Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:35]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég heyri að orðalagið varðandi ósmekklegheit Evrópusambandssinna hér á þingi hefur farið fyrir brjóstið á einhverjum. Þó hef ég notað það ítrekað hér í þingsal og skrifað um það sömuleiðis. En það fer svo lítið fyrir mér, kannski er ég of lágvær, ég veit ekki hvað það er. En ég stend og fell með því að mér finnst þetta ósmekklegt. Ég er búin að fara yfir það og útskýra að það er út af því að mér þykja engin málefnaleg rök hafa verið borin hér á borð um að við eigum að ganga í Evrópusambandið á þessum grunni. Ég er til í að ræða það á öðrum grunni en mér finnst þetta vera ósmekkleg tenging, þó að ég ætli ekki að halda áfram á þeim nótum að þetta séu ósmekklegar tengingar heldur fara yfir í næsta punkt varðandi samanburð við umsóknaraðila og að ríki eins og Moldóva og Úkraína séu að íhuga aðild að Evrópusambandinu. Mér finnst það kannski ekki fyllilega sambærilegt við það af hverju við ættum að íhuga aðild að Evrópusambandinu af augljósum ástæðum því eins og hv. þingmaður nefnir þá er svo margt annað sem fólk hugsar um þegar það íhugar aðild að Evrópusambandinu. Ég tel, svona kalt mat, að þessi ríki séu frekar að hugsa um það í efnahagslegu tilliti heldur en að þeim finnist þau vera að ganga inn í eitthvert sterkt varnarbandalag. Þegar kemur að því hvort það sé einhver eðlismunur á aðild að NATO og ESB þá er það svo sannarlega. Við erum fullir þátttakendur í Evrópusamvinnu í gegnum EES-samstarfið og í gegnum margt annað samstarf á ýmsum vettvangi tökum við þátt í Evrópusamvinnu. Hins vegar er hagsmunum okkar best borgið í varnarsamstarfi við Bandaríkin og innan sterkasta varnarbandalags heims sem er NATO. Í því liggur munurinn að mínu viti.