Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér var vísað til Grænlandsskýrslunnar þar sem var farið ágætlega yfir þessa mörgu snertifleti sem löndin tvö eiga sameiginlega og sjónum beint sérstaklega að tækifærum til að dýpka samvinnuna. Það var velt upp ýmsum möguleikum, m.a. því hvort hægt væri að greiða fyrir frekari viðskiptum milli landanna með einhvers konar fríverslunarfyrirkomulagi. En þar eru könnunarviðræður ekki hafnar enn. Það er þó gert ráð fyrir því að hægt sé að koma á fót sérstakri viljayfirlýsingu milli ríkjanna um frekara og aukið samstarf. En í vestnorræna samhenginu, af því að hér var því velt upp hvort það gæti verið einhver opnun fyrir Hoyvíkursamninginn, þá held ég að það gæti kannski verið dálítið flókið að fara að bæta þriðja aðila þar inn og eins og vikið var að þá hafa því miður komið upp árekstrar vegna framkvæmdar hans. Ég ætla bara að lýsa þeirri skoðun minni að það sem við þurfum fyrst og fremst að gæta að í samskiptum við Grænland er einmitt að ekki komi upp spenna og ágreiningur heldur að það sé byggt upp á gagnkvæmum vilja beggja til þess að báðir aðilar geti notið ávinnings af dýpri samvinnu. Það hafa að sjálfsögðu verið talsverð umsvif íslenskra aðila í Grænlandi. Við þekkjum námuvinnslu sem er þar í gangi. Við þekkjum útgerðarstarfsemi sem hefur tengst Grænlandi og við þekkjum líka talsverðar verklegar framkvæmdir sem Íslendingar hafa staðið fyrir þar (Forseti hringir.) og í mínum huga þurfum við að stíga mátulega varlega til jarðar og vera með sjónir á því sem getur verið uppbyggilegt fyrir báðar þjóðir um leið og við aukum samstarfið.