Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:16]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst vil ég koma aðeins við í ræðunni þar sem hv. þingmaður talar um hvernig áherslur Evrópusinna breytast svona frá tíð til tíðar, m.a. þessi efnahagslegu rök, þau eiga auðvitað fyllilega við enn þá. Við höfum alltaf haldið gildum á lofti. En það opnaðist fyrir okkur nýr veruleiki þegar Rússar réðust inn í Úkraínu. Það er auðvitað fráleitt að tala um að það hafi verið ósmekklegt að ræða Evrópusambandið við það tilefni, bara með nákvæmlega sama hætti og aðrar þjóðir, nágrannaþjóðir okkar, endurmátu sína hagsmuni við þessa atburði. Danir ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu að vera fullir þátttakendur í Evrópusambandinu, líka varnar- og öryggissamstarfinu. Finnar og Svíar óskuðu eftir að vera þátttakendur í NATO. Ég ætla að koma aðeins inn á það í seinna andsvari.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann um það, af því að hún virðist gefa sér að alþingiskosningar séu eina þjóðaratkvæðagreiðslan sem skipti máli, eins og þær séu þannig að það sé verið að kjósa um einstök mál og jafnvel svona mál. Þá spyr ég hana: Ef alþingiskosningarnar eru eina þjóðaratkvæðagreiðslan sem skiptir máli, hvers vegna lofaði þá Sjálfstæðisflokkurinn þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB í aðdraganda kosninganna 2013? Hvað hefur breyst? Við hvað er hv. þingmaður hrædd eða hvað óttast hún við það að gefa þjóðinni meiri aðkomu að ákvörðun í meiri háttar málum á tímum þar sem tæknin er með þeim hætti að almenningur er upplýstara nokkru sinni fyrr? Við hvað er hún hrædd?