Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 92. fundur,  15. júní 2022.

vistmorð.

483. mál
[23:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég má til með að veita hérna örstutt andsvar vegna þess að ég átti einmitt ekki auðvelt með þetta hugtak á íslensku fyrst um sinn. Á ensku og flestum tungumálum sem geta tekið hluti beint af einhverjum svona samevrópskum orðstofni þá heitir heiti þetta „ecocide“. Við þekkjum orðin „genocide“, „homocide“, þetta eru allt einhver morð (Gripið fram í: Suicide.) — „suicide“, já. Ég fór fram og aftur með þetta, ég skal viðurkenna það, en eina almennilega þýðingin er þessi, vistmorð, og hún nær alveg utan um þetta vegna þess að við erum að tala um smá hnikun á hugsunarhætti þannig að hið lifandi umhverfi, fyrir utan manneskjurnar, hafi rétt í sjálfu sér. Þótt það að myrða mann sé það sem við kannski tengjum þetta fyrst við þá snýst þetta einmitt um að víkka það út.

Nú langar mig að nefna mann sem við hv. þingmaður höfum einhvern tímann rætt, Frans páfa. Hann nefnilega mætti á einhvern fund innan Vatíkansins, nei, Vatíkanið mætti á einhvern alþjóðasakamálafund þar sem Frans vinur okkar lagði til að syndir gegn vistkerfum væru eitthvað sem þyrfti að taka alvarlega. Þetta er nú maður sem kann boðorðin upp á tíu, öll tíu. Hann bætti síðan við að leggja til að vistmorð ætti að bætast við (Forseti hringir.) sem fimmti glæpurinn í Rómarsamþykktinni og þar með heyra undir alþjóðasakamáladómstólinn. Frans páfi styður þessa tillögu okkar.