Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:05]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það ekki hv. þingmanns að meta hvar Norðmönnum er best borgið. Ég treysti þeim frændum okkar ágætlega til þess. Ég get hins vegar fullvissað hv. þingmann um að það er ekki úr lausu lofti gripið að nefna þetta vegna þess að sannarlega er hreyfing á þessari umræðu í Noregi. Flokkarnir sjálfir hafa farið aðeins hægar af stað vegna þess að þeir eru brenndir af þessum tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum. Þjóðin hefur þó sýnt málinu meiri áhuga, því spái ég að það gerist meira en minna í þessu máli og við þurfum þá að bregðast við því.

Varðandi öryggis- og varnarhagsmuni okkar þá finnst mér sýn Sjálfstæðisfólksins hérna vera býsna einföld. Þetta er ekki spurning um annaðhvort eða, þetta er spurning um hvoru tveggja. NATO er auðvitað hefðbundið varnarbandalag og veitir góða vörn gegn hinum hefðbundnu ógnum ófriðar eins og við þekkjum þær í gegnum aldirnar og byggir náttúrlega á fælingarmætti hefðbundinna vopna. Við erum að ganga inn í framtíð brjálæðislegra breytinga á tækni, fólksflutningum, loftslagshlýnun og öðru slíku þar sem friðinum verður ógnað á allt annars konar hátt en áður. Evrópusambandið hefur meira beitt sér á því sviði að vera fyrirbyggjandi þegar kemur að ófriði. Ég held að hvorugt geti án hins verið. Ég styð fyllilega veru okkar í NATO en ég held hins vegar að við eigum ekki að gera lítið úr þeim öryggis- og varnarþáttum sem Evrópusambandið talar fyrir og ætlar að gera sig meira gildandi. Ég spyr þingmanninn hvort hann sé ekki sammála mér um að við þurfum að huga að því og hvort þá lausn sé endilega að finna innan NATO.