Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 85. fundur,  7. júní 2022.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu.

723. mál
[17:10]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Skýrslan sem við ræðum hér er umfangsmikil enda af nógu að taka þar sem eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu eykst ár frá ári, eins og þar segir. Skýrslan ber öll þess merki að átak hefur átt sér stað í geðheilbrigðismálum og ýmsar úrbætur hafa gefið góða raun. Vankantar við framkvæmd þjónustunnar skyggja þó verulega á þann árangur. Skipulag geðheilbrigðisþjónustu er í samræmi við stefnu stjórnvalda um að rétt þjónusta skuli veitt á réttum stað. Þó að skýrslan dragi upp dökka mynd hafa ýmsar aðgerðir verið til bóta, t.d. skipting heilbrigðisþjónustu í fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu. Þó er sérstaklega fjallað um að skilgreiningar skorti og þá einna helst á annars stigs heilbrigðisþjónustu. Óskýr mörk á milli þjónustulaga geta leitt til sóunar, bæði á tíma og fjármunum. Önnur jákvæð aðgerð er tilkoma geðheilsuteyma sem hefur stórlega aukið framboð sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum. Til að mynda hefur komum á heilsugæslu vegna geðvanda fjölgað um 91% á landsvísu en komum á sjúkrahús fækkaði um 24% á tímabilinu. Það er til marks um að því nær sem þjónustan er fólki því fleiri nýta sér hana.

Í skýrslunni segir að skortur á fagmenntuðu starfsfólki standi geðheilbrigðisþjónustu fyrir þrifum. Það kom fram fyrir nefndinni að mannaflavandinn hefur ekki verið greindur og það hlýtur að vera forgangsmál að huga betur að menntun fagfólks í þessum stéttum. Nýliðun þarf að vera trygg um allt land. Auk þess að greina mannaflaþörfina þarf að gæta þess að starfsaðstæður og starfsumhverfi laði fólk til starfa í geðheilbrigðisþjónustu. Það þarf að skoða betur hvort tilefni sé til að beita einhvers konar efnahagslegum hvötum fyrir fagmenntaða einstaklinga til að sækja sér sérmenntun á sviði geðheilbrigðismála og greina þarf heildstætt hver þjónustuþörfin er, hver mannaflavandinn er og hver staða húsnæðismála raunverulega er. Í skýrslunni segir að mannaflavandinn sé ein helsta orsök langrar biðar. Það er því til mikils að vinna og nauðsynlegt að horfa til þess að vandinn eykst ár frá ári og aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu verður að bæta.

Það er ánægjulegt að segja frá því að í haust mun hefjast nýtt meistaranám í geðhjúkrun við Háskólann á Akureyri í samstarfi við Háskóla Íslands og geðþjónustu Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri sem mun að öllum líkindum efla geðheilbrigðisþjónustu um landið allt. Geðhjúkrunarfræðingar gegna mikilvægu hlutverki í geðheilbrigðisþjónustu og þá sérstaklega í geðheilsuteymunum.

Ríkisendurskoðun vekur sérstaka athygli á innbyggðri mismunun í geðheilbrigðiskerfinu og telur ljóst að ekki sitji allir við sama borð. Útrýma þarf slíkri mismunun en aðgengi ræðst oft af efnahag, búsetu og tegund geðvanda. Mismunurinn felst einnig í títtnefndum gráum svæðum í þjónustu. Gráu svæðin eru þar sem ábyrgð og verkaskipting er óljós. Á það bæði við um skiptingu milli félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis sem og skiptingu milli heilbrigðisstofnana. Tryggja verður betri samfellu og samhæfingu milli þjónustustiga. Kjarninn er sá að þjónustuþegi á ekki að líða fyrir óljós mörk við veitingu heilbrigðisþjónustu en gráu svæðin virðast einna helst bitna á einstaklingum með langvinnan eða fjölþættan vanda.

Umfjöllun um hindranir í aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu til þeirra sem kljást við fíknivanda og geðvanda vakti líka athygli mína í skýrslunni. Það ýtir enn frekar undir þann punkt í skýrslunni að heilbrigðiskerfið sé illa í stakk búið til að takast á við fjölþættan geðvanda. Fólki í virkri neyslu er vísað úr meðferð og geðheilsuteymi sinna ekki fólki í virkri neyslu. SÁÁ telur þessa útilokun bera vott um fordóma sem okkur beri að taka alvarlega. Gráu svæðin eru til staðar. Sums staðar þekkjum við þau og það er mikilvægt að ráðist verði í að fækka þeim. Það er líka bagalegt hversu illa kerfin okkar tala saman.

Ein af athugasemdum Ríkisendurskoðunar snýr að lélegu aðgengi að gögnum og upplýsingum. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda þeirra sem glíma eða hafa glímt við geðrænan vanda og geðraskanir á Íslandi. Upplýsingar og gögn eru auðvitað forsenda markvissrar stefnumótunar og gæðabætandi starfs. Ríkisendurskoðun telur brýnt að aðgengi að upplýsingum um tíðni geðsjúkdóma verði bætt hér á landi. Vísar Ríkisendurskoðun þá til SÁÁ sem fyrirmyndar, en SÁÁ hefur um áratugaskeið safnað gögnum sem veita innsýn í umfang og eðli fíknivanda sem nýtt eru í rannsóknir sem og bætt skipulag og gæði meðferðanna. Heilbrigðisráðuneytið vinnur nú að lagafrumvarpi sem eyða á lagalegri óvissu um öflun landlæknisembættisins á þeim gögnum, sem er vel.

Að fjölgun óvinnufærra vegna geðraskana: Í skýrslunni kemur fram að 8.300 einstaklingar voru að hluta eða öllu leyti óvinnufærir sökum geðraskana árið 2020. Það er mikilvægt að efla betur möguleika fólks til endurhæfingar, ekki bara til að auka atvinnuþátttöku þessa hóps heldur líka til að efna til virkrar samfélagsþátttöku. Það verður líka að líta til annarra þátta en betra aðgengis að endurhæfingarúrræðum. Það verður að líta á orsök vandans. Fjölgun fólks á örorku- eða endurhæfingarlífeyri vegna geðraskana á tíu ára tímabili, eða 2010–2020, var 30% en á því tímabili var 15% fjölgun íbúa á Íslandi. Það er Ríkisendurskoðun sem setur þetta í þetta merkilega samhengi.

Einnig kemur fram að geðraskanir eru helstu orsakir örorku eða rúmlega þriðjungur tilvika árið 2020. Ef ekki er litið til geðraskana sem meginástæðu örorku hækkar hlutfallið í 60%. Það eru 60% sem tikka í það box að glíma við geðræn vandamál. Málið er risavaxið. Þessi umræða hefur verið áberandi en það hefur kannski lítið sem ekkert gerst. Beinn kostnaður félagstrygginga í örorku- og endurhæfingarlífeyri óvinnufærra vegna geðraskana voru 26,6 milljarðar kr. á árinu 2020.

Mig langar líka að staldra við vanda ungs fólks í þessu samhengi. Nýgengi örorku er tiltölulega mikið í þessum hópi og hafa sláandi tölur litið ljós á undanförnum mánuðum en tíundi hver 19 ára einstaklingur á Íslandi er hvorki með atvinnu né í námi. Umsóknum frá ungu fólki vegna endurhæfingar fjölgar einnig. Þessi umræða má ekki einungis snúast um aukið virknihlutfall eða aukna möguleika ungs fólks til endurhæfingar þó að það sé líka verkefnið að auka lífsgæði ungs fólks með skerta starfsgetu. Það kemur fram í skýrslunni að heilbrigðisráðuneytið vinnur að viðeigandi útfærslu varðandi endurgreiðslu kostnaðar fyrir þjónustu sálfræðinga vegna ársins 2022 til að bregðast skjótt við brýnum geðvanda ungs fólks sem hefur þurft að bíða eftir þjónustu. Við eigum mikið undir því að það verkefni komist á laggirnar.

Nefna má að Ráðgjafar- og greiningarstöð sinnir greiningu, ráðgjöf og fræðslu fyrir börn að 18 ára aldri á landsvísu. Stór hluti starfseminnar lýtur að geðheilbrigðismálum. Stofnunin heyrir nú undir mennta- og barnamálaráðuneytið og þjónustar m.a. börn með þroskaskerðingar og fatlanir. Gríðarlega langir biðlistar eru eftir þjónustunni eða allt að 18–24 mánuðir. Sama sagan á við um bið eftir þjónustu BUGL en hún er tæpir níu mánuðir. Við vitum öll að hvert ár í lífi barns er mikilvægt og óboðlegt að biðin sé svona löng.

Í þessu samhengi og í þessari umræðu um geðheilbrigðismál og tengsl við nýgengi örorku meðal unga fólksins og bið barna eftir þjónustu finnst mér brýnt að við ræðum líka fyrirbyggjandi aðgerðir eins og stofnun geðheilsuteyma fyrir börn og ungmenni en ekki einungis fullorðna, að börn eigi líka aðgengi að sálfræðingum í skólum, að við leggjum meiri áherslu á fræðslu, forvarnir og geðrækt í skólunum. Ég bind miklar vonir við að stjórnsýsla geðheilbrigðismála verði bætt með tilliti til ábendinga Ríkisendurskoðunar í skýrslunni.

Virðulegur forseti. Þessi stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar varpar ljósi á vanda sem hefur vaxið mjög á síðustu árum. Vandann ber að tækla þannig að fólk sem þarf á hjálp að halda fái þá aðstoð sem það hefur þörf fyrir.