Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar á hverju ári er mikilvægt skjal. Það sýnir okkur svart á hvítu hver pólitík ríkisstjórnarinnar er. Þá er hægt að festa hendur á því hvað ríkisstjórnin ætlar í raun og veru að gera. Við höfum nefnilega heyrt alls konar pælingar á undanförnum mánuðum og árum um hvalrekaskatt, að afhenda þjóðinni hlut í Íslandsbanka, sanngjarnari skiptingu arðsins af sameiginlegum auðlindum, einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og ekki einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. En þegar ríkisstjórnin leggur fjárlagafrumvarpið á borðið er augljóst að þetta er allt bara merkingarlaust orðskrúð. Tálsýn til að búa til einhvers konar von um að það sé tilgangur með þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Fullt af loforðum um hitt og þetta, en ekkert af því birtist í fjárlagafrumvarpinu. Það er það sem skiptir máli, hvað birtist okkur, hvað verður notað.

Í þessu fjárlagafrumvarpi eru áherslur ríkisstjórnarinnar lagðar fram í fjórum liðum miðað við kynningu ráðherra. Það á að lækka verðbólguna, endurheimta styrk ríkissjóðs, standa vörð um heimilin og áframhaldandi lífskjarasókn. En eins og allt annað þá eru þetta bara orð. Við viljum vita hvað liggur þar á bak við. Byrjum á því hvernig á að lækka verðbólguna. Í fjárlagafrumvarpinu er útskýrt hvernig farið verður í einhverjar aðgerðir, þetta var tilkynnt síðasta sumar, upp á 0,7% af vergri landsframleiðslu með því að lækka ferðakostnað ríkisstjórnarinnar, fresta útgjöldum til 2024 og svo 36 millj. kr. lækkun til stjórnmálaflokka. Svo á að vera aðhald í ríkisútgjöldum, t.d. 4,1 milljarðs kr. aðhaldskrafa á spítalana miðað við hvernig textinn er í fjárlagafrumvarpinu og svo er endurskoðun á einhverjum fjárfestingaráformum. Ég veit ekki með ykkur öll en ég heyri alltaf aðhald í ríkisútgjöldum. Það þýðir að annaðhvort gerist það ekki eða það er alltaf að misheppnast. Það er samt alltaf að verið að lofa því aftur og aftur. Það gerist greinilega ekki af því að annars þyrfti ekki að lofa því aftur og aftur, það liggur í hlutarins eðli, þannig að maður getur hent þeim rökum út um gluggann. Það er ekkert að fara að gerast eins og venjulega. Hitt er svo bara klink í stóra samhengi verðbólgunnar þar sem stærsta vandamálið er húsnæðismarkaðurinn og þau hagstjórnarmistök ríkisstjórnarinnar að dæla peningum í eftirspurn en ekki í framboð. Þar liggur ákveðinn freistnivandi þar sem aðgerðir til að hafa áhrif á framboð taka a.m.k. tvö ár og þú kaupir ekki atkvæði stuttu fyrir kosningar. Núna skuldar ríkisstjórnin fólki þær hækkanir sem orðið hafa á vöxtum vegna hagstjórnarmistaka sinna en nákvæmlega engar tillögur hafa komið frá ríkisstjórninni um hvernig hún ætlar að taka til eftir sig.

Næsta markmið er að endurheimta styrk ríkissjóðs. Þar er af ýmsu að taka. Það á að selja Íslandsbanka, setja 4 milljarða aðhaldskröfu á spítalana, vanáætla kostnað vegna endurgreiðslna í kvikmyndagerð, skera við nögl í framhaldsskólum þar sem næsti árgangur er stærri en sá sem er að klára. Samt er ekkert verið að hækka, í rauninni ekki neitt, því að utan launa- og verðlagsbreytinga lækka fjárlög til framhaldsskóla. Þetta eru dæmi um hvernig á að borga fyrir það að ríkissjóður endurheimti styrk. Alvarlegast finnst mér þó að ríkisstjórnin skili auðu í húsnæðismálum og heilbrigðismálum enn eitt árið, bara til að endurheimta styrk ríkissjóðs.

Þriðja áherslumálið er að standa vörð um heimilin. Verja viðkvæma hópa fyrir áhrifum verðbólgunnar, er sagt. Þar er vísað í hækkanir barnabóta, lífeyris almannatrygginga og húsnæðisbóta, en miðað við stöðuna í dag eru þessar hækkanir ekki umfram verðbólgu nema í lífeyri almannatrygginga, ein aðgerðin þar sem er umfram verðbólgu. Á næsta ári er 1,1% hækkun lífeyris almannatrygginga, það lítur ágætlega út en það er smá vandamál með það sem ég kem að á eftir.

Fjórða áherslumálið er áframhaldandi lífskjarasókn. Það þýðir samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að áfram verður byggt undir verðmætasköpun með fjárfestingum og traustri hagstjórn. Það er svo sem hægt að hrósa ríkisstjórninni fyrir eitt, það er áhersla hennar á nýsköpunarmálin, tvímælalaust. Það þarf þó að fara sparlega með það hrós því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í nýsköpunarmálum eru pínulítið handahófskenndar og samhengislausar. Það er eins og verið sé að hlusta á hina og þessa aðila sem eru í sitthvoru horninu í nýsköpunargeiranum og reynt að gera eitthvað fyrir alla, jafnvel þótt það sé í mótsögn við eitthvað annað, eins og t.d. með niðurlagningu þeirrar þjónustu sem Nýsköpunarmiðstöð útvegaði eða ofuráhersla á að sem mest af nýsköpunarfjármagninu fari til stærstu aðilanna í stað þess að fleiri geti fengið meira því að tækifærin eru svo sannarlega til staðar um allt land. En þegar kemur að traustri hagstjórn varð ég að klóra mér hressilega í hausnum. Ég skil ekki hvernig hægt er að kalla það trausta hagstjórn að gjörsamlega rústa húsnæðismarkaðinum. Það kemur vissulega vel út á pappír þegar íbúðaverð hækkar og eignarhlutdeild húsnæðiseigenda hækkar miðað við lánin þeirra. Í hagfræðitölum lítur út fyrir að almenningur skuldi hlutfallslega minna en áður. Ein aðferðin til að slá á verðbólgu í samfélaginu er síðan að hækka skatta þar sem peningar hafa safnast saman. Þá minnkar peningamagn í umferð og gerir peninginn sem eftir er í hagkerfinu verðmætari. En það sem ríkisstjórnin gerir hins vegar er að hækka að verðlagi krónutöluskatta sem kosta fólk með lægri tekjur meira en það sem er með hærri tekjur, þ.e. sem hlutfall af tekjum þess. Afganginum af aðhaldinu varpar ríkisstjórnina yfir á peningastefnuna sem gerir lítið annað en að hækka stýrivexti. Og hvar lenda stýrivextir? Til að byrja með er það að sjálfsögðu verðbólgan sem er búin að lenda á fólki með verðtryggð lán. Þegar stýrivextir eru hækkaðir lendir sú hækkun á lánum fólks með breytilega vexti og í þessu tilviki er hækkun á stýrivöxtum viðbrögð við verðbólgu, þannig að það má í rauninni segja að lán með breytilegum vöxtum sé ekkert annað en verðtryggt lán þegar allt kemur til alls, bara með pínu meiri fínstillingum, það þarf að fara í gegnum nokkra fleiri hringi og lása o.s.frv.

Reynum að sjá þetta fyrir okkur. Úti um allt í samfélaginu er fólk og fyrirtæki í daglegu amstri. Sumum gengur vel, öðrum ekki. Flestir ná að troða marvaða. Verðtrygging er ákveðið hagstjórnartæki sem sogar til sín peninga frá fólki sem er með verðtryggð lán og tekur þannig peninga úr hagkerfinu. Þeir fara til bankana sem geta svo útdeilt því með nýjum lánum með hærri vöxtum. Þetta hagstjórnartæki er eins og stór ryksuga sem er alveg sama um hvaðan kuskið kemur, bara svo lengi sem það er á verðtryggðum lánum, og grípur allt lauslegt. Stýrivextir eru svipað hagstjórnartæki. Þeim er ætlað að gera lán dýrari og hvetja til sparnaðar. En af því að við erum með lán sem eru með breytilega vexti þá virka stýrivextir eins og ryksuga á þess háttar lán, lán með breytilegum vöxtum. Þeim peningum er svo skilað aftur til bankanna sem eiga að reyna að skila þeim aftur út í hagkerfið með hærri vöxtum.

Skattkerfið er síðan enn eitt hagstjórnartæki sem hægt er að nota til að bregðast við þenslu. Það er þunglamalegt af því að þá þarf lagasetningu sem þarf að fara í gegnum þingið en skattkerfið getur verið mun nákvæmara en verðtryggingin og stýrivextir, a.m.k. þegar við erum með lán með breytilegum vöxtum. Eins og staðan er í dag þá eru 70% lána einhvers konar blanda af lánum með verðtryggða eða breytilega vexti. 18% lána eru meira segja bæði verðtryggð með breytilega vexti. Pælið í því. Afgangurinn skiptist nokkurn veginn jafnt á milli verðtryggðra lána og lána með breytilegum vöxtum, 26% og 7%.

En hvar er þá þessi trausta hagstjórn ríkisstjórnarinnar? Úrræðin sem eru til staðar til að hjálpa þeim sem eru með lægstu tekjurnar eru í besta falli að hjálpa þeim sömu og áður jafn mikið og áður. Ekki mikið meira. Mögulega varðandi lífeyri almannatrygginga sem hækkar um 1,1% umfram verðbólguspá á næsta ári. Þetta er mikilvægt, verðbólguspá. Afgangurinn af þessari traustu hagstjórn er settur í hendur peningastefnu sem sogar pening til sín til bankanna, frá fólki sem er með lán með breytilegum vöxtum og hélt sig vera að forðast verðbólgu og verðtryggð lán. Almennileg og traust hagstjórn myndi búa til hagkerfi þar sem þessi óskapnaður sem verðtrygging og lán með breytilegum vöxtum eru, er ekki til, og það sé ekki hægt að seilast í ráðstöfunartekjur fólks á þennan hátt afturvirkt í raun og veru. Það myndi gera kröfur á stjórnvöld um að sýna alvöruaga í hagstjórn. Eins og er þá komast stjórnvöld uppi með agaleysi því að það eru alltaf einhverjir aðrir sem borga brúsann, yfirleitt almenningur. Þegar það þarf í alvörunni að borga fyrir óstjórn í hagstjórninni þá er bara hægt að kveikja upp í stýrivöxtum eða verðbólgan sogar sjálfkrafa til sín fjármagn úr vösum fólks inn í bankana eða þá inn í ríkissjóð ef það eru skattahækkanir. Þetta er leið til að draga úr þenslu og minnka magn peninga í umferð og auka verðmæti þeirra peninga sem þegar eru til staðar í kerfinu.

Svo mörg voru þau orð um markmið stjórnvalda með fjárlagafrumvarpinu. — Voru það ekki tíu mínútur, eru þær strax búnar? Ég fæ ekki séð að aðgerðirnar þýði annað en þau segja að þær þýði. Verkefnin eru nefnilega mörg; innviðaskuldin, húsnæðismálin, heilbrigðismálin, menntamálin og menningarmálin, spillingarmálin, fátækir sem eru enn að bíða eftir réttlæti, kjör þeirra hafa meira að segja dregist enn meira aftur úr öðrum hópum á starfstíma þessarar ríkisstjórnar, en uppsöfnuð kjaragliðnun er núna rúm 9% frá 2017, þ.e. ef áform um verðbólgu fyrir næsta ár standast og launaþróun verður lægri en verðbólga. Ég sé það ekki gerast og það er viðbúið að (Forseti hringir.) kjaragliðnun lífeyris muni aukast enn á næsta ári því að að sjálfsögðu munu verkalýðsfélögin ekki krefjast minni launahækkana á næsta ári en verðbólguspáin segir til um. (Forseti hringir.) Það er ekki séns. Þannig að 1,1% hækkunin er ekki aukning að mínu mati, (Forseti hringir.) hún mun í mesta lagi halda við launaþróun, sem er þó jákvætt.