Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 88. fundur,  9. júní 2022.

minnisvarði um eldgosið á Heimaey.

376. mál
[21:29]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég tel að þingsályktunartillaga þessi um minnisvarða um eldgosið í Heimaey sé mjög mikilvægt framlag til að minnast þessa mikilvæga og stórbrotna atburðar. Ég er sjálfur fæddur í Vestmannaeyjum, var þriggja og hálfs árs upp á dag þegar gosið hófst klukkan hálftvö að nóttu til aðfaranótt 23. janúar 1974. Ég man enn þá nokkur augnablik úr þessum hildarleik, m.a. þegar ég vaknaði og horfði út um stofugluggann og þegar ég var við höfnina og líka í bátnum til Þorlákshafnar.

En ég tel að við ættum að minnast annars líka. Það er talað um hérna að þann 3. júlí 2023 verði 50 ár liðin frá lokum Heimaeyjargossins. Ég vona að á minningarhátíðinni sem mun eiga sér stað á næsta ári verði líka minnst upphafs gossins 23. janúar sem og loka þess. Ég tel að það sé vel við hæfi að einn af fremstu listamönnum heims, Ólafur Elíasson, verði fenginn til að vinna hugmyndavinnu varðandi minnisvarða. Það kemur fram í tillögunni til þingsályktunar í greinargerðinni að hann sé einn af fremstu listamönnum landsins. Ég tel réttara að kalla hann einn af fremstu listamönnum heims á sínu sviði. Hann er reyndar eign bæði Íslendinga og Dana, hann kallar sig sjálfan dansk/íslenskan listamann, svo því sé haldið til haga.

Varðandi tillöguna sjálfa þá held ég að það sé rétt til fundið að undirbúningsnefndin ljúki störfum fyrir lok október í ár til að leggja fram tillögu fyrir forsætisráðuneytið til samþykktar. Ég tel að auk þessarar tillögu um minnisvarða ætti undirbúningsnefndin líka að ná að sjálfsögðu til hátíðahaldanna um goslokin. Ég vona að hátíðin vegna goslokanna verði eins konar þjóðarhátíð. Ég held að þetta séu það dramatískir atburðir í sögu þjóðarinnar sem áttu sér stað og raunverulega hafi aldrei verið fjallað nægilega um áhrifin á fólkið sem lifði þetta af og flutti til lands. Þetta var fyrir daga áfallahjálpar. Ég held að það mætti fjalla nánar um fólkið sem lifði af og sérstaklega fólkið af því svæði sem fór undir hraun. Þetta var ekki svæði sem var sprengt í loft upp en það hvarf í rauninni tilvistarlega séð, það er ekki til lengur, þetta svæði sem hvarf og þetta var fallegasti hluti eyjarinnar sem fór undir hraun. Þetta er einstakur atburður í sögu þjóðarinnar.

Það má líka hafa í huga að þetta tengist líka gossvæðinu sem er þarna á sprungubeltinu og hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefur verið að skrifa bók sem kemur út núna í júní sem fjallar um hildarleikinn þegar hópur manna fór til Surtseyjar, þriðja hópinn sem fór til Surtseyjar 1963, en þarna varð til eyja úr eldgosi sem var um tíu árum fyrr en gosið í Eyjum. Það er hluti af sama sprungubelti. Allir þekkja Eyjafjallajökull og eldgosið þar 2010, það er líka sama sprungubelti. Þetta tengist allt. Það væri vert að minnast líka þess að við lifum á hættulegum stað í heiminum hvað varðar eldfjöll. Það má líka minnast þess að faðir minn var einn af mönnunum sem var í þessum hópi sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson fjallar um, þennan hildarleik, Í gini gígsins, held ég að bókin heiti, sem fjallar um Surtseyjarför Vestmannaeyinga. Þeir vildu kalla hana Vesturey, það var mikið metnaðarmál fyrir þá sem stunduðu lundaveiði í eyjunum í kringum Heimaey og töldu Vesturey vera réttnefni. En annað var ákveðið, hvort það var ekki nefnd í Reykjavík sem kom með nafnið Surtsey.

Ég fagna þessari tillögu heils hugar og vonast til að Alþingi geti staðið af miklum rausnarskap að gerð þessa minnisvarða um eldgosið í Heimaey og stjórnvöld taki líka þátt og styðja við hátíðarhöldin við goslokahátíðina, þegar 50 ár verða frá lokum gossins, og það verði þá minnst víðara samhengis þessa mikla atburðar. Þeir sem voru á besta aldri á þessum tíma eru nú orðnir roskið fólk, komið á áttræðis- eða níræðisaldur jafnvel, átti þá fjölskyldur. Faðir minn féll frá árið 2019 og hann hefði orðið 87 ára í ár hefði hann lifað. Það eru margir af hans kynslóð sem voru þá í blóma lífsins með barnafjölskyldur sem flúðu. Ég held að það væri vel til fundið. Ég vona að hátíðin í kringum goslokahátíðina verði sannkölluð þjóðarhátíð og minnisvarðinn um eldgosið í Heimaey verði þjóðinni til sóma, sterkur minnisvarði sem mun lifa áfram næstu áratugi. Jafnvel verði kannski minnst 100 ára afmælis goslokanna eftir önnur 50 ár því að minningin um þetta gos mun lifa áfram í Íslandssögunni sem eins merkasta atburðar á síðari hluta síðustu aldar.