Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar snýr einmitt að þessu efni og ég er fyrsti flutningsmaður að frumvarpi um það og ég vona að hæstv. ráðherra geri svo lítið að fletta því frumvarpi áður en hún klárar að semja sitt eigið. Samþjöppun í sjávarútvegi er mikil og fáir útgerðarrisar verða stöðugt ríkari og valdameiri í samfélaginu og það er staðreynd. Takmörkuðum gæðum er haldið hjá fáum útvöldum. Við í Samfylkingunni höfum kallað eftir breytingu á þessu frá stofnun flokksins og bent á að einfaldasta leiðin að réttlátara kerfi sé útboð á aflaheimildum, að á hverju ári haldi kvótahafar t.d. 95% af úthlutuðum kvóta, en 5% fari í útboð með leigusamningum til ákveðins tíma. Þar með finnum við verðið sem útgerðirnar eru í raun tilbúnar til að greiða fyrir veiðiheimildir og opnun fyrir nýliðun í greininni, sem er afar mikilvægt að gera. Kerfið er lokað í dag. Það er auðvelt að semja útboðsreglur sem draga úr samþjöppun og gæta að byggðasjónarmiðum. Útboð er hin almenna regla og viðhöfð þegar ríkið úthlutar réttindum eða verkefnum til fyrirtækja. Forréttindaúthlutun sem tíðkast í sjávarútvegi gengur gegn stefnu jafnaðarmanna. Í dag greiða útgerðirnar rúmar 17 kr. í veiðigjald fyrir kíló af þorski sem rennur í ríkissjóð en leiguverðið er rúmar 400 kr. samkvæmt vef Fiskistofu um aflamarksviðskipti, útboði útgerða sín á milli. Þar gilda markaðslögmálin og krónurnar renna í vasa útgerðarmanna og þaðan í vasa erfingja þeirra líkt og stærsti hluti arðseminnar af nýtingu auðlindarinnar og óréttlætið og ójöfnuðurinn viðhelst og erfist. Ætlar hæstv. matvælaráðherra að láta óréttlætið viðgangast á hennar vakt?