152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[21:10]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég er ekki viss um að ég sé að taka of stórt upp í mig þegar ég segi að það frumvarp sem við ræðum hér í dag sé ein af ástæðum þess að ég bauð mig fram til Alþingis. Ég hef unnið með flóttafólki frá árinu 2009, þá einkum umsækjendum um alþjóðlega vernd á Íslandi. Ýmsar breytingar hafa orðið á löggjöf og framkvæmd á þeim tíma sem ég hef verið að vinna í þessum málaflokki en á undanförnum árum hafa þær því miður í æ ríkari mæli verið til hins verra. Þetta frumvarp er eitt besta dæmið um það. Árið 2015 gerðust ákveðnir atburðir sem leiddu til þess að flóttafólki sem leitaði til Evrópu fjölgaði. Evrópuríki brugðust við á ýmsa vegu. Alþingi brást við með því að endurskoða sína löggjöf og úr varð frumvarp til laga um útlendinga sem eru núgildandi lög um útlendinga, nr. 80/2016. Þó að þau hafi að mörgu leyti ekki verið eins og ég myndi skrifa þau var þar um að ræða gríðarlega miklar réttarbætur í málefnum flóttafólks, mikilvægar réttarbætur. Ein sú mikilvægasta sem kom inn með þeim lögum var það ákvæði sem nú stendur til að afnema með frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra en það er heimild, og í mörgum tilvikum skylda, stjórnvalda til að skoða mál einstaklinga sem hingað leita þó að þeir hafi fengið alþjóðlega vernd, stöðu flóttamanns, í öðru ríki áður. Fyrir árið 2016, áður en þessi lög tóku gildi, var þetta ekki hægt. Þá voru lögin eins og hæstv. dómsmálaráðherra vill hafa þau að þessu leyti. Þá var það þannig að ef fólk hafði fengið stöðu flóttamanns í öðru ríki þá skipti ekki máli í hvaða aðstæðum fólk var þar, eða hvers vegna það leitaði þaðan og hélt áfram, heldur fékk það synjun.

Það sem gerir þetta sérstaklega áhugavert er að það sem leiddi til þess að þetta ákvæði kom inn, kom til umræðu þessarar nefndar og rataði inn í frumvarpið, voru nokkur mál sem komu upp á Íslandi, það voru nokkrir einstaklingar, fólk af holdi og blóði sem var svo lánsamt að vera í þeirri stöðu að það taldi sig geta höndlað fjölmiðlaumfjöllun og hafði tengingar sem buðu upp á það. Raunar gekk það svo langt að þau mættu til viðtals á sviði í Borgarleikhúsinu þar sem þau sögðu sína sögu, sýndu að þau væru fólk af holdi og blóði. Þá höfðu þau dvalið í Grikklandi í rúmt ár, ef mig misminnir ekki, með tvær dætur sínar á leikskólaaldri. Í Grikklandi höfðu þau verið á götunni, án húsaskjóls, án aðgengis að mat nema tilfallandi í kirkjum og ölmusu annars staðar. Þau höfðu enga möguleika á að finna atvinnu og enga möguleika á húsnæði með þessi tvö litlu börn sín. Þau leituðu áfram til Íslands, fengu áheyrn. Þeim var reyndar synjað um áheyrn. Þeim var ekki synjað um vernd, máli þeirra var vísað frá af hálfu Útlendingastofnunar. Það sem gerist í kjölfarið er að þau fá þessa fjölmiðlaumfjöllun og þessa miklu athygli og af stað fór undirskriftasöfnun. Ég man nú ekki tölu undirskrifta sem náðist í það skipti en fjöldinn var ansi mikill. Í kjölfarið var þeim veitt dvalarleyfi hér á landi með því sem ég kýs að kalla lögfræðilegum loftfimleikum kærunefndar útlendingamála. Svo undarlegir voru þeir loftfimleikar að ekki þótti fara vel á því að fara þessa leið til að hjálpa fólki í þessari stöðu heldur var tekið upp það ákvæði sem hæstv. dómsmálaráðherra vill nú afnema um að heimilt væri, ef sérstakar ástæður mæla með því, að veita fólki í þessari stöðu áheyrn og hugsanlega alþjóðlega vernd hér á landi í kjölfarið. Ég gæti farið í mjög löngu máli yfir það sem ég tel vera að núgildandi framkvæmd á þessum ákvæðum en það er alveg á tæru að vandamálið er ekki það að þessi heimild skuli vera til staðar. Það að afnema þessa heimild er ekki rétta svarið við þeim áskorunum sem íslenska kerfið stendur frammi fyrir.

Þær tölur sem ég nefndi í andsvari mínu rétt áðan koma fram frá hæstv. dómsmálaráðherra í svari við fyrirspurn minni sem ég beindi til hans fyrr á þessu ári um það hversu margir einstaklingar leituðu hingað eftir að hafa fengið vernd í öðrum ríkjum. Af þeim tölum að dæma er alveg ljóst að það er ekki sá fjöldi sem er að sökkva Íslandi í svartan sæ. Það voru rúmlega 150 einstaklingar árið 2019, fóru upp í rúmlega 250 árið 2020 og aftur niður árið 2021. Miðað við þann fjölda sem leitar til Íslands árið 2022, sem hefur ekki fengið stöðu flóttamanns í öðru ríki, þá geri ég ráð fyrir því að þessi hópur verði bara brotabrot af því fólki sem hingað leitar. Það mun ekki leysa neinn vanda að vísa þessu fólki aftur á brotajárnshaugana í Grikklandi. Þetta er ekki vandamál íslenska kerfisins.

Vandamál íslenska kerfisins er akkúrat öfugt. Það er það að mál sem í raun mætti álíta borðleggjandi, eins og mál umræddrar fjölskyldu og fólks í sambærilegri stöðu — fleiri einstaklingar í svipaðri stöðu hafa leitað hingað, barnafjölskyldur og veikburða einstaklingar, fatlað fólk, konur sem hafa orðið fyrir gríðarlega alvarlegu kynferðisofbeldi, jafnvel í móttökuríkinu sjálfu. Hingað hefur leitað fólk í þessari stöðu, ekki 1.500 manns, ekki 1.000 manns, ekki einu sinni 500 manns. Þetta er ekki vandamálið. Vandamálið er það hversu langan tíma það tekur að velkja þessu fólki í gegnum kerfið áður en því er síðan vísað í burtu. Á endanum kemst almenningur kannski á snoðir um fyrirhuguð ódæðisverk stjórnvalda og knýr á um að því verði snúið við. Þetta tekur heillangan tíma. Þetta tekur mjög langan tíma sem er ekki bara dýrt og vont fyrir íslenska kerfið heldur gríðarlega slæmt og alvarlegt fyrir þessa einstaklinga sömuleiðis.

Þá kemur að annarri réttarbót sem kom inn árið 2016 sem nú stendur einnig til að eyðileggja með frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra. Það var ákvæði sem kom líka inn árið 2016 um það að ef mál sem til stendur að taka ekki til efnismeðferðar, til stendur að vísa frá án þess að skoða það — ef það hefur verið í vinnslu hér lengur en í 12 mánuði skuli það tekið til efnismeðferðar. Þetta ákvæði var sett inn eftir að fleiri og fleiri dómsmál voru höfðuð þar sem einstaklingar höfðu verið hér í þrjú eða fjögur ár án þess einu sinni að búið væri að taka afstöðu til þess hvort opna ætti málið. Það sér hver maður að þetta er galið. Þess vegna var þetta ákvæði sett inn, ákvæði sem sagði að ef málið hefði verið í vinnslu hjá íslenskum stjórnvöldum lengur en í 12 mánuði skyldi það tekið til efnismeðferðar. Svo eru á því smá varnaglar, nema ef einstaklingurinn sjálfur verði talinn bera ábyrgð á töfum málsins. Það má telja það réttan fyrirvara þótt hann hafi sannarlega verið undarlega túlkaður í framkvæmd en þau mál eru enn fyrir íslenskum dómstólum, sum þeirra.

Með frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra stendur í raun til að taka þetta algjörlega úr sambandi. Þess vegna tel ég það skjóta skökku við, líkt og ég benti á í andsvari mínu við hæstv. dómsmálaráðherra hér áðan, að talað sé um skilvirkni. Það er talað um að einn megintilgangur þessara breytinga sé að auka skilvirkni. En það eykur vitanlega ekki á skilvirkni þegar verið er að taka í burtu ákvæði sem hefur í raun verið ein mesta réttarbót í þessum málaflokki frá því að þessi lög voru sett árið 2016. Þetta ákvæði hefur stytt málsmeðferð um mörg ár í fjölmörgum málum þar sem íslenska ríkið þráast við og reynir að koma fólki úr landi en tekst það ekki á innan við 12 mánuðum. Þá þarf það bara að gjöra svo vel að taka málin til meðferðar og situr uppi með þessa einstaklinga. Það hefur svolítið verið mín tilfinning, sem lögmanns sem starfar í þessum málaflokki með þessu fólki, við meðferð máls þeirra hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála, að stjórnvöld líti svo á að ef þau „falla á tíma“, á þessum 12 mánaða fresti — fólk fær áheyrn hér og fær loks vernd — hafi þau tapað, þá hafi eitthvað klikkað, það eigi helst ekki að gerast. Núna á því að gera breytingar á þessu til að koma í veg fyrir að þetta eigi sér stað. Með því að hraða málsmeðferð? Nei. Með því að gera það að verkum að þó að 12 mánuðir séu liðnir geti íslensk stjórnvöld haldið áfram að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að moka fólki úr landi. Eini tilgangurinn með þessu ákvæði er að minnka möguleika fólks á því að geta sest hér að eftir heillanga dvöl og jafnvel eftir langa málsmeðferð sem íslensk stjórnvöld bera ábyrgð á.

Breytingar hæstv. dómsmálaráðherra á þessu ákvæði kveða á um það að ef viðkomandi einstaklingur eða foreldrar hans, börn hans, frænkur eða frændur eða rigningin, eða ég veit ekki hvað, gætu hugsanlega á einhverjum tímapunkti hafa haft einhver áhrif á tafir við meðferð málsins eigi þessir 12 mánuðir ekki við. Þetta eru sannarlega ýkjur, þetta var ekki bein tilvitnun en nokkurn veginn svona. Það sem er helst við þetta athuga — þetta gæti hljómað eðlilega í hugum einhverra. Ókei, ef tafirnar eru ekki á ábyrgð íslenskra stjórnvalda er þá ekki eðlilegt að þessir frestir falli um sjálfa sig? Ég segi nei, en ég skil þá afstöðu. En þá langar mig að benda á hvernig þessu er beitt í framkvæmd. Við vorum með ansi mörg mál hér fyrir ekki löngu þar sem íslensk stjórnvöld, Útlendingastofnun, tóku upp á því algerlega án rökstuðnings og án tilefnis að breyta fyrri stjórnvaldsframkvæmd sem var þannig að fólki var ekki vísað til Ungverjalands þó að það hefði fengið þar vernd. Það var þannig frá árinu 2017 sem var staðfest 2018 af kærunefnd útlendingamála, fólki var ekki vísað aftur til Ungverjalands vegna aðstæðna flóttafólks þar í landi þar sem það er jafnvel beitt miklu lögregluofbeldi og er algerlega útskúfað úr samfélaginu sem er staðfest í öllum opinberum heimildum um stöðuna í Ungverjalandi. Útlendingastofnun tók upp á því að breyta þessari framkvæmd með því að kalla þessa einstaklinga í viðtöl og ræða við þá um Ungverjaland í stað þess einfaldlega að taka þessi mál til meðferðar, veita þeim stöðu flóttamanns, sem þeir áttu sannarlega rétt á og engin deila var um, leyfa þeim að hefja sitt líf og jafnvel hefja fjölskyldusameiningarferli eða annað. Nei, þá tekur Útlendingastofnun upp á því að fara að setja þessi mál í það sem við köllum verndarmeðferð, þ.e. að kanna hvort ekki sé einhvern veginn hægt að koma þeim aftur til Ungverjalands. Þetta vakti upp svo mikinn lögfræðilegan ágreining að flest þessara mála, sem ég kann ekki nákvæma tölu á en þau voru einhvers staðar á bilinu 10–50, fóru tvo hringi í gegnum kerfið. Útlendingastofnun tók ákvörðun. Málið var kært til kærunefndar útlendingamála sem felldi það úr gildi, sendi það aftur til Útlendingastofnunar sem tók aftur sömu ákvörðun og kærunefndin staðfesti á endanum að senda eigi viðkomandi til Ungverjalands viku áður en 12 mánuðir eru liðnir, jafnvel deginum áður en 12 mánuðir eru liðnir. Við erum með raunverulegt dæmi þess að maður var fluttur úr landi daginn áður en 12 mánuðirnir voru liðnir. Hann er í Ungverjalandi í dag. Margir þessara einstaklinga gerðu það sem í þeirra valdi stóð til að reyna að komast hjá flutningi, flestir með aðstoð lögfræðinga sinna og eftir leiðum sem eru fullkomlega löglegar og eðlilegar og geta ekki talist þannig að fólk sé að reyna að tefja mál sitt. Málið er kannski búið að taka 11 og hálfan mánuð og ef það tefst um þrjá daga, vegna þess að lögmaðurinn óskar eftir endurupptöku eða að óskað er eftir frestun vegna læknistíma, eru tafirnar á ábyrgð kæranda. Svona er þetta túlkað. Íslensk stjórnvöld taka 11 mánuði í að vinna mál en á síðustu metrunum koma upp einhverjir vankantar og þá: Nei, tafirnar voru á ábyrgð kæranda,12 mánuðirnir eiga ekki við. Íslensk stjórnvöld geta haldið áfram af öllum sínum mætti, sem er ansi mikill, við að reyna að koma fólki úr landi. Þessi framkvæmd er enn við lýði og þetta er með núgildandi lögum. Þarna erum við að tala um lögin eins og þau eru án þeirra breytinga sem hæstv. dómsmálaráðherra vill gera.

Með þessu frumvarpi er verið að taka til baka og eyðileggja réttarbætur sem voru gerðar á kerfinu árið 2016, ekki í nafni skilvirkni. Þetta snýst ekkert um skilvirkni enda leiðir þetta ekki til meiri skilvirkni. Þetta er eingöngu gert í þeim tilgangi að takmarka möguleika fólks til að setjast hér að, til að leita hingað eftir skjóli og mannsæmandi lífi þar sem það getur veitt börnum sínum húsaskjól og vernd fyrir ofbeldi, svo að ekki sé talað um hluti eins og heilbrigðisþjónustu, menntun og annað sem okkur þykir algjörlega sjálfsagt en er talið lúxus í þessum bransa. Ég hvet allan þingheim til að skoða þetta mál, skoða umsagnirnar sem hafa borist og munu berast um það. Mig langar til að höfða sérstaklega til þingmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs vegna þess að ég trúi því ekki að þau telji þetta mál í samræmi við stefnu þeirra í útlendingamálum.