Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að vekja athygli þingheims á máli sem ég og aðrir í þingflokki Viðreisnar, ásamt öllum í þingflokkum Samfylkingar og Pírata, lögðum fram rétt í þessu. Í því er lagt til að Alþingi álykti að fela dómsmálaráðherra að tryggja að stofnanir sem undir ráðuneytið heyra sendi umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki til Grikklands, Ítalíu eða Ungverjalands, óháð því hvort viðkomandi hafi þegar hlotið þar alþjóðlega vernd eða ekki. Ástæðan fyrir þessu er afar einföld og skiljanleg. Við viljum ekki að íslenska ríkið sendi fólk í óboðlegar og jafnvel hryllilegar aðstæður í þessum löndum því að það er ómannúðlegt og einfaldlega ljótt að gera það. Þetta á sér reyndar stoð í íslenskum lögum þar sem bann er lagt við því að vísa fólki á brott eða endursenda þangað sem lífi þess eða frelsi kann að vera stefnt í hættu.

Í síðustu viku lögðu sömu þingflokkar ásamt Flokki fólksins fram aðra tillögu sem sneri sérstaklega að þeim hópi sem sótti um vernd á meðan faraldurinn geisaði í því skyni að stöðva fordæmalausa fjöldabrottvísun. Það er löngu tímabært að Ísland, og reyndar mörg önnur ríki Evrópu, þar með talin Norðurlöndin, hætti að útvista ábyrgð sinni á þeim flóttamannavanda sem heimsbyggðin glímir við, útvista honum til landa sem fá vandann í fangið vegna landfræðilegrar legu sinnar en hafa hvorki burði né getu til að ráða við ein. Ég endurtek það sem ég hef áður sagt í þessum ræðustól: Við sem sitjum í þessum sal og eigum börn, systkini, foreldra og vini þurfum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við myndum sjálf vilja láta senda okkur og fólkið okkar í óboðlegar aðstæður. Myndum við sjálf vilja börnin okkar yrðu rifin upp úr öruggu umhverfi og send í aðstæður þar sem óöryggið er algert og varla húsaskjóli að hafa? Nei, við myndum ekki gera það og nákvæmlega þess vegna eigum við ekki að senda annað fólk í þessar aðstæður.

Það er ákaflega dapurlegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ríkisstjórnarflokkarnir þrír ætli að samþykkja frumvarp sitt sem gengur þvert gegn þessu einfalda viðmiði sem við ættum öll að tileinka okkur.