Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:51]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Takk fyrir þessa umræðu. Ég vil þakka ráðherranum fyrir að vera hér og hrósa honum fyrir hans vilja til að gera vel en hann er því miður að glíma við mjög erfiðar aðstæður sem hann er ekki öfundsverður af. Mér þykir þessi tími rýr sem við fáum í að ræða málaflokka sem eru þriðjungur af fjárlögum þannig að það er um að gera að reyna að nýta tímann sinn. Ég, eins og margir fleiri, hef verið upptekinn af myndinni á bls. 288 sem hæstv. ráðherra nefndi hér áðan, gulu tölunni 4,1 í aðhald. En ég hef líka verið að horfa á töluna 3,4 milljarðar, launa- og verðlagsbætur, sem er líka erfitt að átta sig á. Það þarf örugglega lengri tíma til að kafa ofan í þetta. Hvað af þessu eru verðlagsbætur? Hvað af þessu eru launabreytingar? Miðað við það að sjúkrahúsþjónusta hafi verið með 137 milljarða á síðasta ári og hún fengi alla þessa tölu í launabreytingar og miðað við það að laun væru 50% af rekstrarkostnaði þá myndi þetta duga fyrir 5% hækkun. Ef laun eru 60% af rekstrarkostnaði þá dugar þetta bara fyrir 4,1% hækkun, miðað við að öll þessi upphæð fari í launabreytingar en það er greinilega áætlað að eitthvað af henni fari í verðlagsbreytingar. Ef laun væru 70% þá er þetta bara 3,5% hækkun. Við erum að sjá fram á verðbólgu upp á 7–8% á næsta ári. Er virkilega verið að áætla þessa tölu (Forseti hringir.) í launabreytingar í þessu árferði? Getur ráðherra svarað því hvort laun séu 50% af rekstrarkostnaði?