissir.