Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:36]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Gaslýsingu getum við kallað það þegar hæstv. fjármálaráðherra kom hingað upp í eldhúsdagsumræðum í gær og kvartaði og kveinaði undan því að stjórnarandstöðuflokkar vildu hækka skatta. Þetta gerði fjármálaráðherra daginn eftir að hafa lagt fram fjárlagafrumvarp sem einkennist öðru fremur af gjöldum, gjaldahækkunum, hærri gjöldum á fólkið í landinu, hærri skattbyrði á lágtekju- og millitekjufólk, veikari tilfærslukerfum. Og í örvæntingu sinni nokkrum vikum fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins — þar sem hann ætlar að sækjast eftir endurnýjuðu umboði í skugga hneykslismáls þar sem faðir hans keypti eignarhlut ríkisins í banka í lokuðu útboði, en það er nú önnur saga — steig hæstv. fjármálaráðherra í ræðustól og sagði: Það eru þið sem ætlið að hækka skattana, ekki ég, heldur þið. Munið þið fyrir nokkrum árum þegar þingmaður í stjórnarandstöðu, Katrín Jakobsdóttur, var uppnefnd af hægri tröllum á samfélagsmiðlum skattaglaða Skatta-Kata. Þannig var þetta í aðdraganda kosninga 2016 og 2017 þegar íhaldsöflin héldu að Katrín Jakobsdóttir yrði einhvers konar ógn við forréttindi hinna ríku og valdamiklu á Íslandi. Tröllunum hefði kannski verið nær að vara við hæstv. fjármálaráðherra, kalla hann skattaglaða Skatta-Bjarna, gjaldaglaða Gjalda-Bjarna, Skattmann, því að það er sú mynd sem birtist í þessum fjárlögum.

Förum aðeins yfir þetta. Áfengisgjöld, hæstu áfengisgjöld í Evrópu, þau hækkuðu um 7,7%, tóbaksgjöld 7,7%, kolefnis- og eldsneytisgjöld hækka um 7,7%, bifreiðagjöld hækka um 7,7%, kílómetragjöld um 7,7%. Þetta eru skattar sem lenda þyngst á tekjulægstu hópunum. Bjarni Benediktsson vill kroppa af þeim 5,3 milljarða sem lekur auðvitað beint út í vísitölu neysluverðs. Þetta eykur á erfiðleika skuldsettra heimila, það segir sig sjálft. Sérstakt 5% vörugjald kynnt til sögunnar á allar nýjar fólksbifreiðar. Þetta á að skila 2,7 milljörðum. 0,2% í viðbót úti í vísitölu neysluverðs og gjaldahækkanirnar eru fleiri. Lágmark bifreiðagjalds á að tvöfaldast. Þar verða teknir 2,2 milljarðar af fólkinu í landinu. Og takið eftir því að hér er verið að auka sérstaklega skattheimtu á vistvæna bíla, einmitt þegar lágtekjuheimilin eru kannski farin að sjá hilla undir að það verði svolítið hagkvæmara að eignast rafmagnsbíl vegna þess bæði að þeir eru orðnir ódýrari í framleiðslu og olíuverð hefur hækkað upp úr öllu valdi. Þá er einmitt verið að skrúfa fyrir þessar skattaívilnanir. Fólkið í lægri tekjuendanum fær ekki að vera með í þessu. Ég gæti haldið áfram að telja upp hækkun nefskatta og gjalda en þau eru bara svo mörg að ræðutíminn leyfir það varla.

Höfum í huga að þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt. Það er ekkert nýtt að Sjálfstæðisflokkurinn, að fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, velti skattbyrði yfir á lágtekju- og millitekjufólk. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn tók við fjármálaráðuneytinu 2013 tók við tímabil þar sem skattbyrði heimila í lægri tekjuendanum jókst ár eftir ár, stig af stigi. Þetta gerðist vegna þess að persónuafsláttur fylgdi ekki launaþróun, vegna þess að bótafjárhæðir voru látnar rýrna að raunvirði, vegna þess að skerðingarmörk vaxta- og barnabóta hækkuðu ekki í takt við laun og fasteignaverð. Þetta var bara pólitísk ákvörðun, klassísk leið hægri manna til að hækka skatta á venjulegt fólk meðan skattbyrðin er lækkuð hjá hinum tekjuhæstu og eignamestu. Þessi þróun beinnar skattbyrði hélt áfram nánast á hverju einasta ári hjá fólkinu í lægri tekjuendanum, allt þar til verkalýðshreyfingin knúði fram skattalækkanir með lífskjarasamningum 2019. En vandinn er að þá var búið þannig um hnútana að skattalækkanirnar gengu upp allan tekjustigann og það kom engin tekjuöflun á móti þannig að á endanum var þetta skattalækkun sem þjónaði sem verkfæri til að grafa undan langtímagetu ríkissjóðs til að reka sterka velferðarþjónustu.

Það sem er svo sláandi í þessu frumvarpi, þessu fjárlagafrumvarpi, er að um leið og það er verið að skrúfa frá ýmsum gjöldum, alveg í botn, skrúfa frá refsisköttum og gjöldum á fólkið í landinu, er ekki ráðist í eina einustu aðgerð, ekki einu sinni smátáknrænar aðgerðir til þess að láta breiðu bökin taka þetta með okkur. Fjármálaráðherra má ekki heyra minnst á svoleiðis. Hann má ekki heyra á það minnst að kannski mætti stórútgerðin greiða meira fyrir nýtingu á sameiginlegum auðlindum. Þegar við í Samfylkingu, jafnaðarmannaflokki Íslands, köllum eftir því að fjármagnseigendurnir með dýpstu vasana taki líka á sig aðhaldið og að atvinnugreinar sem beinlínis græða á ójafnvægi í heimshagkerfinu taki á sig aukna skattbyrði þá talar fjármálaráðherra um öfund gagnvart fólki sem gengur vel. Þegar við köllum eftir varðstöðu um velferðarþjónustuna, varðstöðu um heilbrigðiskerfið og kjör þeirra sem reiða sig á almannatryggingar þá ásakar fjármálaráðherra okkur um stjórnlyndi, að vilja eyða annarra manna peningum. Þetta er hugmyndafræði þessarar ríkisstjórnar; hver er sinnar gæfusmiður, hver maður fyrir sig í samfélagi sigurvegara og lúsera þar sem hver fær bara það sem hann á skilið.

Við í Samfylkingunni höfnum þessari einstaklingshyggju Við höfnum þessari fjármálapólitík og á næstu vikum munum við tala fyrir því að farin verði önnur leið, að farin verði leið sem er bæði til þess fallin að verja viðkvæma hópa fyrir verðbólgunni og til þess fallin að draga úr umsvifum í hagkerfinu, kæla hagkerfið og vinna þannig gegn verðbólgunni. Þetta er verkefnið sem fólkið í landinu hefur treyst ríkisstjórninni fyrir og ríkisstjórnin rís ekki undir því trausti.