Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 84. fundur,  2. júní 2022.

flutningur aðseturs Vatnajökulsþjóðgarðs, munnleg skýrsla umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[12:11]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og aðrir þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrslugjöfina. Náttúra Vatnajökulsþjóðgarðs er einstök og menningarsagan á sér enga líka á heimsvísu. Þjóðgarðurinn, sem var stofnaður 2008, var nýverið samþykktur á heimsminjaskrá UNESCO, eða á árinu 2019, en það ár heimsóttu um 2 milljónir ferðamanna þjóðgarðinn. Meginstarfstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs eru staðsettar á Höfn í Hornafirði, Kirkjubæjarklaustri, Skriðuklaustri, í Ásbyrgi, Mývatnssveit og Skaftafelli. Lögheimili þjóðgarðsins hefur þó verið á höfuðborgarsvæðinu, í Garðabæ. Þjóðgarðurinn er landsbyggðarstofnun og auðvitað er það viðeigandi að starfsemi hans verði að fullu á landsbyggðinni á þeim svæðum sem hann varðar mest. Tekin hefur verið sú ákvörðun núna að flytja formlegt aðsetur og lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs til Hafnar í Hornafirði næsta haust. Sú ákvörðun var tekin í samráði við stjórn þjóðgarðsins en í henni sitja fulltrúar frá öllum starfssvæðum þjóðgarðsins.

Sú ákvörðun að flytja aðsetur þjóðgarðsins á landsbyggðina hefur lengi verið til umræðu og hefur hún almennt talist vera til bóta. Það er margt sem mælir með þessum flutningi. Þó svo að Vatnajökull sé ekki á höfuðborgarsvæðinu hefur lögheimili þjóðgarðsins verið þar. Það er gömul saga og ný að ákvarðanir sem varða byggðir utan höfuðborgarsvæðisins eru þó teknar þar, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hefur gerst með stöðugum flutningi opinberra starfa frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins með tilheyrandi atvinnumissi í þeim byggðum. Með flutningi aðseturs og lögheimilis Vatnajökulsþjóðgarðs til Hafnar í Hornafirði er verið að efla svæðið með tilkomu opinberra starfa. Þessi ákvörðun er í samræmi við nýja byggðaáætlun sem við höfum til meðferðar í þinginu þessa dagana og áherslu núverandi ríkisstjórnar um að auka hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni sem finna má í stjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Í flutningunum felst styrking starfsstöðva stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Með þessum flutningum er gert ráð fyrir að starfsstöðin Höfn í Hornafirði verði efld þar sem framkvæmdastjóri mun hafa þar aðalstarfsstöð en möguleiki er á að fleiri stöðugildi sem staðsett voru í Garðabæ flytjist þar með, sem væri augljóst og mikilvægt og gott næsta skref. Þessum flutningi tek ég því fagnandi og segi: Loksins! En það er viðeigandi að lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs verði á Höfn í Hornafirði enda hafa Skaftfellingar eða Hornfirðingar búið í hvaða nánustu sambýli við jökulinn gegnum aldirnar. Þetta er fólk sem þekkir svæðið best. Svæðið varðar það mest af öllum og þau vita best hvað þarf að gera á svæðinu. Þetta varðar vissulega störf sem eiga eðli málsins samkvæmt að vera bundin landinu sem þau fjalla um. Það eru nefnilega heimamenn sem leika oft lykilhlutverk við að koma framfaramálum í réttan farveg og til framkvæmda.

Það hefur vakið furðu að áform um aðalskrifstofan sé á starfssvæði þjóðgarðsins hafi ekki verið komin í framkvæmd strax við stofnun hans árið 2008. Öll störf við þjóðgarðinn eiga að vera staðsett á starfssvæði hans hverju sinni. Það er fyrir öllu að höfuðstöðvarnar verði á starfssvæði þjóðgarðsins. Í þessu samhengi vil ég benda á nauðsyn þess að starfsstöðvar á Norður- og Austurlandi verði efldar. Það er löngu tímabært að við horfum til þeirra svæða og aukum atvinnutækifæri þar. Draumaniðurstaðan væri sú að starfsemi á Norður- og Austurlandi verði efld þannig að í hverri starfsstöð verði nokkrir starfsmenn sem sinni bæði staðbundnum verkefnum og verkefnum í þágu þjóðgarðsins alls, sem þekur um 15% af landinu öllu. Þetta er stórt svæði og við þurfum að halda vel utan um það. Þarna eru sjónarmið sem varða náttúru og varðveislu. En á sama tíma hlúum við að ferðaþjónustugeiranum á svæðinu. Tækifærin eru fjölmörg og ég tel okkur geta gripið þau föstum tökum með að hafa þá sem ákvarðanir taka um svæðið staðsetta þar. Öðruvísi næst ekki gott jafnvægi í starfseminni.

Hjá Vatnajökulsþjóðgarði starfa 37 fastir starfsmenn. Þetta eru starfsmenn sem búa yfir mikilli þekkingu og reynslu, 32 þeirra vinna á starfsstöðvum á landsbyggðinni en yfir sumartímann bætist verulega í flotann. Það eru því allt að 80 starfsmenn sem sinna landvörslu, þjónustu og fræðslu til gesta þjóðgarðsins og eru þau störf öll unnin á landsbyggðinni. Á árinu 2021 voru unnin um 50 ársverk hjá Vatnajökulsþjóðgarði og eru um 90% þeirra á landsbyggðinni. Það liggur fyrir að atvinnutækifæri í tengslum við þjóðgarðinn eru því fjölmörg. Þau eiga öll að vera á viðeigandi svæðum., þ.e. í kringum þjóðgarðinn sjálfan en ekki hundruð kílómetra frá honum.

Að auki vil ég minnast á opnun nýrrar formlegrar starfsstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs í samvinnu við Gíg á Skútustöðum í Mývatnssveit. Ríkið festi á síðasta ári kaup á fasteigninni Hótel Gíg á Skútustöðum í Mývatnssveit sem upphaflega gegndi hlutverki barnaskóla sveitarinnar. Þar hefur starfsstöðinni verið komið fyrir. Gígur á einnig að hýsa sameiginlega gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og náttúruverndarsvæða í Mývatnssveit þar sem verður að finna upplýsingar og sýningu um þjóðgarðinn og verndarsvæði Mývatns og Laxár. Þetta er jákvæð þróun sem vert er að hrósa. Þar eru líka starfsstöðvar Umhverfisstofnunar, Landgræðslunnar og náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Þá mun Gígur hýsa rannsóknarsetur á sviði hugvísinda í sameinuðu sveitarfélagi Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar og styrkja þannig stoðir samfélagsins svo um munar, en í dag starfa þar t.d. þjóðgarðsvörður, aðstoðarþjóðgarðsvörður og lögfræðingur þjóðgarðsins. Með uppbyggingu gestastofu í Mývatnssveit er því verið að efla mikilvægt þjónustunet Vatnajökulsþjóðgarðs enn frekar eins og lög um Vatnajökulsþjóðgarð mæla fyrir. Stofan bætist í hóp gestastofa á vegum þjóðgarðsins sem eru einnig Snæfellsstofa og Gljúfrastofa í Ásbyrgi. Bæta má aðsókn, atvinnutækifæri og starfsemi gestastofanna með því að hafa þær opnar allt árið. Í því felast fjölmörg tækifæri í ferðaþjónustu, bæði fyrir Íslendinga sem og erlenda ferðamenn. Að sama skapi vil ég nefna mikilvægi þess að efla starfsstöðina á Héraði í Snæfellsstofu í samspili við skrifstofuna í Fellabæ.

Virðulegi forseti. Þessi áform sem við ræðum hér eru vissulega fagnaðarefni en í dag eru þau þó ekkert nema áform. Flutningarnir hafa ekki raungerst og því vil ég brýna þingheim og ríkisstjórnina að framkvæma þær fyrirhuguðu aðgerðir. Nú er tími til þess. Þetta verður að gerast því að hér eru orðin ekki nóg. Ástæða þess að ég nefni þetta er að sambærileg tilkynning var gerð árið 2017 þegar flytja átti höfuðstöðvar þjóðgarðsins austur á Hérað. Það er því mín von að ekki fari eins og það fór það árið. Ég vil hvetja hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til að fylgja þessu eftir alla leið og leiða málið til lykta á farsælan hátt. (umhv.- og loftslrh.: Er ég ekki búinn að því?)Flutningurinn væri starfsemi þjóðgarðsins og íbúum svæðisins — já, þú varst að opna hana reyndar um daginn — til hagsbóta og ég er sannfærð um að að flutningnum loknum munum við klóra okkur í höfðinu og hugsa af hverju við gerðum þetta ekki fyrr. Þá vil ég einnig hvetja þingheim og ríkisstjórnina til að greina möguleika á sambærilegum flutningum innan annarra stofnanna, þá sérstaklega þegar starfsemi stofnana er aðallega á landsbyggðinni og varðar landsbyggðina. Tækifærin eru til staðar.