Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er ákveðið vandamál að halda utan um þessar gjafsóknir. Þetta eru útgjöld sem við getum sagt að sveiflist svolítið á milli ára. Það er erfitt að gera áætlun fram í tímann um hver þessi kostnaður getur orðið og þannig hefur það verið. Þá hefur það gjarnan verið gert upp í lokafjárlögum þegar lokauppgjör fer fram á þessu. Reglurnar voru rýmkaðar fyrir tveimur árum síðan og þar með hafa framlögin aukist í þennan málaflokk. Það er auðvitað alltaf matsatriði hversu langt á að ganga í þessu en reglurnar hafa verið rýmkaðar og þróunin hefur verið í þá átt og svo sem líka sérstaklega í ákveðnum málaflokkum, eins og þegar kemur að kynferðisafbrotamálum og slíku, þá hafa málin verið ávörpuð í þeirri umræðu alveg sérstaklega. Sérstök nefnd fjallar um þetta og afgreiðir þessi mál. Ég held að í sjálfu sér sé þetta í alveg þokkalegum farvegi ef við berum þetta saman við það sem við þekkjum til annars staðar. En þetta er ekki mál þar sem er einhver endanleg afgreiðsla heldur þarf þetta auðvitað að vera stöðugt til skoðunar og endurmats ef þörf krefur.