152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

heildarúttekt heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma.

304. mál
[15:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli og hæstv. ráðherra fyrir að svara hér. Ég fagna mjög þeirri úttekt sem hann minnist á. Þörfin á heildstæðri og samþættri þjónustu, þegar kemur að fíknivanda, er öskrandi og hefur verið í töluvert langan tíma. Við höfum við gerð hverra fjárlaga tekist á um fjármuni til SÁÁ, Hlaðgerðarkots eða annarra þeirra sem sinna slíku starfi. Þetta gengur bara ekki lengur. Ég átti einmitt samtal við hæstv. ráðherra í fjárlaganefnd í morgun um þetta. Við erum alltaf að koma með tímabundin framlög. Ég er algerlega sannfærð um að þau frjálsu félagasamtök sem starfa í þessum geira séu að gera ofboðslega góða og mjög mikilvæga hluti fyrir samfélagið. En ég er á sama tíma algjörlega sannfærð um að ríkisvaldið, sem kaupir þessa þjónustu, verði að hafa skýra stefnu um það hvers konar þjónustu verið er að veita og á hvaða forsendum hún er veitt. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra áfram í því. Við erum með ofboðslega stórt samfélagslegt vandamál sem felst í fíknivandanum og við verðum að finna raunhæfar lausnir til að berjast við hann.