Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 77. fundur,  18. maí 2022.

grunnskólar.

579. mál
[17:50]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek undir með hv. þingmanni, ég vona líka að þetta verði til góða og til gagns fyrir nemendur og samfélagið. Það er alveg rétt að Menntamálastofnun hafði það hlutverk að leggja fyrir samræmd próf en þeir voru líka að vinna í þróun á þessu nýja matsferli eða samræmda námsmati og síðan var ráðuneytið að vinna í samræmdu námsmati. Það sem við höfum verið að gera núna með þessari ákvörðun er að gefa okkur svigrúm næstu tvö árin og segja: Heyrðu, við ætlum ekki að fara í núverandi samræmd próf og búa til kerfi í kringum þau, við ætlum að setja allan kraft í innleiðingu á því nýja námsmati sem þegar er komið vel af stað og raunar má segja að mikill kraftur hafi verið í því síðustu vikur og mánuði. Markmiðið er síðan að koma með samræmt námsmat þvert yfir og ég bind miklar vonir við að það geti gengið, enda er verið að setja allan kraft í það núna. Ætlunin er að því verði lokið á þessu tímabili og þá heyri samræmd könnunarpróf eins og við höfum þekkt þau, eins og ég sagði áðan, þau sem ég tók á sínum tíma, sögunni til en annað tæki kemur í staðinn til að meta námsframvindu og námsmat einstakra nemenda og þar af leiðandi einstakra skóla.