Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[19:39]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur fyrir góða spurningu. Við þurfum að sjálfsögðu að taka þetta í skrefum. Það sem við erum að ræða um hér í kvöld er fyrsta skrefið. Erum við með akkúrat rétta skilgreiningu og akkúrat rétta aðferð í þessu frumvarpi? Kannski komumst við að því eftir tvö, þrjú ár að það mætti gera betur og eitthvað annað mætti gera betur. Við eigum ekki að halda að við þurfum að koma með fullkomin lög og fullkomna aðferð í upphafi. Nákvæmlega eins og hv. þingmaður benti á þá byrjuðum við á því að afnema refsinguna við því að drekka áfengi en við töldum að það væri nú ekki gott fyrir fólk að drekka áfengi og leyfðum t.d. ekki bjór í 50 ár eða svo. Við reyndum líka að hafa það þannig að það sem var selt í áfengisversluninni var eiginlega ódrekkandi, en fólk drakk það nú samt. Svo man ég eftir því þegar ég var tvítugur þegar bjórinn var leyfður. Við tókum þetta allt í skrefum, já. Hér er fyrsta skrefið, nákvæmlega sama fyrsta skref og tekið var þegar ekki var lengur bannað að drekka áfengi. Síðan höldum við áfram á þessari vegferð og áttum okkur á því hvernig við getum virkilega tekið vel utan um fólk með fíkniefnavandamál, eitt skref í einu.