Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 78. fundur,  23. maí 2022.

um fundarstjórn.

[15:56]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé margt sem þarf að gera til að breyta ásýnd þingsins og í rauninni að gera verk þess miklu skilvirkari en við erum að upplifa í dag. Það er auðvitað óþolandi, bæði fyrir þing og þjóð, að búa við þær aðstæður sem hafa verið í þinginu langan tíma. Ég hef orðið vitni að þessu fyrirkomulagi sem hér er talað fyrir, að hér eigi sér stað meiri pólitísk umræða í öðrum þingum þar sem menn takast á, t.d. í tveimur punktum eins og hér kom fram, og ég held að þetta sé bara ágæt hugmynd að skoða þetta, að hér geti farið fram áhugaverðar pólitískar umræður um mál þar sem menn takast á. Ég held að þetta geti orðið til þess að áhugi muni glæðast á störfum þingsins hjá almenningi. En samhliða þessu, virðulegur forseti, þá verðum við auðvitað að setja okkur einhver tímatakmörk í afgreiðslu á málum eins og tíðkast í öðrum þingum. Við verðum að hætta þessu málþófsrugli og virða lýðræðislegan meiri hluta í þessu þingi að lokinni slíkri umræðu. En ég held að þetta gæti verið gott skref breytinga og ákveðin málamiðlun þar sem fólk kemur sínum sjónarmiðum á framfæri, við komumst að einhverri niðurstöðu og greiðum atkvæði um mál með lýðræðislegum hætti og klárum þau.