153. löggjafarþing — 2. fundur,  14. sept. 2022.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:10]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Kæra þjóð. Þetta er í sjötta sinn sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur lýsi stefnu sinni fyrir komandi þingár og í sjötta sinn sem við heyrum sama gamla innantóma loforðaflauminn. Ég kalla hann ekki innantóman af neinni léttúð. Þvert á móti hef ég raunverulegar áhyggjur af neikvæðum afleiðingum sem innstæðulaus loforð hafa á lýðræðið og traust fólks gagnvart Alþingi. Forsætisráðherra boðar nú í sjötta sinn fögur fyrirheit um aðgerðir í loftslagsmálum og segir jafnvel að við séum á fullri ferð inn í grænt hagkerfi, en í sex ár hafa áætlanir aldrei orðið að aðgerðum sem virka. Það er ekkert útlit fyrir að það breytist með loðnum loforðum um 55% samdrátt. Forsætisráðherra vísar líka í neyðarástand í ræðu sinni. Það er samt ekki nema örstutt síðan að ráðherra afsakaði svikin loforð við Björk Guðmundsdóttur og Gretu Thunberg með því að halda því fram að hún hefði valið að ná árangri frekar en að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Ráðherra sagði að ekki væri þörf á frekari orðum heldur aðgerðum. En það er einmitt það eina sem við fáum: Fullt af orðum, fáar aðgerðir og engan árangur. Ef það er neyðarástand þá þarf að lýsa því yfir og það er neyðarástand. Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann til að geta brugðist við honum af alúð og hugrekki og í því felst einmitt risastór aðgerð.

Kæru landsmenn. Forsætisráðherra boðar áfram fögur fyrirheit í stefnuræðu sinni. Í þetta sinn er það í húsnæðismálum og nú er því lofað að byggja eigi tugþúsundir íbúða á næstu árum þrátt fyrir að engum áætlunum um slíka uppbyggingu sé lýst í fjárlögum. Húsnæðisvandinn varð til undir forystu þessara þriggja flokka sem hafa unnið saman í ríkisstjórn í tæp fimm ár. Húsnæðisvandinn varð til undir forystu þessara þriggja flokka sem hafa lítið sem ekkert gert til að auka framboð á húsnæðismarkaði en allt til að auka eftirspurn. Krísan sem blasir við ungu fólki í dag og fyrstu kaupendum er krísa ríkisstjórnarinnar. Hvers vegna í ósköpunum ættum við að treysta þeim núna? Hversu lengi er ríkisstjórnin búin að lofa að bjarga heilbrigðiskerfinu? Og hversu lengi hefur þessi sama ríkisstjórn hunsað ákall heilbrigðisstarfsmanna eftir mannsæmandi vinnuaðstæðum og launum í samræmi við það gríðarleg álag sem fylgir starfi þeirra? Allt of lengi, herra forseti. Svo lengi raunar að tugir hjúkrunarfræðinga á bráðamóttökunni hafa gefið upp vonina um að nokkru sinni rætist úr loforðum ríkisstjórnarinnar, og sagt upp störfum. Svo slæmt er ástandið. Það er enda engin furða; fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp boðar enn frekara aðhald í rekstri spítalans.

Hversu lengi er ríkisstjórnin búin að lofa að rétta hlut öryrkja? Hversu lengi er hún búin að lofa að stöðva kennitöluflakk, niðurgreiða sálfræðiþjónustu, að hætta að refsa vímuefnanotendum? Svo lengi að það er ekkert mark takandi á þessum loforðum. Hvers vegna ættum við að treysta þeim núna?

Kæru landsmenn. Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar á nýju kjörtímabili var að selja hlut af Íslandsbanka til útvalinna í lokuðu útboði. Þjóðinni var skiljanlega misboðið þegar kom í ljós hverjir keyptu og hversu mikið milliaðilar græddu á sölunni, enda telja rúmlega 88% þjóðarinnar að óeðlilegir viðskiptahættir hafi átt sér stað. Forsætisráðherra, ásamt innviðaráðherra og fjármálaráðherra, gaf út tilkynningu í kjölfarið um að ekki yrði ráðist í frekari sölu að sinni og ítrekaði mikilvægi þess að traust og gagnsæi ríki um sölu á eignum ríkisins, eðlilega. En, forseti, fjármálaráðherra ætlar bara samt að klára að selja Íslandsbanka, jafnvel þótt skýrsla ríkisendurskoðanda um framkvæmd sölunnar liggi ekki fyrir, jafnvel þó að ekkert uppgjör hafi enn átt sér stað um það að fjármálaráðherra hafi selt föður sínum ríkiseign á útsölu í útboði sem almenningur fékk ekki að taka þátt í. En fjármálaráðherra er bara alveg sama um traust og gagnsæi.

Fjárlögin sýna svart á hvítu hversu lítið er að marka yfirlýsingar ráðherranna og hversu litla virðingu fjármálaráðherra ber fyrir þjóðinni.

Kæra þjóð. Forsætisráðherra vill aðgreina sig frá skautunarstjórnmálum, eins og hún kallar þau, og segir að vandamál samtímans verði einungis leyst með samtali eftir lýðræðislegum leikreglum. Hún hvetur okkur þingmenn í stjórnarandstöðu til að vinna eftir þessum lýðræðislegu leikreglum. Ég vil því hvetja forsætisráðherra til að líta í eigin barm og rifja upp þær lýðræðislegu leikreglur sem hún hefur brotið undanfarin ár með það að markmiði að bæta fyrir brot sín. Því að það er brot á lýðræðislegum leikreglum að hunsa niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnskipan Íslands og það var sannarlega framið brot á leikreglum lýðræðisins í fyrrahaust þegar meiri hluti Alþingis ákvað að lýsa sig réttkjörinn þrátt fyrir margvísleg og alvarleg brot sem voru framin við talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Og það er vissulega brot á leikreglum lýðræðisins að gefa kjósendum hvert innihaldslausa loforðið á fætur öðru. Þótt málamiðlanir séu til margs nýtar, eins og forsætisráðherra þreytist ekki á að segja í hverri stefnuræðunni á fætur annarri, þá á ekki og má ekki gera málamiðlanir um grundvallarleikreglur lýðræðisins, því að ef við gerum það þá fyrst erum við komin inn í eitthvað allt annað stjórnkerfi.