Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[18:50]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna alltaf umræðu af þessum toga og mér finnst gríðarlega mikilvægt að við séum hér að tala um þetta. Ég veit að vonbrigðin hafa verið mikil yfir því að málið hafi ekki náð fram að ganga á undanförnum árum. Mig langar þó að benda á að málið hefur þróast og ég held að hv. þingmenn átti sig alveg á því að viðhorfin til afglæpavæðingar, eða refsileysis neysluskammta, eru allt önnur í dag en þau voru fyrir tveimur árum, fimm eða tíu. Þess vegna tel ég svo sem ekkert óeðlilegt að við séum hér enn að ræða það því að það hefur kannski ekki alveg öllu verið svarað.

Ég hef verið að hlusta í dag og margt hefur mér þótt gríðarlega gott og í grunninn er ég svo einlæglega sammála því sem frumvarpið fjallar um. Ég er algerlega sannfærð um að við eigum að horfa til þessa hóps af mannúð. Ég er algerlega sammála því að við eigum að stefna í átt að refsileysi að einhverju leyti. Ég er einlægur aðdáandi skaðaminnkandi úrræða en það er samt ýmislegt í frumvarpinu sem stingur aðeins í augun og mig langar aðeins að nefna það.

Hér hefur t.d. verið rætt um þennan gríðarlega ótta við lögregluna, að þegar fólk tekur of stóran skammt þá þori aðrir ekki að hringja eftir aðstoð vegna hættu á að fá sekt eða af hræðslu við afskipti lögreglu. Mér finnst þetta ekki alveg passa saman, að vera að skilgreina neysluskammta og refsileysi þeirra. Ég held að það sé ekki mikið um það að fólk með einhvern neysluskammt af kannabis sé að taka of stóra skammta og lenda í þeirri aðstöðu að hringja þurfi eftir aðstoð.

Mér finnst bara vera rosalega mikill hræðsluáróður í umræðunni. Ég verð að líta þannig á málið, eins og hefur komið fram hér í umræðunni í dag og alltaf er verið að vísa í, að það sé verið að drepa málum á dreif og að við viljum enga framþróun og viljum ekki horfa til þeirra vandamála sem eru til staðar. Staðan er einfaldlega sú að á Íslandi hefur ekki verið rekin refsistefna, á Íslandi hefur bara engin almennileg stefnumótun verið gerð í málefnum fíkla. Þar liggur vandinn. Við erum með fá úrræði og mörg hver algerlega ófagleg. Við erum með villta vestrið í mörgum málaflokkum er lúta að fíklum. Hver sem er, með hvaða menntun sem er eða menntunarleysi, getur opnað athvarf eða stofu með einhvers konar ráðgjöf. Við myndum, af því að hér hefur verið vísað í sykursjúka og krabbameinssjúka eða barnalækningar, aldrei sætta okkur við þessa nálgun með nokkra aðra sjúklinga.

Fíknivandinn er gríðarlega flókið fyrirbæri. Þetta er ekki einsleitur hópur. Það hentar ekki öllum að leggjast inn í sjúkrahúsmeðferð í tíu daga. Það hentar enn síður öllum að fara í eitthvert annað úrræði þar sem fyrirbænir eiga að takast á við veikindin. Það hentar ekki brotnum ungum stúlkum að vera í blönduðum úrræðum með eldri mönnum með ofbeldissögu og dóma. Það er svo ótrúlega margt sem er brotið í þessu kerfi og þar liggur feillinn, ekki í því að fíklum sé refsað fyrir neysluskammta.

Og ég hef ekki einu sinni alveg skilið orðræðuna. Ungur krakki sem er handtekinn verður svo trámatíseraður að hann fer í neyslu. Ég næ því ekki alveg. Var ekki verið að tala um að hann væri tekinn með fíkniefni? Við getum ekki komið í veg fyrir að lögregla hafi afskipti af fólki sem er að brjóta af sér, hvort sem það er að keyra of hratt, selja, nota eða dreifa fíkniefnum eða brjótast inn. Það verður alltaf áfall að vera handtekinn en það leiðir ekki alla lóðbeint í það að fara í harða fíkniefnaneyslu. Ég skildi alla vega ekki alveg hvert hv. þingmaður var að fara í ræðu sinni. Þó að þetta orð sé orðið út úr notað og þreytt þá held ég að grunnurinn okkar verði að vera stefnumörkun í málefnum fíkla.

Fíklar eru ekki einsleitur hópur. Við sjáum t.d. aukningu í áfengisdrykkju sem er komin út fyrir einhver hófleg mörk þar sem fólk yfir 67 ára er komið í vanda. Við erum að horfa á fólk sem er í góðri stöðu, er efnahagslega sterkt, félagslega sterkt, en er komið í gríðarlegt óefni með fíkniefnaneyslu. Við erum að horfa á fólk á öllum aldri sem er búið að missa algjörlega fótanna, býr á götunni, fær enga heilbrigðisþjónustu, ekki tannlækningar, er í húsnæðisvanda. Við erum að horfa á alla flóruna og vandi okkar hér á landi er fyrst og fremst sá að það hefur aldrei verið vilji til að ræða þetta á faglegum grunni, að við viljum ekki fara í þá stefnumótun að greina vandann, fjölga úrræðunum, mæta fólkinu þar sem það er statt.

Ég held að einn hluti af því sem þarf að gerast sé að hætta að refsa fólki fyrir vörslu neysluskammta en ég held að það sé ekki það sem leysi hinn stóra vanda. Unga fólkið okkar er ekki að deyja vegna þess að það fékk 50.000 kr. sekt fyrir að vera með neysluskammt af kannabis. Þetta snýst alltaf, eins og í svo mörgum umræðum hér í þessum sal, um forgangsröðun. Hvernig getum við staðið saman þvert á flokka með það að efla úrræði fyrir þá hópa sem standa verst, með því að mæta þeim á þeim stað sem þau eru. Fólkið sem er heimilislaust og hefur ekki tök á því að sækja sér almenna heilbrigðisþjónustu, þá er ég ekki að tala um meðferð við sínum vanda heldur er ég að tala um kvensjúkdómalækningar, hjartalækningar, hvað sem er — hvernig getum við mætt þessu fólki sem þarf úrræði? Það hentar ekki að setja upp fleiri neyðarskýli. Það leysir ekki vandann af því að það hentar ekki fyrir alla að fara þangað. Við þurfum að horfast í augu við það að í mörgum úrræðum sem við höfum komið á fót, bæði sveitarfélög og ríkið, er brotið á konum. Þar hefur fólk aðgang að þeim. Við erum einhvern veginn alltaf að klóra í einhvern bakka.

Ég efast ekki um að öll sem láta sig málefni þessa hóps varða gera það af heilindum, af því að þeim er umhugað um þessa einstaklinga. En ég held að feillinn okkar sé sá að við höfum ekki sem samfélag látið ríkið taka ábyrgð á þessari heilbrigðisþjónustu. Ríkið hefur ekki farið í þessa stefnumörkun. Hér var sett af stað af síðasta heilbrigðisráðherra vinna við greiningu en ég hef ekki frétt af henni síðan eftir kosningar og hef þó tvisvar spurt um hana hér í þingsal. Þar held ég að vandinn liggi fyrst og fremst.

Þið heyrið alveg að ég er heit í þessari umræðu. Ég og fleiri hér í þessum þingsal sem höfum staðið í þeim sporum að missa nákomna ættingja og hafa einhvern veginn ekkert getað gert, alveg sama hvað við föðmuðum þau fast eða hve oft við hringdum eða hvort við þekktum einhvern sem hafði eitthvað með biðlistana á Vogi að gera; það var ekki það sem þurfti í þeim tilfellum.

Ég ætla að halda því fram að ég muni alltaf standa í lappirnar þegar kemur að því að vinna að betri umönnun fyrir þennan hóp. Ég mun gera það á öllum vígstöðvum eins og ég hef alltaf gert. Ég held að afglæpavæðing sé það sem koma skal. Mér finnst stærð neysluskammta óljós í frumvarpinu. Þetta er eins og séríslenska gæludýraofnæmið, við getum ekki leyft hunda í strætó vegna þess. Og við erum þá greinilega með þessa séríslensku skammtastærð, það er vandamál sem ekki er hægt að finna út úr eins og bent var á hér áðan. En ég skil ekki hvernig á þá að vera hægt að greina á milli þegar þú ert með ákveðna neysluskammta sem við komumst að niðurstöðu um að séu 5 grömm eða eitthvað — þú mátt samt vera með tíu daga neysluskammt, ef ég skil frumvarpið rétt, sem er orðið eitthvað miklu meira en 5 grömm, og hver ætlar þá að meta það ef ég segi: Nei, þetta er bara fyrir mig út vikuna eða: Ég er á leiðinni að selja þetta? Ég skil ekki hver á að meta það. Er það á ábyrgð lögreglunnar að trúa því eða hvar liggur sönnunarbyrðin í því?

Það sem mér finnst alvarlegast í þessari umræðu er hin gríðarlega normalísering á kannabis sem er að mínu mati ótrúlega skaðlegt efni, gríðarlega skaðlegt efni. Hér kom fram í ræðu einhvers áðan að reynslan sýni að margt fólk sem notar efnið á unga aldri hætti svo bara upp úr þrítugu og þetta sé ekkert mál. Í 20 ár hefur það þá verið vandamál. Vitum við hvort viðkomandi kemur heill út hinum megin? Er hann með varanlegan skaða af þessari neyslu?

Mig langaði bara að nefna þetta af því að mér finnst rosalega alvarlegt að við normalíserum fíkniefnaneyslu, að við tölum þannig að allir sem nota fíkniefni séu alger grey og við séum bara öll vond ef við viljum ekki fara einhverja eina ákveðna leið. Það er svo sannarlega ekki þannig. Við erum öll sammála um að bæta þarf úrræðin. Það þarf að fjölga úrræðum, það þarf að hafa faglegt eftirlit og ríkið á að bera ábyrgð á því. En það að setja fólk í einn og sama flokk og velja þá einu leið eins og var sagt svo snyrtilega hér áðan — þetta eru margir hnútar. Þetta eru perlur á bandi og þó að ég taki eina perlu út með því að taka út refsingu fyrir neysluskammta þá er ég samt með perlufestina næstum því alveg óbreytta enn. Þar verðum við að setja fókusinn. Við verðum að setja fókusinn á stefnumörkun, rík skilyrði fyrir því að faglegt mat, faglegt eftirlit, fagleg menntun — þeir sem eru umönnunaraðilar eða að aðstoða fólk í meðferð og annað eiga að vera með viðurkennda menntun sem er staðfest af landlækni en ekki heimatilbúna menntun eins og við sjáum allt of víða. Mér finnst það líka mjög ótrúlegt að ef fólk sem kemur út úr meðferð þarf áframhaldandi hjálp geti hver sem er leigt einhverja íbúð, sett upp einhverja aðstöðu og opnað áfangaheimili. Við höfum engan metnað í málefnum þessa hóps og við þurfum að gera miklu betur.