Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

niðurstöður barnaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[12:58]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa umræðu um barnaþing. Ég vil segja um það, sem ég er búinn að heyra hér, að ég hafði sérstaklega gaman af að heyra hvernig forsætisráðherra kom að þessu máli og ræddi það, eins og hér kom fram, bara á mannamáli við okkur. Það skiptir mjög miklu máli. Það gerði líka hv. þm. Guðbrandur Einarsson afar vel. Það rifjast margt upp fyrir manni þegar minnst er á að börn og unglingar kunni kannski ekki að lesa launaseðla. Við kunnum ekki allt og þannig er það nú þegar maður kemur inn á þing og er jafnvel orðinn 50 ára, að þá er maður líka nýr og kann ekki allt, þannig að við erum að læra allt okkar líf.

En það sem mig langaði aðeins að ræða um hérna eru þrír punktar sem forsætisráðherra minntist á að helst hefðu verið ræddir á þessu þingi, það voru umhverfismál, mannréttindamál og menntun og ég undirbjó mig svolítið fyrir það að ræða menntunarmálin. Mig langar að segja ykkur eina sögu um göngu, göngu upp stigann sem ekki allir komast eða við getum kannski sagt að gangan gangi misjafnlega. Þegar ég kom á þing 2013 fór ég að aðstoða ungan dreng sem fæddist heyrnarlaus og mér finnst að saga hans og fjölskyldu eigi erindi í þessa umræðu og hans leið í gegnum mismunun sem hann sem barn hefur mátt þola í skóla, grunnskóla og sem unglingur í fjölbrautaskóla. Hann fæddist heyrnarlaus, kuðungaígræðsla gagnaðist honum ekki og hann gat ekki notað heyrnartæki þannig að honum voru eiginlega allar bjargir bannaðar til að heyra. Þegar hann fór í skóla hafði Alþingi nýlega samþykkt lög um íslenskt táknmál. Hann og fjölskylda hans voru því mjög spennt þegar skólagangan hófst. Foreldrar hans voru uppfullir af bjartsýni um að ný lög sem Alþingi hafði sett hjálpuðu honum bæði við táknmál og íslensku, enda drengurinn áhugasamur, vel gerður og góður námsmaður. En við þurfum að hafa það í huga að táknmál er í rauninni hans móðurmál. Grunnskólinn í hans heimabæ var kannski ekki vel í stakk búinn að taka við kennslu fyrir heyrnarlausa og þrátt fyrir góðan vilja bæjaryfirvalda og þrátt fyrir lög og reglur var enginn táknmálskennari í skólanum þegar hann átti að hefja nám í 9. bekk. Hann fékk ekki inngöngu í Hlíðaskóla þegar þess var óskað áður en hann hóf nám í 9. bekk. Með þrautseigju foreldra hans og fjölskyldu var í raun búið til úrræði fyrir nemendur á hans reki sem Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, studdi vel við og tók afar vel á öllum málum sem sneru að hans fötlun og sýndi því mikinn velvilja. Drengurinn var tvo vetur í skóla hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra. Þar voru hans bestu skólaár. Þar fékk hann góða kennslu í ýmsum greinum. Færni í táknmáli batnaði til muna og hann byrjaði að læra ensku.

Virðulegi forseti. Í dag stundar hann nám á starfsbraut í framhaldsskóla og er búinn með tvö ár, stendur sig vel og er búinn að taka bílpróf. En af hverju hefur hann, vel gefinn drengurinn og duglegur námsmaður, ekki val um námsbraut og er þvingaður á starfsbraut í skólanum? Jú, einfalt svar við því er, virðulegi forseti, að skólakerfið á Íslandi hefur brugðist honum. Ég veit að börnin á barnaþingi vilja ekki svoleiðis mismunun. Þrátt fyrir að hafa stundað nám í grunnskóla í tíu vetur getur hann ekki enn þá lesið sér til gagns á íslensku. Hann fékk tækifæri og lærði ensku í tvo vetur á samskiptamiðstöðinni. Í dag skrifar hann skilaboð til foreldra sinna á ensku frekar en íslensku.

Já, virðulegur forseti, íslenskt skólakerfi hefur ekki gefið þessum 17 ára dreng tækifæri til að læra íslensku þrátt fyrir að hann sé fæddur Íslendingur eins og foreldrar hans og öll fjölskylda. Alla grunnskólagönguna börðust foreldrar hans fyrir því að fá námsefni fyrir drenginn á táknmáli. Þrátt fyrir skýlausan rétt á námsefni voru aðeins örfáar bækur gerðar en alls ekki það sem þurfti og hann átti rétt á eins og önnur skólabörn. Ef hann hefði verið blindur hefði hann fengið allar sínar skólabækur fyrir hvern vetur, enda níu stöðugildi hjá Menntamálastofnun til að búa til námsefni fyrir blinda en ekkert slíkt stöðugildi er til fyrir heyrnarlausa. Málefni blindra eru í höndum velferðarráðuneytis en málefni heyrnarlausra er í höndum menntamálaráðuneytis. Þessi mismunun eftir fötlun og staðsetningu í stjórnkerfinu er óverjandi og fyrir neðan allar hellur að börn búi enn þann dag í dag á Íslandi við það að fá ekki viðeigandi námsbækur í skólunum. Málefni heyrnarlausra barna eru í lamasessi í landinu og nú er breytinga þörf. Foreldrar og fjölskylda þessa drengs hafa ítrekað verið í sambandi við ráðherra frá árinu 2013 og aðeins einn þeirra gefið þeim vonarneista. Fjölskyldan hefur í mörg rutt veginn fyrir son sinn og þau börn sem eru í svipaðri stöðu en þrátt fyrir lagabreytingu sem gerð var fyrir tólf árum síðan hefur í raun ekkert breyst.

Það eru íslensk börn sem hafa verið tólf ár í skóla en skólakerfið hefur ekki haft burði til að kenna þeim að hafa samskipti á íslensku, hvað þá að geta lesið sér til gagns á móðurmáli foreldra sinna. Foreldrar, systkini, afar og ömmur þurfa að hafa vald á enskri tungu til að geta verið í skriflegum samskiptum við heyrnarlaust barn í fjölskyldunni.

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra. Ég þakka munnlega skýrslu ráðherrans og góð orð. Ég trúi því eins og hún að það hafi ekki verið vilji löggjafans á sínum tíma að alger minnihlutahópur fatlaðra barna fengi jafn ómanneskjulega meðferð í skólakerfinu og hér er lýst og úr því þurfum við að bæta. Ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra að það komast ekki öll börn upp stigann en það er lágmarkið að þau fái öll sömu tækifæri til þess að reyna.