Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

áhafnir skipa.

185. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Það er ýmislegt í þessu frumvarpi eins og gefur að skilja þegar fjórir lagabálkar eru sameinaðir í ein lög sem eiga að ná yfir jafn víðfeðmt svið og áhafnir skipa eru, það er til margs að líta. Ég fæ kannski að byrja á einu skemmtilegu atriði sem mig langar að nefna sérstaklega varðandi afgreiðslu umhverfis- og samgöngunefndar vegna þess að við fundum allt í einu glufu í íslensku lagaumhverfi sem var í raun lagalegt tómarúm við strendur landsins. Í þessu frumvarpi, verði það að lögum, er í fyrsta sinn talað um innsævið í kringum Ísland sem vettvang einhvers konar starfsemi. Orðið innsævi sem áður kom fyrir í einhverjum fjórum lagabálkum hefur í fyrsta sinn, verði þetta frumvarp að lögum, bein réttarfarsleg áhrif gagnvart einhverju. Það eru þá sérstaklega kannski þessi erlendu sláturskip sem komið er fyrir nálægt sjókvíum. Það eru ákvæði í frumvarpinu sem vísa til þeirra. Það rann upp fyrir nefndinni, þegar við vorum að fara yfir málið, að við spurningunni hvað er innsævi var ekki til neitt svar í lagatexta. Þarna var glufa sem við fylltum upp í með hjálp góðs fólks og því var það ákveðið fagnaðarefni að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til breytingar á lögum nr. 41/1979, um landhelgi, aðlæg belti, efnahagslögsögu og landgrunn, þess efnis að innsævi er hafsvæði landmegin við grunnlínur. Það kom dálítið á fulltrúa ráðuneytisins þegar við spurðum út í þetta og þeir áttuðu sig á því að sennilega væri þetta bara hvergi skilgreint af því að þetta væri svo inngróið í þá. Auðvitað er innsævi bara þetta svæði. En eins og alltaf þegar við erum að semja lög þá dugar ekki auðvitað. Við þurfum að geta sýnt í texta laganna nákvæmlega hvað átt er við.

Mig langar að talar hér um nefndarálit 1. minni hluta, miklu frekar en innsævi þó að það sé líka áhugavert. Breytingartillaga minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar snýr að ákvæðum um undanþágu- og mönnunarnefndir skipa sem lagt er til með 10. og 18. gr. frumvarpsins að lagðar verði af og verkefni þeirra fengin Samgöngustofu einni. Í dag eru þessar nefndir skipaðar þannig að í þeim sitja fulltrúar stéttarfélaganna sem um ræðir, sem eru ólík eftir því nákvæmlega hver starfsvettvangurinn er sem um er að ræða, og hins vegar fulltrúar hinna hagsmunanna, fulltrúar sjávarútvegsins. SFS á fulltrúa í þessum nefndum. Oddamaðurinn í nefndinni er síðan starfsmaður Samgöngustofu sem heldur jafnframt utan um verkefni nefndanna.

Breytingin er í frumvarpinu og í umfjöllun nefndarinnar kom fram að þetta væri mjög skýr afstaða ráðuneytisins. Þá er breytingin rökstudd þannig að henni sé ætlað að bæta skilvirkni og auka samræmi og byggja upp sérhæfingu. Þar að auki hafi Samgöngustofa eiginlega hvort eð er sinnt þessu. Það sé kannski hægt að straumlínulaga þetta ferli með því að taka allt þetta aukafólk út úr því og láta bara embættismanninum eftir að taka þessa ákvörðun. Enda sé það svo að þegar hagsmunirnir stangist á þá sé það yfirleitt oddamaðurinn frá Samgöngustofu sem skeri á hnútinn.

Ég skil þessa hugsun mjög vel. Ég er hins vegar ekki sammála henni. Það er ekki bara niðurstaðan í þessum nefndum sem skiptir máli heldur hvernig að henni er komist. Ég held nefnilega að það skipti miklu máli, þegar verið er að ræða frávik frá einhverjum grunnreglum sem þessar undanþágumönnunarnefndir snúast um, að þá eigi sér stað einhvers konar samtal um það og kannski einhverjar rökræður, smáreiptog um það. Þó að úrslitaatkvæðið sé alltaf þess sem starfar hjá Samgöngustofu þýðir það ekkert endilega að viðkomandi sé þess umkominn að geta komist að réttri niðurstöðu án þess að hafa orðið þátttakandi í samtali á milli hagsmunasamtaka sjómanna annars vegar og hagsmunasamtaka útgerðarinnar hins vegar.

Á þetta var bent í sameiginlegri umsögn þriggja félaga, Félags skipstjórnarmanna, VM - Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannasambands Íslands, sem leggjast eindregið gegn þessari breytingu. Alþýðusamband Íslands tekur undir þau sjónarmið. Töldu þessir umsagnaraðilar að aðild fagfélaganna að ákvörðun um frávik frá mönnun og samþykki undanþága sæi t.d. til þess að kunnáttufólk með reynslu fjallaði um undanþágurnar, auk þess sem fyrirkomulagið tryggði það samtal sem ég nefndi á milli þeirra sem gæta hagsmuna starfsfólks og atvinnurekenda. Þar er líka sagt að núverandi fyrirkomulag hafi gefist ágætlega. Ég veit ekki heldur með þessi skilvirknirök þegar við erum komin inn í þá björtu framtíð að fólk geti hist á Zoom-fundum með stuttum fyrirvara og rætt hlutina þannig. Það kom einmitt fram að framkvæmdin hefði bara verið ansi lipur á undanförnum árum.

Þess vegna leggjum við í 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar til að vinda þessari ákvörðun til baka, að halda undanþágunefndum og mönnunarnefndum inni, annars vegar í 18. gr. og hins vegar í 10. gr. frumvarpsins. Þetta skiptir dálítið miklu máli, þykir okkur. Einu rökin sem við höfum heyrt gegn þessu væri að með þessu væru mögulega einhverjir aðrir hagsmunir en hrein öryggissjónarmið farin að ráða för. Ég sé þau rök ekki standa mjög traustum fótum þar sem öryggiskröfurnar eru alveg þær sömu varðandi þessar undanþágur, hvort sem það er einn maður eða fimm sem taka ákvarðanirnar. Þannig að við í minni hlutanum sjáum ekki að með því að færa þetta samráð inn á skrifstofu Samgöngustofu einnar værum við endilega að bæta eða efla öryggi sjófarenda þó að auðvitað sé mikilvægt að hlutlæg viðmið liggi til grundvallar við afgreiðslu umsókna hverju sinni. Þó það nú væri. Það skiptir máli, hver sem tekur ákvörðunina.

Bent er á ýmislegt annað í umsögn þessara þriggja fagfélaga. Í breytingartillögu minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar er lagt til að bregðast við einni ábendingu í viðbót varðandi það, sem er að ráðherra skuli skoða hvort þessar mönnunarnefndir geti ekki líka náð utan um útsýnis- og hvalaskoðunarbáta, enda hafi samtökin gagnrýnt Samgöngustofu fyrir að ganga kannski fulllangt þegar hún heimilar fækkun í áhöfnum slíkra báta á undanförnum árum og að besta leiðin til að leysa úr þeim vanda sé einfaldlega að láta mönnun þeirra skipa falla undir verksvið sömu nefnda og annarra. Rödd þessu til stuðnings kemur frá Samtökum ferðaþjónustunnar þar sem kallað er eftir skýrara umhverfi varðandi mönnun fyrir farþegaskip og báta í stuttum útsýnis-, skoðunar- og veiðiferðum. Ef ég man rétt þá leggur SAF reyndar til að komið verði á laggirnar sérstökum mönnunarnefndum fyrir þau skip. En við hér í minni hluta nefndarinnar leggjum til að ráðherra skoði þetta einfaldlega og komi með frumvarp við upphaf haustþings núna 2022 þar sem lagðar yrðu til nauðsynlegar breytingar til að mönnunarnefnd samkvæmt 18. gr. nái jafnframt til farþegaskipa og báta í stuttum útsýnis-, skoðunar- og veiðiferðum.

Þetta nefndarálit okkar hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur birtum við 8. apríl. Tíminn flýgur, það eru tveir mánuðir síðan. Síðan hafa okkur borist nokkur viðbrögð frá fagfélögum sjófarenda sem lýsa sig ekki alls kostar ánægð með viðbrögðin við athugasemdum þeirra. Hinn 3. maí fékk allir þingheimur sameiginlega umsögn, ekki bara frá Félagi skipstjórnarmanna, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómannasambandi Íslands heldur líka frá skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna og fagstjóra Skipstjórnarskólans, ansi dekkandi hópur þegar við horfum á fólk sem hefur sérþekkingu á starfsaðstæðum sjófarenda og þeirra öryggismálum. Þessi póstur á okkur þingmenn byrjar á fyrirsögninni: Virðingarleysi við sjómenn á fiskiskipum. Þar benda höfundar bréfsins á að ekki hafi verið brugðist við nærri öllum og bara langfæstum athugasemdum við umfjöllun nefndarinnar, nefna þar á meðal þetta atriði sem við hv. þm. Helga Vala Helgadóttir leggjum áherslu á varðandi undanþágu- og mönnunarnefndirnar; það eru í það heila sex atriði sem bréfshöfundar telja nauðsynlegt að breyta í frumvarpinu ef standa eigi almennilega að því. Fyrsta atriðið sem nefnt er í þessu bréfi minnir dálítið á togstreituna sem undanþágu- og mönnunarnefndirnar eiga að ná utan um á milli fagfélaga sjófarenda og samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Það er skoðun bréfshöfunda að mönnunarskírteini verði gefin út fyrir fiskiskip eins og önnur skip. Þarna er nefnilega hætt við, eins og kom fram í umsögn félaganna, að það verði einhver hagrænn hvati hjá þeim sem gera út stærri fiskiskip til að draga úr mönnun á þeim. Það kemur náttúrlega niður á öryggi þeirra sem vinna um borð í skipunum. Fram kom hjá hv. framsögumanni álits meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar að ráðuneytið sæi fyrir sér að skoða þetta á næstu mánuðum, taka til athugunar hvernig hvíldartími er virtur í fiskiskipum sem mönnunin snýst um. Ég velti fyrir mér, frú forseti, hvort við ættum ekki að reyna að ná utan um þetta hér á þingi fyrst við erum með málið í höndunum og eiga orðastað við þessi fagfélög, ráðuneytið og bara þá sem eitthvað geta lagt til málanna.

Mig langar þess vegna að leggja til, frú forseti, að að lokinni 2. umr. og atkvæðagreiðslu gangi málið aftur til hv. umhverfis- og samgöngunefndar þar sem við getum reynt að ná utan um þetta. Mér finnst ekki ganga að við skiljum við þetta mál þannig að öll þau félög sem halda utan um réttindi sjómanna á vinnumarkaði líti svo á að Alþingi hafi sýnt þeim virðingarleysi og hunsað athugasemdir þeirra. Þetta er í grófum dráttum það sem ég vildi sagt hafa. Hér liggja fyrir breytingartillögur okkar hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur sem ég ætla að vona að hljóti brautargengi, en óháð því vil ég biðja um að málið gangi til nefndar milli 2. og 3. umr.