Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það var áhugavert að hlusta á tvo hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma hingað í ræðustól undir þessum dagskrárlið í gær og lýsa furðu sinni og depurð vegna þeirra erfiðleika og þeirrar andstöðu sem hefur mætt einkareknum heilsugæslustöðvum af hálfu stjórnvalda síðustu fjögur, fimm árin. Það er ekki bara þannig að það hafi gerst í stjórnartíð ríkisstjórnar sem flokkur þessara ágætu þingmanna á aðild að heldur sátu þeir báðir í velferðarnefnd Alþingis á meðan, svo ég vísi í orð viðmælenda Morgunblaðsins í frétt sem virðist hafa vakið hv. þingmenn, heilbrigðisyfirvöld lögðu sig í líma við að grafa undan tilvist einkarekinna heilsugæslustöðva, sem þjóna nota bene yfir 70.000 einstaklingum á stórhöfuðborgarsvæðinu.

Herra forseti. Ég var líka í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili og hef ekki tölu á þeim fjölda ræðna, greina, breytingartillagna og þingmála sem ég lagði fram til að vekja athygli á nákvæmlega þessari stöðu. Ég hef heldur ekki tölu á því hversu oft forsvarsfólk einkareknu heilsugæslustöðvanna setti sig í samband við mig og okkur í þingflokki Viðreisnar til að fara yfir þessi mál. En þetta kemur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í velferðarnefnd mjög á óvart og er að sögn þeirra alvarlegt að það sé nú að koma í ljós að leikurinn hafi ekki verið jafn frá árinu 2017 og hallað hafi á einkareknar heilsugæslustöðvar gagnvart þeim ríkisreknu.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að ganga út frá því að tilraun hafi verið gerð af hálfu forsvarsmanna einkareknu stöðvanna til að ná eyrum annarra þingflokka og ég ætla líka að gera ráð fyrir því að mögulega hafi sérstaklega verið leitað til Sjálfstæðisflokksins. Það hefði jafnvel mátt gera ráð fyrir áhuga á málinu hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem tala á tyllidögum um sig sem boðbera einkaframtaksins. En það virðist ljóst að sú orðræða er á sömu vegferð og orðræða flokksins um minni umsvif ríkisins og báknið burt; áferðarfalleg en innihaldslítil.