Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:07]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get alveg tekið undir það og mín skoðun á samgöngum á landsbyggðinni er einfaldlega sú að þar er gríðarlega mikið verk að vinna. Það er nú ekki langt síðan ég keyrði hring um kjördæmi mitt, sem er Norðvesturkjördæmi, og því skal haldið til haga að þær framkvæmdir sem þar eru í vegakerfinu eru líka gríðarlegar. Það eru miklar framkvæmdir í vegakerfinu hjá okkur nú þegar. Það má ekki gera lítið úr þeim framkvæmdum sem fyrir eru. En það er ljóst að verkefni sem okkar bíður er gríðarlegt og við þurfum að finna leiðir til að fjármagna það. Það er eitt af því sem er verið að horfa til í þessu fjárlagafrumvarpi, hvaða nýjar leiðir við eigum til að koma til móts við þessa lækkun sem hefur orðið á gjaldstofnum út af t.d. rafmagns- og tengiltvinnbílum. (Forseti hringir.) Við þurfum bara að horfast í augu við það að ef við viljum, og ég efast ekki um að við öll hér inni séum á þeim stað, aukinn framkvæmdaþunga í vegakerfi landsbyggðarinnar þá þurfum við að finna leiðir til að fjármagna það.