Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:05]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Við ræðum hér tillögur frumvarps til fjárlaga fyrir komandi ár. Mig langar til að víkja máli mínu að fjárheimildum til Samtakanna '78 sem sannarlega hafa verið auknar. Samkvæmt frumvarpinu er fjárheimild málaflokksins aukin um 25 millj. kr. til að koma til móts við tímabundið framlag sem fellur niður. Þetta er auðvitað gott og vel, og mikilvægt að fjármögnun verkefna á borð við þetta sé tryggð varanlega en ekki aðeins tímabundið. Það er eðli margra samtaka sem berjast fyrir bættu samfélagi að óska þess að verkefni sem þau sinna verði að endingu sjálfgefin, sem leiði til þess að ríki og sveitarfélög taki ábyrgðina í sínar hendur, ekki eingöngu með fjármögnun heldur með þekkingu, þjálfun og meðvitund innan kerfisins sjálfs. Enn er það þó þannig að sú þjónusta sem Samtökin '78 veitir krefst mikillar sérþekkingar sem enn finnst óvíða annars staðar. Því sinna Samtökin gríðarmikilli fræðslu, stuðningi og annarri þjónustu sem ella væri sinnt af hálfu ríkisins sjálfs.

Ég fagna þessari breytingu en tel samt sem áður að þetta dugi ekki til að fjármagna allt það sem Samtökin gera? Því spyr ég í fyrsta lagi hvort ekki sé kominn tími til að félagasamtökin Samtökin '78 fái einfaldlega greitt fyrir alla þá þjónustu sem ríki og sveitarfélög gera ráð fyrir að þau sinni? Og þá langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji ekki ástæðu til að bregðast sérstaklega við auknum fordómum, sem við höfum því miður orðið vör við í samfélaginu undanfarið, því líkt og hæstv. forsætisráðherra sagði sjálf í stefnuræðu sinni eru mannréttindi alls ekki sjálfgefin og það er rík þörf á að standa virkan vörð um þann árangur sem náðst hefur, því annars er hætta á að við færumst aftur á byrjunarreit.