Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:09]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mun hér í stuttu máli gera grein fyrir helstu atriðum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2023 hvað varðar þau málefnasvið sem undir mitt ráðuneyti heyra. Samkvæmt frumvarpinu liggur fyrir að heildarútgjöld til þeirra tveggja málefnasviða sem hér undir falla, þ.e. landbúnaðar og sjávarútvegs, eru rúmir 28 milljarðar. Þau skiptast þannig að um 7 þeirra fara til sjávarútvegs og fiskeldis og um 21 til landbúnaðar.

Mikil gerjun á sér stað í íslenskri matvælaframleiðslu um þessar mundir og sífellt koma upp spennandi hugmyndir og verkefni en ekki síst hugmyndir um nýjar leiðir til að skapa verðmæti úr hráefnum sem áður voru talin úrgangur. Íslenskur sjávarútvegur dregur að landi eina og hálfa milljón tonna af villtum fiski. Íslenskur landbúnaður sér okkur fyrir ýmsum vörum, sérstaklega kjöti og mjólkurvörum. Þar eru veruleg sóknarfæri bæði í kornrækt og garðyrkju. Fiskeldið stækkar á hverju ári auk þess sem spennandi er að fylgjast með landeldinu.

Það eru heljarmikil tækifæri í matvælaframleiðslu á Íslandi. Við höfum hreint vatn, jarðhita, hreina orku og jarðnæði og ef við nýtum þessi tækifæri á skynsamlegan hátt þá getur Ísland lagt enn meira af mörkum í því stóra verkefni að fæða mannkynið sem fer sífjölgandi.

Hvað sjávarútvegsmálin varðar eru helstu breytingar þær að fjárheimild málaflokksins lækkar nokkuð skarpt eða um 2 milljarða, sem er einfaldlega vegna byggingar á nýju hafrannsóknaskipi, en það verkefni er nú fullfjármagnað. Skipið er í smíðum í skipasmíðastöðinni Astilleros Armón í Vigo á Spáni. Það skip verður mun fullkomnara að öllu leyti en það sem það leysir af hólmi, sem er Bjarni Sæmundsson, sem er orðinn hálfrar aldar gamall. Ein af forsendum þess að við Íslendingar getum tekist á við þær breytingar sem eiga sér stað á umhverfi hafsins og vistkerfi þess eru viðamiklar hafrannsóknir og þetta nýja skip mun gjörbylta aðstæðum til hafrannsókna hér við land. Það verður sparneytnara og er smíðað með tilliti til þess að hægt sé að skipta um orkugjafa í því þegar það verður raunhæft. Hafrannsóknir og efling þeirra eru eitt þeirra mála sem ég tel að við þurfum að gera miklu betur í og raunar held ég að þó að við séum ósammála um margt tengt fiskveiðistjórnarkerfinu séum við öll sammála um gildi þess að styðja og styrkja hafrannsóknir. Það er ekki nóg að eiga öflug skip ef þau liggja bundin við bryggju. Því er mikilvægt að efla Hafrannsóknastofnun á næstu árum enn frekar. Þess vegna hef ég í hyggju að vinna að því á næstu árum að styrkja og efla hafrannsóknir við Ísland þannig að við getum skilið betur þær breytingar sem eru að eiga sér stað í hafinu og til þess að við getum aðlagast þeim. Það er mikilvægt nú þegar hagvöxtur hefur tekið við sér, og á næstu árum lokum við því mikla gati sem er í ríkisfjármálunum, að við forgangsröðum hafrannsóknum ofarlega og ekki síst þá vöktun og grunnrannsóknum.

Framlög til landbúnaðar eru að mestu leyti óbreytt að raungildi á næsta ári en þau framlög eru eðlilega tengd gildandi búvörusamningum. Á næsta ári fer fram seinni endurskoðun þeirra samninga og við það gefst tilefni til að líta yfir þróun í landbúnaðinum síðustu árin og velta því fyrir sér hvort samningarnir hafi virkað til að ná markmiðum stjórnvalda.

Það er ljóst að næstu sex til sjö ár verða afgerandi um það hvort við náum markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum og þar eru bændur lykilleikendur. Það eru fáar ef nokkrar greinar sem hafa jafn mikil tækifæri til að binda kolefni og bændur en til þess þurfa þeir að fá til þess verkfæri. Að sama skapi hefur innrás Rússa í Úkraínu sýnt okkur með ótvíræðum hætti að við þurfum að taka hugtakið fæðuöryggi alvarlega.

Virðulegur forseti. Undanfarin ár hefur fiskeldið vaxið hraðar en nokkur önnur atvinnugrein á Íslandi, að ég hygg. Slíkum vexti hafa fylgt ákveðnir vaxtarverkir. Þess vegna verða heimildir Matvælastofnunar auknar á næsta ári til að efla eftirlit með sjókvíaeldi þannig að stofnuninni verði kleift að fara í fyrirvaralausar úttektar á ástandi kvía undir sjávarborði og þá aukast einnig umsvif Fiskeldissjóðs vegna breytinga á fyrirkomulagi gjaldtöku af fiskeldi. Ég setti af stað umfangsmikla stefnumótun í þessum málaflokki til að við getum þróað kerfið með þeim hætti að sem mest verðmæti verði til á Íslandi og verði eftir á Íslandi og lágmarkað áhættuna sem þessi starfsemi hefur sannarlega í för með sér.

Rétt er að nefna líka fyrirhugaða aukna samlegð milli skógræktar og landgræðslu, aukin hlutverk þeirra stofnana og þeirra málaflokka í loftslagsmálum. Ég vænti þess, virðulegi forseti, að hér verði góð umræða um þessa mikilvægu kafla frumvarpsins og að fjárlaganefnd taki þessi mál ítarlega til skoðunar.