Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 91. fundur,  15. júní 2022.

vextir og verðtrygging og húsaleigulög.

80. mál
[18:34]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu og húsaleigulögum (aðgerðir til að sporna við áhrifum verðbólgu á húsnæðislán og húsaleigu).

Meðflutningsmenn mínir á frumvarpinu sem lagt var fram eru Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Frumvarpið var lagt fram í desember en mælt fyrir því í mars og það kemur nú til 2. umr. eftir umfjöllun efnahags- og viðskiptanefndar.

Í nefndarálitinu kemur fram, með leyfi forseta:

„Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu hefur heimsfaraldur kórónuveiru leitt til verulegs efnahagssamdráttar og síhækkandi verðbólgu.“ — Síðan hafa bæst við áhrif innrásar rússneska hersins í Úkraínu. — „Þrátt fyrir möguleika á endurfjármögnun með óverðtryggðum lánum geta fjölmargir ekki breytt skuldbindingum sínum með þeim hætti vegna íþyngjandi skilyrða eða kostnaðar. Þeir sem greiða af verðtryggðum lánum eða húsaleigu eru berskjaldaðir gagnvart þessu ástandi. Er því talið nauðsynlegt að vernda heimili landsins fyrir hörðustu áhrifum verðbólguskots. Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið og bendir á að frá því að frumvarpið var lagt fram hefur ársverðbólga hækkað úr 4,8% í 7,6% eða um 58,3% og hefur ekki mælst hærri síðan í apríl 2010 eða fyrir rúmum tólf árum síðan. Spár greiningaraðila gera ráð fyrir því að verðbólga haldist óbreytt eða fari jafnvel hækkandi til ársloka og mikil óvissa er um hvenær verðbólga gæti tekið að hjaðna eða hversu fljótt. Þörfin á aðgerðum til að stemma stigu við áhrifum þessa verðbólguskots á heimilin hefur því aðeins aukist og heldur áfram að gera það eftir því sem lengra líður. Minni hluti telur mikilvægt að draga þann lærdóm af bankahruninu árið 2008 og þeim efnahagslegu hörmungum sem það hafði í för með sér að ef ekki er brugðist við slíku ástandi strax með sambærilegum aðgerðum og þeim sem lagðar eru til í frumvarpinu geta afleiðingarnar af því orðið hræðilegar.“

Eins og segir í greinargerðinni teljum við í Flokki fólksins nauðsynlegt að verja heimilin fyrir hörðustu áhrifum verðbólguskots. Að okkar mati er tímabundin frysting alvarlegustu áhrifa verðbólgu það minnsta sem hægt er að gera fyrir heimilin. Með þessu frumvarpi er leitast við að hjálpa þeim sem verst standa með skjótvirkum, einföldum og skilvirkum hætti. Frá því að frumvarpið var samið síðasta haust með það í huga að takast á við vandann sem þá þegar blasti við og fyrirsjáanlegt var að myndi versna hefur það sem ég óttaðist mest raungerst. Verðbólgan er farin af stað. Staðan mun, ef fram fer sem horfir, versna enn frekar á næstu vikum og mánuðum. Áhrif Covid á stöðu heimilanna hefðu verið nógu slæm en þegar svo bætist við stríð í Evrópu er ekki von á góðu og eðlilega eykst verðbólgan.

Með frumvarpinu er lagt til að við lög um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, og húsaleigulög, nr. 36/1994, bætist ný ákvæði til bráðabirgða sem fela í sér að verðtryggðar skuldbindingar neytenda vegna húsnæðislána og húsaleigu taki ekki breytingum til hækkunar í eitt ár frá því að frumvarpið tekur gildi. Hér er því ekki um neinar afturvirkar breytingar að ræða. Að því tímabili loknu rankar að nýju við sér samband vísitölu neysluverðs og verðtryggðra skuldbindinga, þó þannig að við útreikning verðbóta verði aðeins miðað við breytingu á vísitölu neysluverðs frá næstliðnum mánuði. Þarna er sem sagt ekki um neina uppsöfnun skulda að ræða. Með þessari einföldu aðgerð sem kostar ríkissjóð ekki eina einustu krónu er hægt að bjarga þeim heimilum sem verst standa frá miklum erfiðleikum og jafnvel hörmungum eins og heimilismissi. Það hlýtur að vera einhvers virði.

Þegar við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna kröfðumst varna fyrir heimilin í upphafi Covid sögðu bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra ítrekað að ef staðan myndi versna þá yrði gripið til aðgerða og heimilin varin. Staðan hefur svo sannarlega versnað og núna er tíminn til aðgerða.

Á leigumarkaði er fólk í hvað verstri stöðu og leiga hefur hækkað alveg gríðarlega á undanförnum mánuðum og jafnvel bara á undanförnum dögum. Formaður VR tók dæmi úr raunveruleikanum þegar hann kom fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í síðustu viku. Hann sagði frá sjötugri konu sem hann hefði verið í sambandi við. Hún var að endurnýja leigusamning og leigan hækkaði úr 198.000 kr. í 230.000. Um er að ræða samning til eins árs en ef þessi kona skrifar undir langtímasamning, sem mér skilst að henni standi vissulega til boða, verður hún að punga út 250.000 kr. í hverjum mánuði. Hún á þessa peninga ekki til. Ég veit ekki hvernig þetta mun enda, kannski tekst henni að bjarga sér í þetta skiptið en kannski ekki og hvað þá? Hvert fer þessi kona sem á að vera að njóta ævikvöldsins, ef hún ræður ekki við þetta? Takist henni að kljúfa þetta núna, kannski með því að neita sér um mat einhverja daga í viku sem og aðra hluti sem gefa lífinu smá lit, hvað gerist þá næst? Þessi kona leigir hjá einu af stóru leigufélögunum. Sumir vilja halda því fram að þarna sé um frjálsa samninga að ræða sem ekki megi grípa inn í henni til varnar. Er hægt að kalla þetta frjálsa samninga? Hvert er frelsi þessarar konu? Hverjir eru valkostirnir? Hún er ein af þúsundum á leigumarkaði sem horfast í augu við ómögulega afarkosti um þessar mundir. Í gær flutti varaþingmaður Flokks fólksins, Svanberg Hreinsson, jómfrúrræðu sína. Þar sagði hann:

„Frá áramótum hefur húsaleiga mín hækkað um 10% en það þykir víst ekkert mikið og kannski bara ansi vel sloppið. Samt sem áður er þetta umtalsverð fjárhæð fyrir mig því að ég er öryrki og um síðustu mánaðamót þá greiddi ég 62% af ráðstöfunartekjum mínum í húsaleigu. Síðan greiddi ég 3,5% af mínum tekjum til lífsnauðsynlegra lyfjakaupa. Sem sagt, 65,5% í leigu og lyf. Þá á eftir að greiða fyrir hita og rafmagn og síma og ekki skal gleyma matarinnkaupunum.“

Svanberg er öryrki og treystir á lífeyri almannatrygginga. Sanngirni stjórnvalda. Það eru þúsundir í sömu stöðu og hann. Það verður að koma einhverjum böndum á þetta ástand. Að frysta verðtrygginguna á íbúðaleigu mun skipta miklu máli og er a.m.k. viðleitni til að koma böndum á það sem varla er hægt að kalla annað en græðgi stóru leigufélaganna.

Víkjum nú að verðtryggðu lánunum. Þar munu verstu áhrifin koma síðar fram en í húsaleigusamningunum. Hv. þingmenn geta verið fullvissir um að verðbólgan mun gera atlögu að eignastöðu tugþúsunda fjölskyldna og þeim mun síðar sem gripið er í taumana þeim mun meiri verða hörmungarnar. Áhrifin á greiðslubyrði verðtryggðra lána koma strax fram en svo mun hækkun höfuðstólsins valda hærri greiðslubyrði en ella út allan lánstímann með þeim afleiðingum að fólk með verðtryggð lán mun borga fyrir verðbólgu þessa árs hver einustu mánaðamót um ókomna tíð.

Ég ætla að nefna hérna nokkrar tölur sem segja sína sögu um verðtrygginguna. Tekið skal fram að þessar tölur miðast við þær forsendur að verðbólga og vextir haldist óbreyttir. En vel að merkja eru vextir verðtryggðra lána í sögulegu lágmarki þrátt fyrir vaxtahækkanir Seðlabankans og þeir gætu alveg átt eftir að hækka síðar. Ef miðað er við 30 millj. kr. verðtryggt lán til 40 ára með fyrstu afborgun 1. janúar 2017 þá stendur það núna, fimm og hálfu ári síðar, í tæpum 33,7 millj. kr. Lántaki hefur greitt tæpar 4,9 millj. kr. í vexti með verðbótum og 2,6 millj. kr. í afborganir með verðbótum á láninu, samtals 7,5 millj. kr. Samt hafa eftirstöðvarnar hækkað um 3,7 millj. kr. eða rúm 12% af upphaflegri lánsfjárhæð. Kostnaðaraukinn af 7,6% verðbólgu myndi á lánstímanum nema hátt í 14 millj. kr. eða rúmum 46% af upphaflegri lánsfjárhæð. Á undanförnum árum hefur fasteignaverð hækkað mikið og ef litið er til þeirra sem hafa nýverið keypt sér húsnæði væri nærtækara að miða við 50 millj. kr. lán. Þá kemur í ljós að eftirstöðvarnar hafa hækkað um 3,3 millj. kr. þrátt fyrir að lántakandi hafi greitt 1,3 millj. kr. í afborganir með verðbótum af láninu. Kostnaðaraukinn myndi á lánstímanum nema hátt í 28 millj. kr. eða 55,8% af upphaflegri lánsfjárhæð, bara út af þessu eina ári. Þetta er ekkert annað en lögverndað okur. Svo gríðarlegar kostnaðarhækkanir má fyrirbyggja með því að samþykkja þetta frumvarp.

Það að verðtryggð lán séu yfirleitt í boði fyrir neytendur er til háborinnar skammar fyrir land og þjóð enda hefur engin önnur siðmenntuð þjóð látið sér detta í hug að bjóða neytendum upp á flókin afleiðulán. Í öðrum löndum eru slíkir fjármálagerningar eingöngu í boði fyrir fagfjárfesta enda flokkast verðtrygging undir áhættuviðskipti. Við verðum að afnema verðtryggingu lána til neytenda sem allra fyrst en það verður víst ekki gert í þessari atrennu. Nógu erfitt er að fá eitt ár í gegn. Núna snýst málið hreinlega um neyðaraðstoð við fólkið sem er annaðhvort á leigumarkaði eða fast í viðjum verðtryggðra lána. Ábyrgð okkar sem sitjum á Alþingi er gríðarlega mikil. Okkur ber skylda til að vera framsýn og þó að það sé stundum erfitt að vita hvað framtíðin ber í skauti sér þá liggur alveg fyrir hvað nú er í vændum.

Hugsunin með frumvarpi mínu var að leggja til einfalda lausn sem hefði tilætluð áhrif á þá hópa sem verst standa. Ég tel þetta frumvarp uppfylla þau skilyrði. Auk þess gerði ég mér vonir um að þingheimur gæti náð saman um þetta frumvarp enda er kostnaðurinn fyrir ríkissjóð enginn.

Nefndinni bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Hagsmunasamtökum heimilanna, Samtökum leigjenda á Íslandi, VR og Öryrkjabandalagi Íslands og gestir frá öllum þessum aðilum komu á fund nefndarinnar. — Forseti. Á ég ekki 20 mínútur?

(Forseti (DME): Ég er að bæta við fjórum mínútum.)

Samdóma álit gesta og umsagnaraðila var að frumvarpið væri mjög þarft og m.a. komu fram sjónarmið um að það gæti veitt ákveðna lausn á neyðarástandi sem er fyrirsjáanlegt og jafnvel þegar orðið á húsnæðismarkaði. Í umsögn Öryrkjabandalagsins kom fram að samkvæmt 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna ættu allir að hafa kost á fullnægjandi og öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði. Tæp 30% öryrkja greiddu meira en 50% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu samkvæmt könnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá árinu 2021. Engar umsagnir bárust með andmælum eða athugasemdum við efni frumvarpsins en rétt áður en málið var afgreitt út úr nefnd komu fulltrúar fjármálaráðuneytisins á fund nefndarinnar. Þar kvað við allt annan tón. Ráðuneytið fann þessu allt til foráttu enda skyldi engan undra því ráðuneytið virðist yfirleitt vera í betri tengslum við fjármálafyrirtæki en raunveruleika þeirra sem hafa minna á milli handanna. Í málflutningi fjármálaráðuneytisins komu fram áhyggjur af inngripi í samninga. Því er til að svara að ríkið hefur margoft gripið inn í frjálsa samninga eins og t.d. eftir hrunið 2008, en gerir það yfirleitt bara með hagsmuni fjármálakerfisins í huga. Núna þarf hins vegar að huga að hagsmunum heimilanna. Að auki verður að teljast hæpið að kalla húsnæðissamninga frjálsa samninga. Jú, lánþeginn tekur ákvörðun um að taka húsnæðislán eða skrifa undir leigusamning en samningsstaða þeirra sem eru að koma þaki yfir sig eða fjölskyldu sína er ekkert sérstaklega sterk, einhvers staðar þarf fólk að búa. Bankinn eða leigusalinn eftir því sem við á er í allt annarri stöðu. Það er ekki jafnræði milli aðila í þessum samningum og eins og í dæminu sem ég nefndi áðan, um sjötugu konuna, er greinilegt að hún á enga kosti í stöðunni.

Fjármálaráðuneytið taldi vafasamt hvort frumvarpið myndi ná til þeirra sem mest þyrftu á hjálp að halda. Það er staðreynd, sem fjármálaráðuneytinu ætti að vera vel kunnugt um, að á leigumarkaði eru þeir sem höllustum fæti standa í samfélaginu og frumvarpið myndi tryggja þeim umtalsvert meira fjárhagslegt öryggi. Auk þess hafa flestir sem vettlingi geta valdið flúið verðtryggðu lánin þannig að líkur eru á að þeir sem eftir sitja með verðtryggð lán hafi ekki sérstaklega mikið á milli handanna. Einnig vildu fulltrúar fjármálaráðuneytisins meina að þar sem fasteignamat hefði hækkað hefðu húsnæðiseigendur fengið mikinn ábata. Því er til að svara að það borgar enginn neitt með hærra fasteignamati, hvorki mat, nauðsynjar né lán. Fjármálaráðuneytið nefndi einnig að vanskil væru lítil í bankakerfinu. Því er til að svara að vanskil segja ekki allt. Fólk leitar allra ráða til að greiða af lánum og vanskil eru því ekki dæmi um yfirvofandi vanda heldur til vitnis um að allt sé þegar brunnið til kaldra kola. Fjármálaráðuneytið hélt því einnig fram að ríkið gæti orðið skaðabótaskylt vegna inngrips í samninga en gat ekki svarað því hvert yrði fjárhagslegt umfang slíkrar ábyrgðar. Mér þætti reyndar mjög gaman að sjá kröfu bankanna gagnvart ríkissjóði verði frumvarpið samþykkt. Það væri verulega áhugavert að sjá hversu mikinn framtíðarhagnað þeir gera ráð fyrir að fá vegna verðbólgu þessa eina árs. Einhvern veginn efast ég um að bankarnir myndu vilja opinbera þá tölu.

Það er kominn tími til að heimilin séu varin. Fjármálafyrirtækin og leigufélögin eru aflögufær, heimilin eru það ekki. Það ríkir neyðarástand á mörgum heimilum og þeim mun fjölga ef svo fer sem horfir. Ef við leggjum þetta tvennt á vogarskálarnar, að annars vegar eigi bankar og stór leigufélög í yfirburðarstöðu að halda öllum þeim hvalreka sem þetta neyðarástand færir vel eða hins vegar hvort bjarga eigi þúsundum fjölskyldna frá þeirri neyð sem blasir við verði ekkert að gert, þá ætti ekki að þurfa að spyrja hvort vegur þyngra. 15.000 fjölskyldur misstu heimili sín í kjölfar síðasta hruns. Þetta eru önnur harðindi og aðstæður af öðrum toga. Ekki gera ekki neitt, segir í minnisstæðri auglýsingu. Ég vil beina þeim skilaboðum til ríkisstjórnarmeirihlutans.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar þannig að ekki verði greidd atkvæði um efni þess hér. Ég vil biðja ríkisstjórnina um að taka þetta mál til alvarlegrar athugunar með hagsmuni heimilanna í huga og leggja hagsmuni hinna sterku og fjársterkra banka og leigufélaga til hliðar í a.m.k. þetta eina skipti. Ég bið hana að tryggja fjölskyldum landsins öruggt húsaskjól, ekki láta reka á reiðanum með þeim afleiðingum að þúsundir fjölskyldna gjaldi fyrir andvaraleysi ykkar á næstu mánuðum og árum. Það er engin spurning í hvað stefnir. Þið sem sitjið í ríkisstjórnarmeirihluta getið núna með forvörnum komið í veg fyrir hörmungar dynji á síðar. Spyrjið ykkur hvert allt þetta fólk á að fara, missi það heimili sín. Er ekki betra að stöðva skriðuna áður en hún fellur og kæfir allt sem fyrir henni verður? Eða viljum við frekar fara að skipuleggja úrræði fyrir þær þúsundir sem missa heimili sín með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð?

Það felst ákveðin þversögn í því að vísa máli sem þessu til ríkisstjórnarinnar eða öllu heldur ómöguleiki því hér er um úrræði að ræða sem einungis verður komið á með lögum. Alþingi eitt getur verndað heimilin fyrir verðbólgunni. Ríkisstjórnin getur ekki breytt lögum til að frysta áhrif verðtryggingarinnar án þess að kalla Alþingi til. Mig langar að trúa því að ríkisstjórnin taki þetta frumvarp alvarlega og fjalli um það af alvöru með þarfir og framtíðarsýn heimilanna í huga í stað þess að einblína eins og yfirleitt áður á hagsmuni fjármálafyrirtækja og kalli svo Alþingi saman til að klára málið. Alþingi hefur verið kallað saman af minna tilefni en því neyðarástandi sem er að skapast hjá heimilum landsins sem er ekki útlit fyrir að lagist í bráð. Ég hef staðið í þeim sporum að vera við það að missa heimili mitt og að lokum missa það. Ég bið ríkisstjórnina þess lengstra orða að hlífa þúsundum heimila í viðbót við að ganga í gegnum skelfinguna sem því fylgir. Ég bið ríkisstjórnina að bjarga heimilunum.