Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[19:15]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Þetta snýst ekkert um kannabis, það er náttúrlega enginn að deyja úr ofneyslu á kannabisi. Það vitum við, enda er stórmerkilegt, og umræða út af fyrir sig, af hverju kannabis er ólöglegt en áfengi er leyfilegt, miðað við að áfengi er margfalt, margfalt skaðlegra. En það er önnur umræða.

Það er bara þannig að þetta er vandamál, hvort sem hv. þingmaður trúir því eða heldur það eða ekki. Gögnin sýna okkur í öðrum löndum að það er vandamál að fólk veigrar sér við að hringja eftir aðstoð og þjónustu og aukin dauðsföll af því að fólk er ekki að hringja í aðstoð af því að það er hrætt við lögregluna. Við eigum ekki sem borgarar í réttarríki að óttast lögregluna, hvort sem við notum vímuefni eða ekki, en fólk sem notar vímuefni er hrætt við lögguna og er ekki að hafa samband við lögguna og er ekki að hringja í sjúkrabíl af því að löggan kemur fyrst. En þetta er minni hlutinn af þessu samtali.

Nú eru meira en þrjú ár liðin síðan ég lagði fram frumvarp um afglæpavæðingu í fyrsta skipti (Forseti hringir.) og í hvert einasta skipti koma stjórnarliðar hingað upp og segja að við þurfum að efla meðferðarúrræði (Forseti hringir.) en að við getum ekki gert neitt fyrr en við skoðum þetta heildstætt á öllum meðferðarúrræðum. Þrjú ár — af hverju ekki er búið að gera það svo við getum loksins farið að hætta að refsa fólki fyrir að nota vímuefni? (Forseti hringir.) Af hverju erum við ekki búin að þessu? (Forseti hringir.) Verður þetta endalaust afsökunin fyrir að halda áfram að refsa fólki og auka á þjáningar þess?

(Forseti (ÁLÞ): Þingmenn eru minntir á að virða tímamörk.)

Ég biðst innilega afsökunar.