Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:05]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Varðandi 3 milljarðana sem loforð er um að við notum ekki, af þensluástæðum, á næsta ári þá bætast þeir ofan á fjármálaáætlunina sem er í gildi. En ég minni hv. þingmann á að það kemur ný fjármálaáætlun á næsta ári og hún horfir til lengri vegar. Ef okkur gengur vel að kljást við verðbólguna og þensluna mun ég alla vega berjast fyrir því að við fáum frekara fjármagn til uppbyggingar samgöngumála. Ég veit að hv. þingmaður mun styðja mig í því og fleiri hér í salnum.

Varðandi gjaldtökuna og þá þætti þá hefur hv. þingmaður nú komið víða við; hann var aðstoðarmaður samgönguráðherra á fyrstu árum þessarar aldar. Þá voru tekjur ríkisins af bensíngjöldum, bifreiðagjöldum og öllum þeim gjöldum sem við tökum af ökutækjum allt að 2,5% miðað við landsframleiðslu. Þau gjöld eru komin niður í 1,2%. Það er langur vegur frá því að þær breytingar sem við erum að gera núna séu jafn þung byrði á heimili landsins og bíleigendur og var á fyrstu árum þessarar aldar og það sést mjög glögglega. Vegna þess að okkur gengur vel í orkuskiptunum greiðir sífellt stærri hluti bílaflotans ekki krónu fyrir notkun á vegunum. Þess vegna þurfum við að skipta um kerfi, taka upp kerfi þar sem menn greiða meira fyrir notkunina en ekki fyrir bensín og dísil.

Ég veit að hv. þingmaður elskar bensín og dísil, ég heyrði það á ræðu hans í gær. En á sama hátt og fólk tók þá ákvörðun að skipta út kolum, bensín og dísil árið 1937 og hitaveituvæða Ísland þá ætlum við að gera það núna. Við ætlum að breyta landinu í rafmagnsbíla- og rafeldsneytisumhverfi þar sem við erum laus við dísil- og bensíngjöld og dísil- og bensínolíur.