Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 83. fundur,  1. júní 2022.

heilbrigðisþjónusta.

433. mál
[18:43]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Við ræðum mál um stjórn yfir Landspítalanum okkar, mál sem hefur dúkkað mjög reglulega upp síðustu ár, jafnvel áratugi. Það var að ég hygg árið 2007 sem síðast var starfandi stjórn yfir spítalanum og lögð niður en þá hafði árin áður verið nefnd, ég held að ég fari rétt með að hún hafi heitið stjórnarnefnd ríkisspítalanna og var við lýði um nokkurt skeið. Síðan hefur þetta verið mál sem hefur komið upp öðru hverju. Ég er ein þeirra sem hafa talið það jákvætt að setja stjórn yfir spítalann. Þetta er jú eining sem fer með gríðarlega fjármuni, flókin starfsemi. Eftirlitshlutverk okkar þingmanna, sem förum með fjárveitingavaldið annars vegar og síðan með ýmiss konar eftirlitshlutverk, hefur oft og tíðum verið býsna flókið þegar kemur að flókinni starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar okkar og þessa hryggjarstykkis í heilbrigðiskerfinu.

En það er kannski þetta með stjórnir yfir Landspítalanum og hefur verið gegnumgangandi í umræðunni um þessi mál, sem hefur verið þó nokkur, að það er ekki alltaf alveg ljóst hvað fólk meinar með þessu, þ.e. hvað fólk sér fyrir sér að slík stjórn geti áorkað. Einhverjir tala um að þetta sé fyrst og fremst — og nú er ég ekki endilega vísa í þetta tiltekna frumvarp, ég kem kannski að því rétt bráðum — en svona í umræðunni almennt er þetta allt frá því að vera að fólk sé á þeirri skoðun að það eigi að setja stjórn yfir Landspítalann sem gegni svipuðu hlutverki og félagastjórnir eða stjórnir yfir fyrirtækjum, þar sem farið er vel ofan í rekstur frá mánuði til mánaðar, það er eftirfylgni með stefnumótun og fylgst með því að viðkomandi eining uppfylli markmið eigenda og umsjón með helstu ráðningum, að minnsta kosti forstjóra og eftir atvikum annarra, svo drepið sé á þessu helsta.

Síðan eru aðrir sem hafa þá skoðun á stjórn yfir Landspítala að hún eigi fyrst og fremst að vera skipuð fólki sem er til þess bært að hafa faglegt eftirlit með hinni mjög svo flóknu og margbrotnu starfsemi spítalans, þ.e. að þar eigi að vera fólk með þekkingu og færni og reynslu. Sumir tala um, af því að við erum fámenn þjóð og það er ekki endilega þannig að við eigum slíkt fólk á lausu ef það er ekki þegar starfandi innan spítalans, að jafnvel sé leitað til fagfólks erlendis.

Enn aðrir tala um að svona stjórn eigi fyrst og fremst að gæta hagsmuna notenda í þeim skilningi að hún eigi að tryggja samskipti notenda við hinar ýmsu deildir og ýmsu þjónustusvið og vinna að því að greiða leið notenda sem best.

Svo eru enn aðrir sem segja að það þurfi stjórn til þess að gæta hagsmuna starfsmanna. Það hefur nú ekki farið lítið fyrir fréttum af örmagna starfsfólki sem sér einhvern veginn ekki út úr augum í verkefninu og er orðið langþreytt, svo ég noti ekki sterkara orð, á því að kvartanir þess og ábendingar séu ekki teknar til greina eða skili neinu.

Þetta eru býsna fjölbreytt verkefni, öll mikilvæg en mjög fjölbreytt. Það liggur í hlutarins eðli að það er ekki á færi einnar stjórnar að uppfylla þetta allt. Þá erum við kannski komin að því að ég vitni í forstjóra Landspítalans úr fréttum dagsins þar sem Runólfur Pálsson segir að það sé óreiða í skipulagi heilbrigðisþjónustunnar. Ég tek hjartanlega undir þessi orð forstjórans. Sú óreiða verður ekki leyst með stjórn yfir Landspítala þó svo að Landspítalinn leiki lykilhlutverk í heilbrigðiskerfinu okkar. Ég held að frekar megi segja að hluta vandans, sem starfsfólk og stjórnendur Landspítalans og notendur standa frammi fyrir, megi rekja til þessarar óreiðu. Kannski ættum við að íhuga stjórn yfir heilbrigðiskerfinu okkar. En við erum jú með hana, ekki satt? Hún er bara ekki endilega alltaf að klára málin og hér er ég að sjálfsögðu að vísa í hæstv. ríkisstjórn. Þetta var nú útúrdúr en þetta er það sem forstjóri Landspítalans segir og skefur ekkert utan af því, að vandi spítalans sé grafalvarlegur og gríðarstór en hins vegar þurfi að skilgreina hlutverk hans betur.

Svo er áhugavert að forstjórinn talar um þá skipulagsóreiðu sem hefur verið í mörg ár í heilbrigðisþjónustunni og að hún sé ekki hvað minnst á höfuðborgarsvæðinu. Það er áhugavert. Ég held að við séum öll sammála um að íbúar landsbyggðanna ríða ekkert sérlega feitum hesti oft frá heilbrigðisþjónustunni. En sá vandi er annars eðlis sem þeir standa frammi fyrir. Þar skortir fólk og þar skortir aðgengi á meðan sú óreiða sem forstjóri Landspítalans talar um í heilbrigðiskerfinu, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu, kristallast í stöðunni á Landspítala sem býr við það að vera annars vegar héraðssjúkrahús okkar sem búum á suðvesturhorninu og síðan sérhæft sjúkrahús fyrir alla landsmenn. Þetta er nokkuð sem gerir stöðu spítalans gríðarlega flókna, sem gerir fjármögnun, á meðan hún er jafn ógagnsæ og raun ber vitni, mjög erfiða og allan samanburð við önnur sjúkrahús erlendis líka flókinn vegna þess að þetta eru býsna sértækar aðstæður. Ég er ekki að segja að ekki sé hægt að finna héraðsspítala, einhvers staðar á Norðurlöndum kannski sérstaklega. Vissulega er það hægt og það hefur legið fyrir en það breytir því ekki að oft þegar við berum saman sjúkrahús, hvort sem við viljum bera saman verkefni sjúkrahúsanna eða fjárhagsstöðu, fjármögnun eða rekstur, þá erum við að bera saman epli og appelsínur vegna þess að við stöndum frammi fyrir þessari stöðu.

Þá erum við komin að því hvað þessi stjórn eigi að gera. Það kemur fram í málinu sjálfu og nefndaráliti að þessu frumvarpi er fyrst og fremst ætlað að breyta lögum um heilbrigðisþjónustu til að skapa svigrúm fyrir skipan slíkrar stjórnar. Kveðið er á um hversu margir eiga að sitja í henni — og ég ætla svo sem ekkert að hafa skoðun á þeirri tölu, fimm, sjö, níu — en annað er látið eftir í reglugerð. Er það ekki? Þá erum við aftur kominn að því hver setur reglugerðir. Jú, það er ráðherra heilbrigðismála. Við einhvern veginn sitjum enn þá í þessari lúppu. Það er búið að reyna að færa þetta einhvern veginn til en við ætlum samt að vera með í þessari stjórn fagfólk og við ætlum að vera með einhverja sem hafa skilning og þekkingu á rekstri. Svo eru það áheyrnarfulltrúar starfsfólks, samanber breytingartillögu meiri hlutans, og síðan eru það breytingartillögur minni hlutans um áheyrnarfulltrúa úr hópi notenda. Þetta er allt mikilvægt, að raddir þessara fulltrúa heyrist þegar kemur að rekstri spítalans. Það er líka mikilvægt að þeir séu þarna inn í myndinni. En ég hygg samt að við sem þekkjum það af eigin raun að sitja í stjórn þar sem virkilega er ætlunin að taka á rekstri höfum ýmislegt við það að athuga raunverulega að við það borð sitji alltaf fulltrúar starfsfólks. Það liggur einfaldlega í hlutarins eðli. Ég myndi a.m.k. telja mikilvægt að einhvers konar greinarmunur sé gerður á því hvort þeir séu alltaf eða hvort þeir séu áheyrnarfulltrúar í tilteknum verkefnum eða hvort það eigi hreinlega fjölga í stjórn. Það þekkist líka að það sé stærri stjórn — hún getur þess vegna verið ellefu manna — sem er með stærri verkefnalista sem lýtur þá kannski að því sem ég er búin að vera að tala um að einhverju leyti, þ.e. aðgengi, notendum, starfsemi, skipulagi og öðru slíku og fjármálum, en síðan sé önnur — þegar ég ætla að einfalda málið fer ég eiginlega þá leið að flækja það — þá hluti af þessari stóru stjórn sem sé með kjarnareksturinn og þar séu ekki fulltrúar starfsfólks meðtaldir. Þetta er ekki endilega tillaga frá mér, langt í frá. Ég er bara að velta þessu upp af því að það sem ég sit svolítið eftir með, verandi samþykk því og á þeirri skoðun að svona stjórn geti verið af hinu góða, er að þetta er enn þá gríðarlega opið og lykilákvarðanirnar um hverjir skipa og hver verkefnalistinn er eru áfram skildar eftir í hendi ráðherra. En ég hefði t.d. haldið að stjórnin væri að taka þær ákvarðanir til sín að hluta til. Mér finnst þetta fara eilítið í hring.

Ég hlakka til umræðunnar. Ég veit að það eru töluvert margir hér á mælendaskrá, fólk sem situr í hv. velferðarnefnd, nokkuð sem ég geri ekki, þannig að ég ætla nú bara að læra af þeim sem hér hafa verið og unnið þetta mál áfram. Bara svo ég klári: Heilt yfir er ég sammála þessu máli, er hlynnt því, en hefði viljað sjá aðeins skarpari skil og skarpari línur um það hvert raunverulegt hlutverk þessarar stjórnar er og þar með og ekki síður hverjar væntingar okkar eru til þess ágóða í sinni víðustu mynd sem við og heilbrigðiskerfið okkar, og Landspítalinn, fær af skipun slíkrar stjórnar.