Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:27]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka þessi svör. En ég segi bara að mér þykja þessi fjárlög gríðarlega skammsýn, og þá er ég aðallega að tala um það að mér finnst ekki vera nægilegur skilningur á því að það er mikið af fólki í samfélaginu sem býr við mikla og viðvarandi fátækt og ég sé ekki að það sé tekið til greina í fjárlagafrumvarpinu. Við horfumst ekki í augu við þennan vanda og ég velti því í alvörunni fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi kynnt sér hinar ýmsu skýrslur og upplýsingar sem komið hafa fram um fátækt á Íslandi og hvort ráðherra þekki áhrifin sem fátækt hefur á líf fólks. Ég trúi því ekki að ef vitneskjan er til staðar um þetta vandamál þá sé ekki verið að setja allt púður í það, vitandi um keðjuverkandi áhrif fátæktar í samfélaginu, að uppræta fátækt. Þeir sem geta ekki tekið þátt á vinnumarkaði, eins og öryrkjar sem við vorum að tala um áðan, reiða sig á greiðslur frá ríkinu. Þetta er fólk sem á sömu réttindi og annað fólk. Þetta er fólk sem á þau réttindi að deila með öðrum sameiginlegum gæðum samfélagsins. Þetta er fólk sem á börn sem hafa margvíslegar þarfir og eiga einnig fullan rétt á því að fá hlutdeild í sameiginlegum gæðum samfélagsins. Fyrir utan að þetta snýst ekki bara um réttindi þessa fólks sem nær varla endum saman, þetta snýst um velsæld samfélagsins alls. Við hljótum að kannast við það að fátækt skapar aragrúa vandamála sem vinda upp á sig og stækka og seytla inn í allt samfélagið. Velmegun og framþróun samfélagsins alls er háð því að öllum verði lyft upp, að við upprætum fátækt. Spurning mín til hæstv. ráðherra er í fyrsta lagi sú að það væri áhugavert að vita hvort hann sé sammála þessu, en ég vil líka spyrja: Veit ráðherra hvað fátækt kostar samfélagið? Hefur ráðherra látið reikna það út í krónutölu? Ef ekki, hvers vegna ekki? Telur hann ekki mikilvægt að vita sirka hvað afleiðingar þess að bregðast ekki við neyð fólks kosta samfélagið til langs tíma?