Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:00]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Hæstv. matvælaráðherra lýsir því hér yfir að von sé á heildarendurskoðun og ég skil orð hennar þannig að þess sé ekki lengi að vænta. Við höfum hlustað á orð annarra forystumanna ríkisstjórnarinnar, t.d. hæstv. innviðaráðherra sem lýsti því yfir í sumar að það hlyti að vera kominn tími á það að við værum að tala um annars konar gjaldtöku en reyndin er í dag og fleiri ráðherrar hafa lýst þessu yfir. Ég sé það sem svo að fyrirstaðan við breytingar í sjávarútveginum sé í reynd afstaða Sjálfstæðisflokksins. Þegar hæstv. matvælaráðherra talar um heildarendurskoðun þá stendur samt eftir að heyra í hverju hún á að felast og hversu langt hæstv. matvælaráðherra telur sig komast með það. Þannig að ég myndi vilja ítreka fyrri spurningarnar tvær, hvort hún sé sammála áliti auðlindanefndarinnar um að þessi réttindi eigi að vera tímabundin. Það er gegnumgangandi stef og rauður þráður í allri löggjöf; það er í orkulögum, það er í lögum um fiskeldi, það er í lögum um nýtingu auðlinda í jörðu, þetta var í frumvarp ríkisstjórnarinnar um hálendisþjóðgarðinn. Sérreglan er alltaf sjávarútvegurinn. Er þetta breyting sem við munum sjá í heildarendurskoðun af hálfu matvælaráðherra? Hvernig sér hæstv. matvælaráðherra fyrir sér að ná utan um inntakið í 1. gr. laga þar sem talað er um þjóðareignina? Ég óska eftir svari við því, af því að þetta snýst jú ekki bara um hópana og vinnuna heldur pólitíska afstöðu hæstv. matvælaráðherra og kannski pólitískan veruleika ráðherrans líka og hverju hún telur sig geta náð fram innan ríkisstjórnarinnar af því að ég þykist vita hver afstaða hennar sjálfrar er.