Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[09:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hélt að við hefðum verið mjög skýr um þetta, ríkisstjórnin, að það verða ekki teknar frekari ákvarðanir um sölu fyrr en við höfum endurskoðað fyrirkomulagið og fengið skýrsluna og tæmt umræðu um hana. Þetta er alveg skýrt og það er ekki hægt að láta þannig í umræðunni að hér sé beinlínis verið að leggja til að þrátt fyrir það sem áður hefur verið sagt þá ætlum við bara halda okkar striki. Þetta breytir því ekki að ég er þeirrar skoðunar að það sé alveg augljóst að ríkissjóður eigi að selja banka og ég myndi gjarnan vilja fá hv. þingmann með mér eins og allt Alþingi í að klára söluna. En ef hann vill ekki taka þátt í því verkefni þá verður bara að vera svo. Ég mun ekki láta það trufla mig og ég mun hvergi láta neinn segja mér hvað mér á að finnast um það hvort ríkið eigi að eiga Íslandsbanka eða ekki. Það er mjög einfalt. Þetta er samkeppnismarkaður. Ríkið hefur ekki hlutverki að gegna þarna. Við erum í þörf fyrir stórkostlega innviðauppbyggingu í landinu og það er dauðafæri að losa um rúmlega 100 milljarða eignarhlut í fjármálafyrirtæki og færa yfir í betra vegakerfi, öflugri hafnir, flutningskerfi, hvort sem er fjarskipta, raforku, þar sem kallað er eftir aðkomu ríkisins. Farið um landið og talið við fólkið í landinu sem er að kalla eftir því að samkeppnisstaða landsbyggðarinnar sé tryggð og það sem er efst á blaði eru innviðirnir, innviðir í ýmsu formi. Í stuttu máli stöndum við frammi fyrir tveimur valkostum, sérstaklega meðan ríkissjóður er í þeirri stöðu sem hann er í í dag. Það er annaðhvort að slá lán, láta framtíðarkynslóðir borga, senda reikninginn inn í framtíðina og trúa því að þjóðhagsleg arðsemi framkvæmdanna sé alltaf umfram kostnaðinn af lántökunni eða einfaldlega að snúa eignum sem við höfum enga brýna þörf fyrir að halda á í þessa framtíðaruppbyggingu fyrir landið sem mun bæta lífsgæðin um allt land. Fyrir mér er þetta augljóst. (Forseti hringir.) Þetta þvælist fyrir öðrum og það verður bara að vera þannig.