Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég fagna þessum orðum hæstv. ráðherra mjög. Ég held að þetta séu ein mikilvægustu orð sem fallið hafa hér varðandi öryggis- og varnarmál okkar af hálfu ráðherra síðan innrásin í Úkraínu átti sér stað í febrúar, því að við þurfum að endurmeta, við þurfum að skoða mjög gaumgæfilega hvort við þurfum ekki að taka aðrar og fleiri ákvarðanir til að styrkja öryggis- og varnarmál okkar. Þegar ný grundvallarstefna NATO var samþykkt núna í sumar sagði forsætisráðherra að hún tæki ekki til okkar heldur frekar til austurhlutans. Eftir að hafa hlustað á hæstv. fjármála- og starfandi utanríkisráðherra þá horfir hann á þetta svipuðum augum og ég; nákvæmlega að við þurfum að meta öryggis- og varnarmál okkar út frá norðurslóðum, út af atgangi Rússa og eins Kínverja. Við þurfum að spyrja okkur hvort við séum að gera nægilega mikið og hvort við séum að beita okkur og getum beitt okkur með enn frekari og ríkari hætti innan NATO í samvinnu við okkar helstu bandamenn. Þannig að mér finnast þetta vera góð fyrirheit sem þetta spjall hér hefur leitt af sér. Þetta eru alvörumál. Frumskylda hverrar ríkisstjórnar, hverra stjórnvalda hverju sinni er að verja öryggi þjóðarinnar og öryggi borgaranna.

Ég veit að hæstv. ráðherra yrði mjög vonsvikinn ef ég minnst ekki á Evrópumálin. Ég ætla að taka skemmri skírn á þau núna og beina sjónum mínum að EES-málunum sem er náttúrlega okkar mikilvægasta samstarf nú um stundir. Vonandi breytist það þegar við erum búin að fá í gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna. En alla vega, mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki ætlunin að halda áfram með enn meiri samvinnu, sem reyndar mun kosta aukið fjármagn, til þess að dýpka enn frekar EES-samninginn? Auðvitað veldur það mér áhyggjum að heyra af og til efasemdarraddir m.a. úr Sjálfstæðisflokknum, frá Miðflokknum, um gildi og mikilvægi EES-samningsins. En engu að síður, á meðan hann er í gildi þurfum við að rækta hann mjög vel. Telur ráðherra þá nóg að gert miðað við þá ramma sem við búum við núna?