Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:26]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fólk finnur kaupmátt sinn rýrna og greiðslubyrði af húsnæði rjúka upp. Það er undir þessum kringumstæðum sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson vill hækka gjöld á almenning. Verðtryggingin kom illa við marga Íslendinga í bankahruninu en nú er Bjarni Benediktsson búinn að finna upp á nýrri verðtryggingu. Hann ætlar að verðtryggja hvert einasta gjald sem er innheimt af almenningi í þessu landi. Þarftu að keyra til og frá vinnu? Ertu í veitingarekstri? Notar þú neftóbak? Þá er Bjarni Benediktsson mættur með refsivöndinn að hækka gjöldin. Hann talar um mikilvægi aðhalds en takið eftir því að það er millitekjufólkið og lágtekjufólkið sem á að taka á sig allt aðhaldið, ekki stóreignafólk, ekki stórútgerðin, ekki fólkið sem greiðir sér milljarða í arð af nýtingu auðlindanna okkar. Nei, það eru bara gjöldin á almenning sem Bjarni Benediktsson ætlar að nota til að ná fram þessu aðhaldi og það gerir hann með því að verðtryggja gjöldin alveg í botn. Þannig virkar verðtrygging Bjarna Benediktssonar (Forseti hringir.). En hvers vegna er þessi leið valin af öllum mögulegum leiðum til að ná fram aðhaldi?