Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Í ræðu minni undir stefnuræðu forsætisráðherra vék ég eins og hér var nefnt að því að við þyrftum að sýna stuðning okkar í verki, m.a. með fjárframlögum og öðrum hætti eins og við höfum gert. Það er sjálfsagt að greina frá því að tilefni þess var m.a. það að utanríkisráðherra hefur lagt fyrir ríkisstjórn upplýsingar um hvar við stöndum í norræna samhenginu og lagt áherslu á að vegna þess ástands sem hefur skapast á skömmum tíma í Úkraínu þá höldum við áfram að bæta í stuðninginn þannig að við séum í hópi norrænu ríkjanna hvað varðar umfang stuðningsins. Til þess þurftum við aðeins að bæta í og á það hefur utanríkisráðherra lagt mikla áherslu. Ég vildi með þessum orðum taka undir það.

Varðandi þróunarsamvinnuna að öðru leyti þá höfum við verið að bæta í. Það er stutt síðan að við vorum vel innan við 0,2% og við erum þó komin upp í 0,35% og við eigum að hafa metnað til að gera enn betur þar. Mér finnst ekki hægt að gera lítið úr því að við höfum þó náð að hækka hlutfallið þetta mikið á jafn skömmum tíma og raun ber vitni í ljósi þess að hagvöxtur á Íslandi hefur á sama tíma verið töluvert mikill, samanlagt um 10% í fyrra og í ár, þó að samdráttur hafi verið þar áður. Þegar við skoðum aukninguna sem hefur verið undanfarin ár þá finnst mér við vera á réttri leið.

Hér spyr hv. þingmaður hvort við eigum ekki að ganga lengra. Viðmiðið sem hann nefnir, Norðurlöndin, má segja að séu fyrst og fremst þau ríki sem gera hvað mest og til lengri tíma litið myndi ég vilja sjá meira gert. Ég myndi jafnframt vilja sjá að við nýttum þá fjármuni til að byggja upp þekkingu innan íslenska stjórnkerfisins, að allir (Forseti hringir.) þeir fjármunir myndu ekki eingöngu renna til fjölþjóðlegra stofnana þar sem fáir Íslendingar eru, heldur að það myndi safnast þekking í íslenska stjórnkerfinu samhliða aukningu.