Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talaði um breytingar á frumvarpinu í vinnslu þingsins. Það hefur svo sem gerst oft áður en yfirleitt eru þær breytingar í raun eitthvað sem ráðuneytið sendir okkur þegar fer að líða að 2. umr., t.d. endurútreikningar vegna nýrra þjóðhagsreikninga. Í þetta skipti virðast það vera gríðarlegar tilfærslur á fjármunum sem eru í fjárlagafrumvarpinu settir í varasjóð. Þeir verða settir í húsnæðismál, er okkur sagt, málefni flóttafólks og ýmislegt annað. Ég verð smááhyggjufullur út af því hvort þetta komi til með að hindra okkur í vinnu nefndarinnar hvað umsagnaraðila varðar því þetta er mjög ógagnsætt gagnvart þeim sem veita umsagnir um fjárlagafrumvarpið. Hvert er t.d. umfang húsnæðisaðgerða ríkisstjórnarinnar? Þeir geta ekki komið með neinar athugasemdir um það. Síðan berast loksins tillögur frá ríkisstjórninni um það hvernig eigi að færa úr varasjóðnum yfir í húsnæðismálaflokkinn og yfirleitt er það að gerast þegar umsagnarferlinu er lokið og við þurfum að fara að afgreiða frumvarpið fyrir áramót. Þá fáum við engar umsagnir um þann hluta frumvarpsins til þess að vinna með hérna í 2. umr., sem ég tel vera mjög bagalegt. Við fáum ekki það tækifæri sem við höfum alla jafna með allt annað í frumvarpinu um að fá athugasemdir frá ýmsum aðilum úti í bæ og geta spurt ráðuneytin betur um það hvernig þetta á að virka. Við komum til með að missa af mikilli og nauðsynlegri vinnu og það í svona mikilvægum málaflokki eins og húsnæðismálunum.