Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 92. fundur,  15. júní 2022.

vistmorð.

483. mál
[23:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir það sem fram hefur komið að þetta er að mörgu leyti áhugavert mál og greinargerðin góð og sá hugur sem stendur að baki alveg ágætur. Það sem ég hef haft svolitlar efasemdir um er þetta hugtak vistmorð. Mér finnst það hljóma mjög harkalega. Maður tengir morð kannski fimmta boðorðinu, svo dæmi sé tekið; þú skalt ekki morð fremja. Þá spyr maður sig: Varðar þetta boðorð líka umhverfissóða? Það er mjög svo hugsanlegt. Það er talað um það í gamla testamentinu að maðurinn eigi að umgangast náttúruna af virðingu og hann er skapaður sem gæslumaður náttúrunnar. En aftur að þessu vistmorði þá er það nú í Íslandsklukkunni að Jón Hreggviðsson er ekki viss um hvenær menn drepi mann og hvenær menn drepi ekki mann. Ég tengi þetta hugtak því ekki beint náttúrunni og hefði hugsanlega viljað sjá annað hugtak eins og t.d. vistskaði. En ég vildi koma þessum hugleiðingum mínum á framfæri og ég veit að það er góður hugur sem stendur þarna á bak við. Einhvern veginn stingur þetta hugtak mig svolítið og maður hrekkur svolítið við. Kannski er það ætlunin með þessari tillögu að stuða fólk svo það fari að hugsa: Bíddu, hvað með þá sem umgangast náttúruna af miklu virðingarleysi?

Frú forseti. Þetta eru hugleiðingar sem ég vildi koma á framfæri vegna þess að mér hefði hugnast betur hugtakið vistskaði.