152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

sorgarleyfi.

593. mál
[14:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla, eins og aðrir þingmenn, að taka undir þetta mál og mikilvægi þess, sem var einmitt skrifað inn í stjórnarsáttmálann. Ég veit að þetta mál hefur komið til umræðu hér áður, verið þingmannamál, og ég held að það sé ofboðslega mikilvægt að við séum með þetta hér í þessum farvegi og ég vil þakka hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir það. Það er örugglega mesta hörmung sem nokkur getur upplifað að missa barn og það að þurfa að standa í því að halda áfram lífinu, halda áfram að reka sína fjölskyldu, sinna sínu daglega starfi með slíkt á bakinu er auðvitað eitthvað sem á aldrei að leggja á nokkurn mann. En því miður er það samt svo að fólk lendir í þessu og þarf að ganga í gegnum það og ef hið opinbera og ríkið, samfélagið okkar allt, getur gert fólki það eitthvað léttara, eitthvað léttbærara, þá er auðvitað ofboðslega mikilvægt að við gerum það.

Ég átta mig á því að þetta er auðvitað svolítið víðtækt. Við erum annars vegar að tala um andvanafæðingu eða fósturlát og hins vegar þegar börnin hafa náð aldri þannig að það eru auðvitað alls konar aðstæður sem upp geta komið. Ég held að við séum alltaf að átta okkur betur og betur á því hvað andleg líðan skiptir miklu máli. Það að við ætlum hér að gefa fólki tækifæri á að fara í sorgarleyfi er líka, ef maður má vera svo harðneskjulegur að segja það, ákveðinn sparnaður fyrir samfélagið því að ef fólk þarf að takast á við slíka sorg og halda áfram öllu því sem hið daglega líf krefst þá er það nú bara mjög oft þannig að fólk brennur út og endar mjög oft á því hreinlega að verða öryrkjar því það er búið að setja of miklar byrðar á það, fólk er bara of þjakað. Ég held því að við séum að stíga hér ofboðslega mikilvægt skref. Þetta er bæði mikilvægt fyrir þá einstaklinga sem munu þurfa á sorgarleyfinu halda, fyrir fjölskyldur þeirra, og önnur börn í fjölskyldunni, ég held að það skipti líka ofboðslega miklu máli. Það er eitthvað sem mér finnst ýmis grasrótarsamtök hafa staðið sig svo vel í, að takast á við það hvernig hægt er að styðja fjölskyldur og systkini þegar börn falla frá. Mér verður sérstaklega hugsað til Félags krabbameinssjúkra barna með það. Maður hefur fylgst með starfi þeirra og hvað þau hafa verið að stíga ofboðslega mikilvæg skref og verið mikilvægt stuðningsnet í kringum þá sem þurfa að takast á við missi.

Það er kannski margt sem við gætum gert betur í samfélaginu þegar fólk þarf að takast á við slík áföll. Maður heyrir það oft að fólk verður oft svolítið bugað bara af því að fara í gegnum kerfið, fara í gegnum það að fræðast um hver réttindi þess eru og hvernig þurfi að bregðast við hinum og þessum aðstæðum. Við eigum að reyna að gera fólki það örlítið auðveldara, annars vegar með sorgarleyfi, eins og hér segir, en líka með þeirri samfélagslegu þjónustu sem við búum yfir. Þarna held ég að við getum líka horft til sveitarfélaganna, að bæði ríki og sveitarfélög sameinist um að gera fólki þetta auðveldara þannig að það þurfi ekki líka að standa í baráttu til að finna út hvar réttindi þess liggja, hvaða möguleikar séu til staðar, hvernig það geti einhvern veginn komist í gegnum þetta. Og þetta er, eins og ég sagði áðan, ekki bara fyrir einstaklingana sjálfa sem í þessu lenda og þeirra fjölskyldur heldur fyrir samfélagið allt. Það er bara ósanngjarnt og það er ómannúðlegt að við séum að láta fólk takast á við sorgina á sama tíma og það þarf að berja sig í gegnum kerfið, sem við höfum samt sem áður byggt upp vegna þess að við viljum aðstoða fólk í þessari aðstöðu.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta og held að hér séum við með ofboðslega mikilvægt mál. Í ljósi þess hvernig þingfundir hafa verið þessa vikuna þá held ég líka að það sé mikilvægt að sátt hafi náðst um að koma þessu mikilvæga máli á dagskrá. Það er jú búið að ræða mikilvæg mál en það er líka búið að eyða fullt af tíma hér í þinginu í, ja, í að vera með alls konar yfirlýsingar og eitthvað sem er kannski ekkert ofboðslega mikilvægt fyrir fólkið þarna úti. En hér erum við svo sannarlega með mál sem skiptir samfélagið máli og er ofboðslega mikilvægt þannig að ég held að það sé bara gleðilegt að við náum þó að klára þetta hér. Nú vænti ég þess að málið fari í umsagnarferli sem ætti að þýða að nefndin hefði rúman tíma, þegar við komum hér saman aftur að sveitarstjórnarkosningum loknum, til að fara yfir þær umsagnir sem munu berast. Ég hlakka mjög til þess að geta afgreitt frumvarpið hér í vor áður en þingi lýkur því hér erum við svo sannarlega með mikilvægt mál á dagskrá.