Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 79. fundur,  24. maí 2022.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingflokksformanni Vinstri grænna fyrir að koma og eiga orðastað við mig um sölu á hlut almennings í Íslandsbanka. Eins og ljóst er gekk sú sala ekki eins og best væri og ferlið er nú til rannsóknar hjá Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirliti Seðlabankans. Við í stjórnarandstöðunni kölluðum frá fyrsta degi eftir því að farið yrði í ítarlegri rannsókn á aðferðafræðinni við söluna, framkvæmd og svo lagalegri og pólitískri ábyrgð. Slíkt er ekki gert með rannsókn Fjármálaeftirlitsins eða Ríkisendurskoðunar heldur með rannsóknarnefnd Alþingis.

Í umræðu um þá kröfu okkar kom ítrekað fram af hálfu stjórnarliða að ekki væri heppilegt að mál væri unnið á tveimur stöðum í einu og því þyrfti að bíða niðurstöðu Fjármálaeftirlits og Ríkisendurskoðunar, sem eru reyndar tveir staðir í einu. Nú hefur komið í ljós að samhliða því að vilja bíða eru stjórnvöld sjálf að kalla eftir lögfræðiálitum frá lögmannsstofu sem vill svo til að kom að ráðgjöf við sölu á eignarhlutunum. Má því ætla að umrædd lögmannsstofa sé eitt viðfangsefna þeirrar rannsóknar sem nú á sér stað.

Vegna þess hversu tíðrætt hv. þingmanni hefur verið um traust og að ferlið sé gagnsætt og opið vil ég spyrja í fyrsta lagi: Telur hann traustvekjandi að samhliða óháðri rannsókn séu stjórnvöld að panta og birta opinberlega álit frá lögmannsstofu sem kom að ráðgjöf við söluna?

Í öðru lagi: Telur hann eitthvað því til fyrirstöðu að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefji undirbúning að afmörkun tillögu um skipun rannsóknarnefndar þegar fyrir liggur að þær stofnanir sem þegar eru með málið annast aðeins afmarkaða hluta þess og koma t.d. ekkert inn á hina pólitísku og siðferðislegu ábyrgð?