Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég er nú á sama stað og félagi minn, ég ætla að ræða hér forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag um einkarekna heilsugæslu, að hún hangi á algerum bláþræði og komu þær fréttir mér mjög á óvart. Það er ekki þægilegt fyrir nefndarmanna í velferðarnefnd Alþingis að lesa það að þjónusta við 70.000 skjólstæðinga hangi á bláþræði og samningar renni út eftir örfáa daga. Ég er sjálfur í ágætu talsambandi við forystufólk innan einkarekinnar heilsugæslu og átti ekki von á að jafn sláandi frétt myndi prýða forsíðu Morgunblaðsins um þessi málefni. Vandinn er samt sem áður sá, sem hér kom fram hjá ræðumanni áðan, að það er ekki rétt gefið á milli einkarekinnar heilsugæslu og ríkisrekinnar þegar kemur að fjármögnun og ýmiss konar þjónustu við stöðvarnar. Gögn, tæki og skráningarkerfi eru ekki aðgengileg einkareknum stöðvum, sem veldur auknum kostnaði og aukinni vinnu og vinnuálagi á starfsfólki. Dýrar tryggingar íþyngja rekstri einkarekinnar heilsugæslu og eins virðisaukaskattur og hærri rannsóknarkostnaður sem ríkisrekin heilsugæsla þarf ekki að greiða frekar en tækjakaup. Blóðrannsóknakostnaður á Landspítalanum er 30% dýrari fyrir einkarekna heilsugæslu en þá ríkisreknu. Á almennum markaði teldist slíkt verðsamráð ólöglegt og slíkt er kært og dæmt í.

Virðulegur forseti. Það má jafna leikinn og gera enn betur. Ég hef um það beinar upplýsingar að heilsugæslan í Urðarhvarfi gangi vel. Hún hefur komið afar vel út í þjónustukönnunum, hún hefur fleiri egg í körfunni, býr við góð afköst og nýtir ákveðið sjálfstæði og frelsi til að veita þjónustuna á sveigjanlegan hátt. Það má jafna leikinn og gera betur.

Virðulegi forseti. Einkarekin heilsugæsla hefur sannað sig í samkeppni við ríkisrekna heilsugæslu þó svo að ekki sé alveg leikið eftir sömu reglum um fjármögnun. Á Suðurnesjum er kallað eftir einkarekinni heilsugæslu. Nýlegt útboð skilaði ekki árangri. Mikilvægt er að einkarekin heilsugæsla rísi þegar á Suðurnesjum og þjónusti þar 30.000 manns sem bíða eftir betri þjónustu.