Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:02]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt að stytting vinnuvikunnar hefur haft heilmikil áhrif á lögregluembættin og eins og ítarlega hefur komið fram í umræðunni þá tengist þetta mjög. Við getum sagt að sérstakar aðstæður skapist þar sem um vaktavinnustörf er að ræða og það hefur verið ákveðin glíma fyrir embættin að endurskipuleggja vaktafyrirkomulag og annað og laga sig að þessu. Þetta er fullfjármagnað en við erum samt sem áður enn þá í þessu aðlögunar- og þróunarferli og það er að skapast ákveðin reynsla. Þetta kallar auðvitað í grunninn á fleiri lögreglumenn, það eru áhrifin af þessu og við því erum við að bregðast.

Hvernig er hægt að tryggja öryggi lögreglumanna? Þetta er mjög góð spurning og ég held að við ættum öll að velta því fyrir okkur við hvaða aðstæður þetta fólk, sem tekur að sér að tryggja öryggi borgaranna í þessu landi, býr við í þessu breytta umhverfi í sínu lífi. Þetta fólk á líka fjölskyldur, börn og foreldra o.s.frv. og vill auðvitað koma til síns heima til að geta sinnt því. Ég kom inn á það hér áðan að það er allt of mikið um það í dag að það séu alvarleg meiðsl og það er auðvitað mjög fælandi. Þróun á Norðurlöndum hefur farið í þá átt, og við því er verið að bregðast, að fólki hefur fækkað sem gefur kost á sér í þessi störf og það er svo umtalsvert að það er að verða vandamál. Við þurfum auðvitað að horfa til þess hvernig búnað við búum lögreglufólkið okkar út með til að geta tekist á við þetta breytta umhverfi og hvernig starfsaðstæður við sköpum því. Það á við lögreglustarfsemina alla (Forseti hringir.) að um leið og við styrkjum starfsemina í heild sinni, um leið og við munum þurfa að auka fjármagn til þessarar starfsemi svo hún standi undir sér, þá þurfum við sérstaklega að huga að öryggi fólksins sem tekur að sér þessi störf fyrir okkur.