Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Já, það var töluverð umræða um að það þyrfti að vera á hreinu hver skilgreiningin væri á neysluskömmtum og það er alveg rétt. Þegar tekin er ákvörðun um að það eigi ekki að refsa fyrir neysluskammta en það eigi að refsa fyrir annað magn af efnum þá þarf lögreglan auðvitað að vita og ákæruvaldið að vita hvar á að draga mörkin. Það er fullkomlega eðlileg krafa að það sé sett skýrt fram. Rétt eins og hv. þingmaður kom inn á hefur öðrum löndum tekist að setja reglur um það hvað sé neysluskammtur og hvað ekki. Það hefur verið talað um að hið íslenska gras sé miklu sterkara en hið erlenda gras þannig að mögulega þyrftum við að hafa það í huga — eða ekki. Ég held að við eigum bara að fylgja fordæmi þeirra sem hafa haft slíka löggjöf um einhverja hríð og læra af þeim og gera eins og aðrir gera þetta. Ég held að þetta séu ekki slík geimvísindi þótt ég hafi ekki sjálf verið í virkri neyslu fíkniefna.