Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Forsenda þess að samgöngukerfið geti talist öflugt er sú að öll geti nýtt sér það og á það sé hægt að treysta, að hægt sé að skipuleggja fram í tímann læknisheimsóknir, sækja tónleika, mæta á fundi o.s.frv. Inn í það spila vissulega breytur sem eru ófyrirsjáanlegar eins og veðurfar sem er og hefur verið órjúfanlegur hluti af tilveru okkar sem hér búum. Að öðru leyti ætti að vera hægt að treysta á þau almenningssamgöngukerfi sem við búum við og við eigum að geta treyst því að þau séu rekin með það í huga að veita okkur almenningi þá þjónustu sem við þurfum á að halda.

Það sem af er þessu ári hefur verið veruleg brotalöm á flugsamgöngum innan lands eins og margítrekað hefur komið fram í fjölmiðlum. Það sem af er septembermánuði hafa flugáætlanir til og frá Akureyri að mestu leyti ekki staðist og það sama á við líka austur á land. Ég hef reynt það sjálf, seinkun eða niðurfellingu flugs, oft með mjög litlum fyrirvara. Nú er svo komið að þeir sem þurfa að nýta sér flugsamgöngur eru hættir að treysta á þær. Þetta er ekki boðlegt. Og hver er ástæðan? Samkvæmt forstjóra Icelandair er um að kenna stórum viðhaldsverkefnum sem töfðust vegna Covid en hann lofar úrbótum í þessum málum og öðrum sem betur mega fara og hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. En það var líka sagt í sumar að þetta væri vegna Covid og viðhalds og það getur tæpast átt við alltaf.

En hvernig ætlar Icelandair að bæta sig og byggja upp traust að nýju? Það er ekki nóg að funda með sveitarstjórnum, við þurfum að fá að sjá áætlun, öll sem eitt. Það þarf að koma í veg fyrir að þessar óásættanlegar aðstæður skapist ítrekað og því hefur ekki verið svarað hvernig það á að gera. Um er að ræða fokdýran ferðamáta og landsbyggðarfólk tapar jafnvel Loftbrúnni sem flugfélagið hirðir þá í eigin vasa. Ég sagði áðan að þetta væri ekki boðlegt og ég segi það aftur. Við verðum að gera þær kröfur til Icelandair að flugsamgöngur séu í ásættanlegum farvegi og þjóni okkur sem á þær treystum. Það þarf að láta verkin tala.