Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[19:18]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka Jódísi Skúladóttur fyrir hennar ræðu. Ég vil byrja á því að benda á þann misskilning þegar ég var að tala um hvernig kerfið taki á þessum mikla vanda og refsingum að ég hafi verið að tala um aðstandendur. Það eru margir aðstandendur inni í þessum sal, m.a. ég, og ég veit að það virkar ekki að taka bara utan um fólk, bara svo það sé alveg á hreinu. Þetta var ekki ætlað til aðstandenda né var það um aðstandendur. Þetta átti að vera um kerfið og það varð misskilningur hjá mér. Þetta snýst um það að við séum ekki að refsa. Þetta snýst bara um það. Þetta snýst bara um að þú óttist ekki að fá einhverja refsingu. Það að hv. þm. Jódís Skúladóttir sé ekki sammála og skilji ekki hvernig ég geti komist að þeirri niðurstöðu að ef lögreglan hefur afskipti af þér þegar þú ert ungur geti það haft áhrif á þig það sem eftir er lífsins er allt í lagi. Það er allt í lagi að hv. þingmaður skilji það ekki. Það er ruglingslegt vegna þess að hver og einn hefur sína vegferð. Ég get ekki sagt: Já, þessi einstaklingur mun fara í harða neyslu út af þessu eina atviki. En ég get sagt að þetta atvik var ekki til bóta. Þetta atvik hafði kannski þau áhrif að vekja upp hræðslu. Kannski varð eitthvað atvik til þess að þér leið illa. Þetta er ekki þannig að það verði alveg pottþétt til þess að einstaklingurinn fari í rosa mikla neyslu. En þess vegna vil ég spyrja: Finnst þér að áfengisneysla ætti að vera refsiverð fyrst það er refsað fyrir aðra fíkn?

(Forseti (ÁLÞ): Þingmenn eru minntir á að þeir eiga að ávarpa forseta en ekki beint hvor annan.)