Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:03]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, setti á dögunum á laggirnar nýjan samstarfssjóð háskóla með það að markmiði að auka áhrif og tengsl háskóla og rannsóknarstofnana í samfélaginu. Það er verðugt og spennandi verkefni, verður að segjast. Sjóðnum eru ákvarðaðir 2 milljarðar í fjárlögum; einn milljarður á þessu ári og annar á því næsta. Þetta er ekki viðbótarfjármagn heldur heyrir þetta undir stofnlið innan málefnasviðs 21, um háskólastig, í fjárlögum, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra hér fyrr í kvöld. Spurning mín, virðulegi forseti, lýtur að þessari fjármögnun sjóðsins. Hvaðan ætlar ráðherrann að peningarnir komi til að fjármagna þetta nýja og ágæta verkefni og munu önnur verkefni er tengjast háskólunum, iðnaði eða nýsköpun missa fjármagn yfir í þetta verkefni?